Fara í efni

NÚ MAINE - NÆST TEXAS EÐA BÆJARALAND?

spurningamerki
spurningamerki

Hugsanlega er það vankunnátta mín sem olli því að ég staldraði við frétt í Fréttablaðinu á þriðjudag. Þar segir frá því að Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra og Paul LePage, ríkisstjóri Maine í Bandaríkjunum, hafi skrifað undir samkomulag um aukið samstarf á milli Maine og Íslands: 

"Samkvæmt samkomulaginu verður unnið að því að efla viðskiptatengsl Íslands og Maine meðal annars með áherslu á orkumál, viðskiptaþróun, samgöngur, nýtingu náttúruauðlinda og menningarmál. Rædd voru ný viðskiptatækifæri sem skapast með beinum siglingum á milli Reykjavíkur og Portland. Þá munu stjórnvöld leita leiða til að starfa saman að hagsmunamálum á norðurslóðum, m.a. varðandi umhverfisöryggi og leit og björgun..."

Ég sem hélt að alríkisstjórnin í Washington færi með utanríkismál fyrir Bandaríkin, þar með samstarf á norðurslóðum. Hvað skyldi felast í samkomulagi Íslands og Maine um nýtingu náttúruauðlinda og samstarf á sviði orkumála?

Vandræði hve sumarhlé Alþingis er langt því þá gefst ekki tækifæri til að fá svör við spurningum af þessu tagi beint úr munni utanríkisráðherrans í ræðustól Alþingis og nota þann vettvang siðan  til að veita framkvæmdavaldinu uppbyggilegt aðhald eftir atvikum.

Eflaust hef ég misst af ítarlegri umfjöllun um þennan "milliríkjasamning". Ef sú umfjöllun hefur ekki átt sér stað væri ástæða til þess að fjölmiðlar segðu okkur allt af létta um þessa nýju samskiptaaðferð á alþjóðavettvangi og sköpuðu síðan vettvang til umræðu. Þar yrði eflaust spurt hvort búast megi við fleiri "milliríkjasamningum", t..d. við Texas í Bandaríkjunum eða Bæjaraland í Þýskalandi.

Ekki ætla ég að afskrifa samskipti af þessu tagi nema síður sé - enda fremur gefinn fyrir dreifstýringu - en við þurfum að vita hvað þarna hangir á spýtunni og efna til umræðu um málið.