NÚ ÞARF AÐ BRETTA UPP ERMAR
Birtist í Morgunblaðinu 15.08.09.
Að undanförnu hafa Alþingismenn í stjórn og utan stjórnar fengið áskoranir um að upplýsa allt sem vitað er um skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins jafnframt því sem hvatt er til þess að við stöndum vörð um auðlindir þjóðarinnar. Fólk veit sem er, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) hefur í tímans rás, þar sem hann hefur komið við sögu, iðulega skuldsett ríkissjóði vanmáttugra þjóða, gert jafnframt kröfur til þeirra um að færa dýrmætar eignir sínar í sölubúning (les. gera þær að hlutafélögum) sem síðan hafa verið teknar upp í pant lánardrottnanna. Erlendir sérfræðingar sem voru hér á ferð nýlega minntu okkur á þennan gang mála.
Hlustum á rödd þjóðarinnar
Varnaðarorð þessara manna og kröfur almennings á að taka alvarlega. Það geri ég. Því miður hafa augu fólks í alltof litlum mæli beinst að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á undanförnum áratugum. Lýðræðislegt aðhald hefur fyrst og fremst verið á götum úti í mótmælum almennings. Þegar vakið hefur verið máls á framlagi Íslands á fundum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða málflutningi fulltrúa annarra Norðurlanda sem talað hafa þar einum rómi, hefur áhugi fjölmiðla enginn verið. Engin viðbrögð á Alþingi heldur. Þetta þekki ég af eigin reynslu þegar ég hef margoft bent á að Íslendingar hafi tekið þátt í því á vettvangi AGS að hvetja til einkavæðingar grunnþjónustu (t.d. rafmagns og vatns) í fátækum ríkjum sem hafa lent í klóm Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hér er því vissulega verk að vinna, að gera umræðuna gagnsærri og lýðræðislegri. Á alþjóðlegum fundum verkalýðshreyfingarinnar hef ég hvatt til hins sama; að lýðræðisleg öfl láti sig varða ákvörðunartöku í AGS.
Gætum auðlindanna
En nú erum við sjálf lent í sömu hættu og fátæk þróunarríki. Menn óttast að við missum auðlindir okkar, fiskinn, náttúruperlur, vatnið, bæði kalt og heitt, orkuna, Landsvirkjun...
Hugurinn reikar til liðinna ára, til harðvítugra deilna um markaðsvæðingu sjávarauðlindarinnar, bankanna, einkavæðingu heita vatnsins og hvernig okkur tókst að koma í veg fyrir að kalda vatnið færi sömu leið. Nú dugir hins vegar ekki að horfa til baka heldur fram á veginn. Brýnasta krafa samtímans er að tryggja eignarhald þjóðarinnar á auðlindunum, öllum auðlindum sem eru eðli máls samkvæmt sameign íslensku þjóðarinnar. Andstaða Sjálfstæðisflokksins við slíkar fyrirætlanir hlýtur að vekja athygli kjósenda í komandi Alþingiskosningum. Flokkurinn hefur greinilega ekkert lært og virðist staðráðinn í því að halda áfram á sömu braut.
Tal hans um skatta og niðurskurð eru af sama meiði. Veruleikafirringin er algjör.
Skattakrónur vegna Sjálfstæðisflokks
Flokkurinn lýsir sig andvígan hækkun skatta á einstaklinga. En skyldu menn gera sér grein fyrir því að þegar Sjálfstæðisflokkurinn komst til valda árið 1991 þá voru einstaklingsskattar 28% af tekjum ríkisins en eru nú 34%? Og það sem meira er, byrðunum er nú ójafnar dreift en þá var, því sköttum hefur verið létt af hátekjufólki en hlaðið án afláts á láglaunamanninn, öryrkjann og hinn aldraða. Það sem við viljum gera er að jafna þessum byrðum á réttlátari hátt og að því marki sem við kunnum að vera nauðbeygð til að hækka skattbyrðarnar þegar á heildina er litið, þá skulu menn hafa það hugfast að hver einasta umfram skattkróna er vegna Sjálfstæðisflokksins, stefnu hans og óstjórnar, hún er vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur leitt þjóðina út í hyldjúpt skattafen og inn í faðm Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Niðurskurðurinn er af nákvæmlega sömu rót runnin. Sjálfstæðisflokkurinn ætti því að tala af meiri yfirvegun og hógværð en hann gerir.
En hvað er til ráða? Auk þess að tryggja með löggjöf og í stjórnarskrá eignarhald þjóðarinnar á auðlindunum verðum við að leita allra ráða til þess að halda skuldum ríkissjóðs gagnvart erlendum lánardrottnum í algeru lágmarki þannig að við þurfum ekki að fórna velferðar- og menningarþjóðfélaginu af þeim sökum. Hverjum skyldi vera best treystandi til þess? Okkur sem höfum verið meðvituð um hætturnar um langt árabil, eða leiðsögumönnum þjóðarinnar út í fenið?
Við getum þetta saman!
Þegar til kastanna kemur er það þó þjóðin ein sem er fær um að leysa vandann. Hann er svo risavaxinn að aðeins í sameiningu getum við ráðið við hann.
Að sumu leyti má líkja ástandinu nú við stríðsástand. Sem betur fer hafa Íslendingar takmarkaða reynslu af stríði. Aðdragandi stríða, stríðin sjálf og eftirstríðsárin eru samfélögunum hræðileg lífsreynsla. En eitt getur sú reynsla kennt. Þegar þjóðfélög lenda í miklum hremmingum þá kemur í ljós hvílíkur fítonskraftur býr innra með þeim ef innviðirnir á annað borð eru sterkir, þau byggjast á sterkri menningarlegri arfleifð og viljastyrk til að sigrast á erfiðleikum.
Ef við ræðum opinskátt um hlutina, höfum allt uppi á borði, leggjum saman á ráðin, þá tekst þetta. Ég hef komið á ótal vinnustaði á undanförnum vikum, fundið þar samkenndina, ábygðina og löngunina til að leggjast saman á árarnar. Allir vita að nú þarf að bretta upp ermar. Allt þetta hefur fyllt mitt brjóst bjartsýni.