NÚ ÞARF AÐ KJÓSA FÓLK SEM STENDUR Í FÆTURNA Í STJÓRNARANDSTÖÐU
Ljóst má vera að næsta ríkisstjórn verður hægri stjórn hugsanlega þó með örlitlu félagslegu ívafi því að líklegt má heita að Samfylkingin sitji við enda ríkisstjórnarborðsins í Stjórnarráðinu á komandi kjörtímabili. Hún segist vera félagslega þekjandi. Það á hins vegar eftir að koma í ljós hve djúpt það ristir. Eitt er þó alveg víst að hinn félagslegi þráður mun aldrei verða sýnilegur án aðhalds. Hér hræða að sjálfsögðu dæmin frá „viðreisnarárum“ sjöunda áratugarins þegar kratar og íhald vermdu ráðherrastólana í góðu samkomulagi, fyrri hluta níunda áratugarins þegar Sjálfstæðisflokkurinn studdi sig við Alþýðuflokkinn að ógleymdri Hrunstjórninni 2007-2009 þegar Samfylkingin var í stjórn ásamt Sjálfstæðisflokki. Það er ekki lengra síðan! Allt hefur þetta meira og minna verið strokað út úr huga kratans, alltaf er nýtt upphaf!
Líklegt má heita að Viðreisn komi til með að sitja við ríkisstjórnarborðið ásamt Samfylkingunni. Seint verður Viðreisn kennd við félagshyggju. Að uppstöðu til er Viðreisn klofningur hægra megin úr Sjálfstæðisflokknum. Viðreisn er í reynd harðsvíraður hægri flokkur og verður það ekki dulið með smellnu tik/tok tali. Við munum hve vel þau tóku sig út á mynd hönd í hönd í sigurvímu Bjarni formaður og Þorgerður Katrín varaformaður Sjálfstæðisflokksins í lok landsþings flokksins árið 2009.
En svo er að skilja að þrátt fyrir þessa fortíð vilji Viðreisn heldur vera með Samfylkingunni en Sjálfstæðisflokknum að þessu sinni. Þar spila eflaust Evrópusambandsdraumar inn í. Enn mun þó eitthvað vanta upp á að Samfylking og Viðreisn myndi takast að mynda ríkisstjórn án frekari liðveislu og sækja Píratar það hart að komast að ríkisstjórnarborðinu jafnvel enn æstari en Flokkur fólksins. Það ætti að vera auðvelt fyrir Pírata að starfa með Viðreisn. Hvorki í orði né á borði hafa Píratar reynst vera félagshyggjuflokkur í seinni tíð. Eftir því sem mér skilst telur Pírataflokkurinn hægri og vinstri vera úrelt hugtök. Það er nokkuð sem ég get ekki samþykkt fyrir mitt leyti.
Ég held að allir skilji hvað átt er við með hægri og vinstri þótt margir hafi gaman af hártogunum um þessi hugtök. Samþykki við einkavæðingu er þannig klárlega í anda pólitískrar hægri stefnu svo nefnt sé dæmi um mjög raunverulegt átakamál í okkar samtíma. Framlag Pírata til stjórnmálanna hefur snúið að öðru, nefnilega kröfunni um gagnsæi og beint lýðræði. Hvort tveggja er virðingarvert. En þar með lýkur erindi Pírata í mínum huga.
Það sem við þurfum á að halda nú er eitthvað miklu meira afgerandi. Við þurfum á að halda alvöru baráttu til varnar og sóknar gegn hernaðarhagsmunum og auðvaldi sem hefur troðið sér inn í alla anga samfélagsins og vill enn meira, ekki bara kvótann, heldur firðina, vatnið, bæði heitt og kalt, jarðnæði; allar auðlindir hverju nafni sem þær nefnast, innviðina og orkuna eða eru menn nokkuð búnir að gleyma orkupökkum Evrópusambandsins?
Því miður hefur fjárgróðaöflunum orðið mikið ágengt á undanförnum árum og er fólk nánast hætt að taka eftir fréttum þar að lútandi. Fyrir fáeinum dögum var sagt frá því að reksturinn á alþjóðflugvellinum í Leifstöð yrði nú fengin þýsku fyrirtæki í hendur.
Útboð fór í gang á síðasta ári – nánast í kyrrþey. Aldrei voru minnstu viðbrögð úr Stjórnarráðinu þegar varað var við því sem í vændum var.
Á komandi kjörtímabili má ekkert verða í kyrrþey. Þess vegna er mikilvægt að við kjósum með það fyrir augum að kalla fólk inn á Alþingi sem kemur til með að standa vaktina í stjórnarandstöðu fyrir okkar hönd. Með þetta í huga kýs ég í þessum kosningum og vona að sósíalistar og allt annað vinstri sinnað félagshyggjufólk geri slíkt hið sama.
-----
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.