NÚ ÞARF ANNAN FUND Á HÓTEL BORG OG SVO MARGA FLEIRI!
Í ársbyrjun 1995 var haldinn eftirminnilegur fundur á Hótel Borg í Reykjavík. Fundarefnið var að leita svara við því hvernig glæða mætti róttæka vinstri pólitík í landinu.
Fundarfólkið á Hótel Borg kallaði sig óháða því það var flest óbundið stjórnmálaflokkum. Öll vildu þó að vinstra fólk og vinstri flokkar störfuðu saman ef þeir á annað borð kæmu sér saman um að reka vinstri stefnu, ekki bara saman til að vera saman.
Vinstri stefna sett i öndvegi
Spurningin var hvert skipulagsformið ætti að vera. Hugsa þyrfti til langs tíma. Ákveðið var að bjóða fram með Alþýðubandalaginu þá um vorið. Síðar varð Stefna félag vinstri manna til, en hún spratt upp úr þessari grasrót og síðar Vinstrihreyfingin grænt framboð. Allt varð þetta til að efla vinstri pólitík í landinu. Í allmörg ár var það mjög vel merkjanlegt þótt vindar blésu úr gagnstæðri átt.
Fyrst var það Alþýðuflokkurinn
Árið 1995 vorum við ófá sem áttum erfitt með fyrirgefa Alþýðuflokknum að hafa rofið raðir félagshyggjufólks eftir kosningarnar 1991 og gengið til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn og auðveldað þannig hægri mönnum að koma áformum sínum um stórfellda markaðsvæðingu í þjóðfélaginu í framkvæmd. Þau fjögur ár sem Alþýðuflokkurinn var í faðmlagi við Sjálfstæðisflokkinn reyndust honum líka erfið. Þetta var tímabil mikillar niðurlægingar fyrir Alþýðuflokkinn enda varð hann þá viðskila við það sem til var af vinstri viðhorfum í þeim flokki. Margt gott flokksfólk var þarna að sjálfsögðu enn og eflaust glæðurnar líka til að blása í.
Snýst um trúverðugleika stjórnmálanna
Að sama skapi mætti spyrja hvort ekki sé líka margt gott fólk í Sjálfstæðisflokknum? Er ekki alls staðar til gott fólk? Vissulega, en Sjálfstæðisflokkurinn er hins vegar hægri flokkur og vill vera það. Hann er flokkur einkaframtaks og fjármagns og rekur hagsmuni þeirra afla í stjórnmálum. Stjórnmál í fulltrúalýðræðisfyrirkomulagi byggja á því að kjósendum sé boðið upp á mismunandi valkosti, mismunandi leiðir til að skipuleggja samfélagið. Þetta er ósköp einföld staðreynd og fráleitt annað en að horfast í augu við hana og virða hana. Vatnist allt út hverfur trúverðugleiki stjórnmálanna.
Sjálfstæðisflokkurinn vill til hægri og þangað hefur hann komist vegna þess að þangað er honum hleypt af flokkum sem segjast vilja halda í gagnstæða átt.
Ekkert líf án súrefnis
Viðkvæðið hefur jafnan verið að ásættanleg niðurstaða fáist í fámennu spjalli þar sem allir slái af. Þetta hefur hins vegar aldrei gengið þannig fyrir sig vegna þess að það afl sem þarf að virkja til að hreyfa þjóðfélagið út úr þeim stríða straumi sem peningafrjálshyggjan er í okkar samtíð er ekki til staðar á fundum sem ekkert berst út af, og það sem meira er, ekkert inn á!
Aflið sem um ræðir og þarf að virkja kemur frá almenningi. Það afl þarf súrefni og súrefnið kemur með opinni umræðu ekki í leyndarspjalli. Leyndarspjall í langan tíma færir okkur inn í draumaland peninganna, vogum vinnur vogum tapar, hver er sinnar gæfu smiður.
Vinstri stefna þurrkuð út …
Þegar Sjálfstæðisflokkurinn var búinn að vinda allt vinstra líf úr Krötum var Framsókn kippt uppí. Þar var talsvert um hægri menn en líka samvinnumenn af gamla skólanum, alvöru félagshyggjufólk sem nú átti erfið ár framundan, heil tvö kjörtímabil. Svo kom aftur að Krötum og Kvennalista sem nú hétu Samfylking.
Og enn er Sjálfstæðisflokkurinn búinn að skipta um á dansgólfinu. Og viti menn, Alþýðuflokkurinn heitir nú Vinstrihreyfingin grænt framboð. Það þarf ekki mikinn speking til að sjá hvert stefnir:
Orkan er að fá ágenga og gráðuga milliliði,
fjárfestum er hleypt að kjötkötlum alls staðar sem þá er að finna,
í bankakerfi, á vegunum
og áfram er sjávarauðlindinni stolið
en Evrópusambandið og NATÓ sjá svo um allt sem útlenskt er nema þá helst í Namibíu og á Kýpur.
… nema vörn verði snúið í sókn
Nú þarf annan fund á Hótel Borg.
Og síðan fleiri fundi.
Vinstrafólk á ekki að láta drepa í sér logann heldur glæða hann.
Við þurfum að læra af reynslunni og snúa vörn í sókn og þá sókn þarf að hugsa til langs tíma.