Fara í efni

NÚ ÞYKIR ÞÖRF Á HUNDAHREINSUN

Hundahreinsun - íls
Hundahreinsun - íls

Það jaðrar við að vera spaugilegt að fylgjast með ýmsum pótentátum bregðast við ásökunum um að  Íbúðalánasjóði hafi verið um að kenna þenslan sem varð hér á landi í aðdraganda hrunsins.  Þessar ásakanir komu fram í nýrri rannsóknarskýrslu um starfsemi Íbúðalánasjóðs á  árunum í aðdraganda efnahagshrunsins.

Framsókn vill í bað

Í fréttum gærdagsins segir frá því að fyrrum ráðherrar Framsóknarflokksins vísi  hver á annan um að eiga hugmyndir að því að sjóðurinn veitti  90% lán til fyrstu íbúðakaupa. Svo er að sjá að framsóknarmenn vilja nú hreinsa sig af þessu meinta glapræði.

Seðlabankinn vill líka vera hreinn

Í hádegisfréttum RÚV í dag er rifjað upp að Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans og þáverandi forstöðumaður rannsóknar-og spádeildar hagfræðisviðs bankans, hafi varað við 90% lánum Íbúðalánasjóðs enda hafi komið í ljós að með þessu hefðu verið gerð einhver verstu efnahagsmistök síðari tíma!

"Færustu sérfræðingar" Morgunblaðsins

Morgunblaðið er með fréttir af því að „rök færustu sérfræðinga" hefðu verið hunsuð:„Helstu
athugasemdir AGS og OECD eru dregnar  saman í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Frá 2004 sögðu stofnanirnar meðal annars að fresta ætti hækkun veðhlutfalls og lánsfjárhæða á árinu 2004 vegna mikillar og fyrirséðrar þenslu í hagkerfinu á þeim tíma. Samkeppni ÍLS við viðskiptabankana stuðlaði að meiri lántökum heimila en ella og skuldsetning heimila jókst því á sama tíma og ójafnvægi í þjóðarbúskapnum jókst á árunum 2004-2008. Hún átti einnig  mikinn þátt í því að peningastefnan var máttlaus gagnvart ofþenslunni þá." 

Mér boðið að taka bað

Nokkrir fjölmiðlamenn hafa flett upp á ummælum mínum frá þessum tíma og komist að raun um að ég hafi verið þessum áformum hlynntur. Hefur mér verið boðið að bregða mér í bað með öllum hinum og þá væntanlega biðjast afsökunar. Ég hef hins vegar reynst óforbetranlegur og lýst því yfir að ég hafi talið það rétt á sínum tíma, og finnist enn, að það eigi að auðvelda fólki að kaupa sína fyrstu íbúð með lánsfé úr Íbúðalánasjóði til langs tíma.

Nokkrar spurningar til íhugunar
  • 1) Hvort skyldi hafa verið meiri mistök hvað varðar þenslu, Kárahnúkavirkjun eða 90% lán til kaupa á ódýrri fyrstu íbúð? (Þess má geta að Seðlabankinn varaði ekki við Kárahnjúkavirkjun, sem óvéfengjanlega leiddi til þenslu og hafði gríðarleg ruðningsáhrif í hagkerfinu.)
  • 2) Hvor aðilinn skyldi hafa efnt til þensluvaldandi samkeppni á húsnæðismarkaði, einkavæddir bankarnir eða Íbúðalánasjóður? Hvor aðilinn efndi til samkeppni, Íbúðalánasjóður eða Samráðsvettvangur bankanna sem kærði ÍLS til Brussel og þegar það ekki tókst hóf að undirbjóða sjóðinn til að koma honum út af markaði? (sjá nánar: http://www.dv.is/blogg/ogmundur-jonasson/2013/7/5/thad-sem-vantar-i-rannsoknarskyrsluna/  
  • 3) Hvorir skyldu hafa innleitt 90% lán til allra, Íbúðlánasjóður eða bankarnir?
  • 4) Hvort skyldi hafa veikt hagstjórnartæki Seðlabankans meira (þ.e. vaxtaákvarðanir hans), 90% lán til ódýrra íbúðakaupa þeirra sem voru að kaupa í fyrsta sinn eða verðtrygging lána sem gerir lántakendur nánast ónæma fyrir vaxtabreytingum í núinu?
  • 5) Telja menn það almennt vera stórvarasamt að ná niður vöxtum til íbúðakaupa?
  • 6) Telja menn að mikil arðtaka og hagnaður af útlánastarfsemi sé föst stærð eða gæti verið að hún sé breytileg og að það hafi einmitt verið skaðlegt - ekki aðeins í okkar efnahagskerfi heldur víða um lönd - hve óhóflegur arður hefur verið tekinn af fjármagni á kostnað heimila og atvinnustarfsemi um alllangt árabil?
  • 7) Þekkja menn ekki til hinna „færustu sérfæðinga" sem fjölmiðlar og höfundar rannsóknarskýrslna vísa til með lotningu, þ.e. sérfræðinga frá AGS og OECD? Þetta eru gamalkunnir pólitískir talsmenn einkavæðingar, eða hafa menn gleymt hvatningaskýrslum OECD um að einkavæða heilbrigðiskerfið, húsnæðiskerfið að ógleymdu fjármálakerfinu? Og skyldi mönnum almennt ókunnugt um að sérfræðingar AGS sáu ekkert athugavert við gerspillt bankakerfið á Íslandi nánast undir hrun?
  • 8) Telja menn að einkavæðing heilbrigðiskerfisins hafi gefið góða raun þar sem slíkt hefur verið reynt?
  • 9) Gaf einkavæðing fjármálageirans á Íslandi góða raun?
  • 10) Getur það verið rétt að alvarlegustu efnahagsmistök Íslandssögunnar hafi verið að veita ungu fólki sem var að kaupa sína fyrstu ódýru íbúð verðtryggð lán með um 5% vöxtum? (http://www.ruv.is/frett/%E2%80%9Eein-alvarlegustu-mistokin-i-hagstjorn%E2%80%9C)

    Síðustu spurningunni svara ég afdráttarlaust neitandi og hef því ekki fundið þjá mér þörf til að skrúbba af mér mínar meintu syndir.