NÝJUM MEIRIHLUTA Í REYKJAVÍK ÓSKAÐ HEILLA
Nýr borgarstjórnarmeirihluti er kominn til sögunnar í Reykjavík. Einkavæðing í orkugeiranum og brask henni tengt varð meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að falli. Ég er sannfærður um að vitundarvakning er að verða í þjóðfélaginu hvað auðlindirnar snertir. Þegar það rann upp fyrir fólki að fjármálamönnum var að takast að slá eign sinni á orkulindir var því nóg boðið. Menn vilja ekki að fjárgróðamenn steli Hellisheiðinni og Reykjanesinu. Reiðialda reis hátt – svo hátt – að eitthvað hlaut að láta undan. Hlaut segi ég – það er ekkert gefið í þeim efnum. Vaskleg framganga Svandísar Svavarsdóttur og félaga og skýr og sannfærandi málflutningur þeirra kom skriðunni af stað. Að sjálfsögðu verður nú fylgst með því að nýr meirihluti í Reykjavík rísi undir þeirri ábyrgð sem hann nú hefur axlað og leiti allra leiða til að snúa við þeirri öfugþróun sem orðin er. Ég óska hinum galvaska nýja meirihluta heilla í starfi.
Engar heillaóskir hafa komið frá forsætisráðherra landsins. Landsmenn fengu þvert á móti að heyra Geir H. Haarde hafa yfir bölbænir í fjölmiðlum í gær. Hann sagði að nýr meirihluti í Reykjavík fæli „dauðann í sér“! Svona talar reiður maður og kannski líka hræddur. Hann veit að þjóðin mun ekki láta hann komast upp með að framfylgja þeim hótunum sem hann hafði nýlega í frammi um einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar og orkugeirans. Geir veit að kastljósin munu nú standa á honum og þeirri ríkisstjórn sem hann er í forsvari fyrir.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmssson, fráfarandi borgarstjóri á nú erfiða daga. Að mörgu leyti er Vilhjálmur stjórnmálamaður að mínu skapi, velviljaður og víðsýnn og áherslur hans um margt félagslegar. Það er því kaldhæðni örlaganna að frekjuoffors auðmanna skuli verða honum að falli. Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni hefur oft verið hrósað á þessari síðu enda hafa áherslur hans um margt verið prýðilegar. Ég nefni málefni aldraðra og áherslur í samgöngumálum að ógleymdum spilakössunum. Vilhjálmur hefur verið alls óhræddur að setja spilavítiseigendum stólinn fyrir dyrnar og hefur þannig gefið mjög gott fordæmi sem öðrum ber að horfa til.
Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni er óskað alls góðs.