NÝR ÍSLANDSVINUR FUNDINN?
Okkur berast þær fréttir að formaður þingmannanefndar Íslandsdeildar NATÓ, hinn galvaski þingmaður Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson, hafi átt viðræður við "bandamenn" Íslands í NATÓ um mögulega aðkomu NATÓ að hervörnum Íslands eftir að Kaninn lýsti því yfir nú nýlega að hann ætlaði af landi brott með tól sín og tæki. Haft er eftir Össuri í fjölmiðlum að forseti Þingmannasambands NATÓ, Pierre Lellouche hafi lýst undrun á framgöngu Bandaríkjastjórnar og hvatt til þess að íslenskir þingmenn tækju málið upp á aðalfundi sambandsins í París í vor.
Af þessu tilefni langar mig til þess að stinga ábendingu að formanni íslensku NATÓ-deildarinnar og hún snýr að þessum nýfundna Íslandsvini. Staðreyndin mun vera sú að vandfundnari er hægri sinnaðri þingmaður á franska þinginu en téður Pierre Lellouche. Hann gagnrýnir hægri sinnuð frönsk stjórnvöld jafnan frá hægri og þótt hann nú gagnrýni Bandaríkjastjórn þá studdi hann Íraksinnrásina allra manna harðast á þeim tíma sem franska ríkisstjórnin hafði í frammi mótmæli gegn árásarstefnu Bandaríkjamanna og Breta.
Eru það slíkir menn sem við erum að leita eftir að verndi okkur? Lítur formaður NATÓ-deildar íslenskra þingmanna á það sem eftirsóknarvert verkefni að færa okkur inn í pólitískan faðm svartasta afturhalds Evrópu? Varla.