ÓÐUR TIL KRÝSUVÍKUR
Í Fjarðarpóstinum í dag birtist verulega athyglisverð grein eftrir Erlend Sveinsson undir fyrirsögninni Postular Mammons. Greinin er skrifuð til varnar Krýsuvík en sem kunnugt er hefur Hitaveita Suðurnesja óskað eftir leyfi til tilraunaborana þar. Markmiðið er að virkja í þágu stóriðju á Reykjanesi. Erlendur Sveinsson vísar í grein sinni í viðtal við finnskan leikstjóra í Lesbók Morgunblaðsins nýlega, sem var spurður um hvað honum fyndist um land sitt, Finnland. Svar leikstjórans var á þessa leið: „Fólkið er þarna ennþá, en þjóðin er horfin.“ Þetta verður Erlendi Sveinssyni tilefni til að spyrja hvort Íslendingar séu þjóð á förum: „Erum við að búa okkur undir brottför?“.
Ekki er Erlendur því fylgjandi en hann vill að við höldum okkur við ráðleggingu Þorgeirs Ljósvetningagoða frá Alþingi á árinu 1000, að við skyldum hafa einn sið í landi voru. Sá siður sem Erlendi Sveinssyni þykir ofaukið er Mammonsdýrkun. Ég er Erlendi hjartanlega sammála og birti ég hér að neðan grein hans sem auk þess er að finna á veflsóð Fjarðarpóstsins (sbr. HÉR):
"Í Lesbók Morgunblaðsins hinn 22. september s.l. birtist samtal eftir Lárus Ými Óskarsson, kvikmyndaleikstjóra, sem hann átti við hinn finnska starfsbróður sinn, Aki Kaurismäki í síma. Eitt tilsvar Aki Kaurismäki í þessu samtali er svo skorinort, stutt og ógnvekjandi að því verður ekki gleymt. Lárus spyr: “Hvað finnst þér um Finnland? Kaurismäki svarar: “Fólkið er þarna ennþá, en þjóðin er horfin”.
Við lestur þessara orða leitar hugurinn í eigin rann. Hvað með okkur Íslendinga? Erum við sem þjóð á förum? Erum við að búa okkur undir brottför?
Fyrir þúsund árum lagðist vitur Íslendingur undir feld á alþingi. Honum hafði verið falið að finna heillaráð handa ungri þjóðinni sem nú hafði klofnað í tvennt. Eftir langa legu undir feldinum steig hann upp á stein og mælti við valdsmenn þjóðar sinnar og þingheim allan: Við skulum hafa einn sið í landinu. Ráðið var þegið og eftir því var farið næstu þúsund árin. Og gafst vel.
Nú við upphaf nýs árþúsunds þá er allt á leið í sama farið aftur. Eftir þúsund ár. Tveir siðir eru á góðri leið með að kljúfa þjóðina í öndverðar fylkingar. Nýr siður kenndur við Mammon er að skjóta hér rótum og er á góðri leið með að gera þann sið sem fyrir var hlægilegan frá sínu sjónarmiði. Þessi nýi siður afhelgar það sem áður var heilagt. Nýlegt dæmi er auglýsing fyrir síma, sem seldir eru af fyrirtæki, sem einu sinni var í sameign þjóðarinnar.
Vitringur allra tíma gekk á milli þorpa fyrir botni Miðjarðarhafsins fyrir tvö þúsund árum og spjallaði við fólkið. Hann fullyrti að ekki væri hægt að þjóna tveimur herrum. “Því annaðhvort hatar maður annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammon”, sagði hann og bættti við: “Hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera”.
Sá sem svo mælti hafði 12 postula í sínu liði. Mammon sem nú haslar sér völl hefur 12 sinnum 12 postula á sínum snærum og þeir eru að koma sér fyrir í öllum kimum þjóðlífsins, í iðnaðarráðuneytinu, Landsvirkjun, verktakafyrirtækjum, orkufyrirtækjum, fjármálafyrirtækjum og að einhverju leyti í ríkisstjórn og bæjarstjórnum víða um land. Það er hins vegar ekki sjálfgefið að þennan flokk skipi allir auðmenn Íslands. Það ræðst af því hvar fjársjóður þeirra er. Margir postular Mammons hafa verið að koma sér fyrir í Hafnarfirði. Það mega þó valdsmenn bæjarins eiga að þeir hafa spyrnt við fæti. En þá hefur eina útleið þeirra verið sú að freista þess að þjóna tveimur herrum. Hugsuðu kannski með sjálfum sér að það gæti verið farið að slá í 2000 ára speki sunnan úr Miðjarðarhafsbotni, því á sama tíma og þeir heimiluðu Mammonspostulunum að umbreyta hjarta bæjarins með þvílíkum byggingum að svíður í augu og sál á degi hverjum efndu þeir til íbúakosningar vegna óska annarra Mammonspostula um að fá að stækka álverið í bæjarjaðrinum um helming. Bæjarbúar fengu þar með tækifæri til að láta álit sitt í ljós í lýðræðislegum kosningum. Og höfnuðu óskinni. En ekki munaði nema örfáum atkvæðum sem þýddi að eining bæjarsamfélagins var rofin, tveir siðir klufu íbúana í tvennt.
En lengi getur vont versnað. Nú er verið að leggja drög að því, ef marka má skrif Reynis Ingibjartssonar hjá Reykjanesfólkvangi í Fjarðarpóstinum 27. sept. sl., og í Morgunblaðinu 30. september, að svipta okkur Hafnfirðinga útivistarparadís okkar og raunverulega leggja í rúst eina helstu náttúruperlu landsmanna allra, Krýsuvík, og stóran hluta þess svæðis á Reykjanesi sem búið var fyrir löngu að ákveða að skyldi vera fólkvangur. Valdsmennirnir, fulltrúar okkar, íbúanna, hafa uppi óskir við stjórn Reykjanessfólkvangs að breyta friðlýstu svæði í iðnaðarsvæði til að hægt verði að umbreyta því í peninganámu. Nú á að þýðast annan Guð en afrækja hinn. Ef það var þörf á því að efna til íbúakosninga vegna álversstækkunnar þá er hún enn brýnni í tilviki Krýsuvíkur og óska Hitaveitu Suðurnesja um að fá að hefja þar tilraunaboranir enda markmið framkvæmdarinnar að útvega rafmagn til enn frekari álvinnslu á Reykjanesi. En Reynir og aðrir á sömu bylgjulengd hafa talað fyrir því að við leitumst við að njóta þessarar náttúruperlu án þess að umturna henni. Beina frekari borunum að þeim svæðum sem þegar hefur verið raskað en hlúa að Krýsuvík og öðrum gildum perlum á Reykjanesi t.d. með því að stofna eldfjallagarð og fólkvang. Efla á þeim vettvangi samspil náttúru, menningarminja, listsköpunar, skátastarfs og kristnihalds. Það er ekki lengra en síðan í vor að við minntumst þess að 150 ár væru liðin frá því að núverandi bygging Krýsuvíkurkirkju var reist og 10 ár frá því að listasafnið Sveinssafn, sem hefur sýningaraðstöðu í Sveinshúsi í Krýsuvík, var stofnað. Sveinssafn og Krýsuvíkurkirkja hafa átt gifturíkt samstarf í ræktun samspils trúar og listar í Krýsuvík s.l. 10 ár. Í tilefni þessara tímamóta orti Matthías Johannessen kvæði og Atli Heimir Sveinsson samdi við það tónlist. Í kvæðinu segir skáldið:
Moldhlý er jörðin, mosgrænn blær af fjalli
mjúkhentur dagur við vatnsins öldunið,
eilífðin þagnar, þögn við dauðans klið.
Sól rís til himins, horfir eins og falli
himneskur dagur, nýr að ösku og gjalli
þangað sem hugarveröld vatnsins býr,
þangað sem lífið einatt aftur snýr
og jörðin föndrar glöð við sína liti
og án þess nokkur undrist það og viti,
hér er þinn guð og vinnur vorið að
þeim veruleika sem er eins og hniti
þríein sól um þennan grýtta stað,
líkast því sem lífið endurriti
leiftrandi von á dauðans minnisblað.
Undirritaður hefur ekki tölu á öllum þeim ferðum sem hann hefur farið í Krýsuvík með útlendinga, sem átt hafa það sammerkt að hafa gert stuttan stans í landinu. Við höfum staðnæmst við Kleifarvatn þar sem klettaandlit hvert öðru svipsterkara hafa boðið okkur inn í “hugarveröld vatnsins”, og gildir þá engu hvort hefur verið sumar eða vetur, vor eða haust. Þvínæst hefur leiðin legið í Seltún, þar sem jörðin kraumar og skaparinn heldur málverkasýningu við hvert fótmál. Þaðan liggur leiðin í Krýsvíkurkirkju, sem helguð var Maríu mey á miðöldum og er í réttri andstæðu við infernó Seltúnsins, áðan. Menningarminjarnar allt um kring, enda var Krýsuvíkurbærinn stórbýli á miðöldum. Kirkjan er yfirlætislaus og laðar fram samtöl gesta sinna við Guð í gestabókum sínum. Altaristaflan er eftir málarann Svein Björnsson, sem varði starfsævi sinni til að fá okkur til að sjá fegurðina í Krýsuvík. Upprisan, en svo nefnist altaristaflan, varð til í kvikmynd sem sýnir málara að störfum í þessu kyngimagnaða umhverfi. Frá kirkjunni liggur leiðin heim til hans, nema ferðafólkið hafi tíma til að skreppa á Selatanga eða Krýsuvíkurbjarg. Minnist ógleymanlegrar stundar með New York búa þar sem við sátum upp við fiskbyrgin þar og hlustuðum á úthafsölduna sogast að og frá. Í vinnustofuhúsi Sveins opnast fólki enn einn heimurinn, sem enginn á von á. Útsýnið úr gluggum hússins er ekki síður málverk en þau sem hanga á veggjum þess. Úr einum glugga má sjá tvö stöðuvötn í forgrunni og úthafið fyrir handan á milli fjallanna Arnarfells og Bæjarfells. Allt þetta ferðafólk hefur ekki átt orð til að lýsa hughrifum sínum, margbreytileika og dýpt upplifunarinnar. Á slíkum stundum skilur leiðsögumaðurinn hversu mikið honum sjálfum hefur verið gefið.
Og nú getum við spurt hvort lífið sé þess megnugt að “endurrita leiftrandi von á dauðans minnisblað”. Og hvort guð okkar sé að vinna vorverkin sín í Krýsuvík, þar sem “jörðin föndrar glöð við sína liti”. Kvæði Matthíasar er um von. Enginn er svo aumur að hann geti ekki átt sér von sem ekki verður frá honum tekin. Það er von okkar allra, sem aðhyllumst ríki fegurðarinnar í lýðræðissamfélaginu íslenska að við verðum spurð, hvort við séum tilbúin að fórna Krýsuvík fyrir þá peninga sem postular Mammons vilja búa þar til. Við vonum að komið verði til móts við þá ósk, sem þá yrði niðurstaða í kosningu, það er að segja ef leyfisumsókn Hitaveitunnar verður ekki hafnað. Verði vilji meiri hluta fólksins forsómaður eftir allt sem á undan er gengið á Kárahnjúkum, Þjórsársvæðinu og víðar, ætli við séum þá ekki á förum sem þjóð?
Tilfinningin sem við höfum fyrir verðmætum í Krýsuvík er ekki sú sama og hjá Hitaveita Suðurnesja. Enda eru þar á bæ allt önnur viðmið, annar siður. Við og þeir aðhyllumst sitthvoran siðinn og erum eins og fylkingarnar á alþingi fyrir þúsund árum sem vitur maður bjargaði frá ósköpum með því að segja að siðurinn yrði að vera einn. Á meðan þjóðin undi enn glöð við sitt á öldinni sem leið, eignuðumst við annan vitring ekki síðri Þorgeiri Ljósvetningagoða. Sá fann leið í skáldverki til að orða og sviðsetja tilfinninguna sem að baki býr, þegar við segjum að fegurð Krýsuvíkur sé miklu verðmætari en öll sú orka sem þar gæti verið hægt að virkja. Halldór Laxness lætur skáld sitt í Heimsljósi vera komið á skipsfjöl, rúið allri eign og mannorði og er á á leið í fangelsið fyrir sunnan. Við erum stödd í fjórðu bók Heimsljóss, sem heitir Fegurð himinsins. Skáldið skrifar:
“Menn sigla út í heiminn við ólík kjör, en það er altaf gaman, ekki síst í fyrsta sinn, þó maður hafi orðið síðbúinn; hið ókunna er fyrirheit í sjálfu sér. Grænir reitir hlíðanna teygja sig milli gilja og skriðna uppundir sólroðin hamrabeltin; inn milli fjallanna liggja grösugir dalir með líðandi ám, sælir einsog mannlíf þeirra væri goðsögn eða ævintýri, slóðir fjallshlíðanna lokka augu sæfarans. Nú þykist skáldið alfrjáls þar sem hann stendur á þiljum íklæddur flibba og stígvélum og líður framhjá nýjum og nýjum sveitum: þó hann eigi ekki gagn þessa lands á hann fegurð þess. Í fjarska gnæfir jökullinn, stærsta auðlegð hans, þúsund hans og miljón. Fegurð hlutanna er æðri en þeir sjálfir, dýrmætari, flestir hlutir lítilsvirði eða einskis í samanburði við fegurð sína, æðst af öllu fegurð jökulsins. Skáldið var ríkastur maður á Íslandi að eiga sjón fegurðarinnar, þessvegna kveið hann ekki í heiminum, fanst hann ekki hræðast neitt. Sumir eiga mikla penínga og stórar jarðir, en aungva fegurð. Hann átti fegurð als Íslands og als mannlífsins. Hann var öllum góður og ekki í missætti við neinn. Ómurinn sem bar sál hans, það var sá ómur sem mun sigra í heimsstyrjöldinni ásamt næturgalanum. Hér sigldi ríkt skáld. Sú þjóð er hamingjusöm og vinnur marga sigra, sem á rík skáld. Hann skildi ekki hversvegna skapari heimsins hafði gefið honum svo mikið. Guð guð guð, sagði hann og horfði til lands og tárin streymdu niðreftir kinnum honum svo einginn sá; ég þakka þér fyrir hvað þú hefur gefið mér mikið” (Heimsljós/Fegurð himinsins, bls. 213/1967).
Krýsuvíkin er okkar þúsund og miljón. Við Hafnfirðingar getum ekki siglt inn í 100 ára afmælisveislu Hafnarfjarðar í dýrlegum fagnaði á næsta ári ef sá tími verður notaður til að breyta friðlandinu í Krýsuvík í iðnaðarsvæði og spilla þar með öllu því sem gerir staðinn ómetanlegan á mælikvarða Heimsljóssins. Því verður ekki trúað á þá, sem treystu íbúalýðræðinu fyrir réttlátri niðurstöðu í málefnum álversins að þeir hugsi sér að leita svo skömmu síðar í smiðju Rómverja hinna fornu og sjá íbúum bæjarins fyrir brauði og leikum í heilsárs afmælisveislu til að geta beitt valdi sínu óáreittir við útbreiðslu Mammonsríkisins. Niðurrifsstarfsemi í Krýsuvík, sem postular Mammons kalla uppbyggingu, fer ekki saman við 100 ára afmæli Hafnarfjarðar. Eigum við ekki frekar að þakka fyrir hvað okkur hefur verið gefið mikið og ígrunda, hvort Heimsljós Laxness feli ekki í sér leið til gagnkvæms skilnings sem geti sameinað á ný? "
Erlendur Sveinsson