Fara í efni

OECD, NIÐURSKURÐUR OG AÐILAR VINNUMARKAÐAR


Í bréfi lesanda hér á síðunni er nýjustu skýrslu OECD um Ísland, líkt við gamanfarsa. (sbr. Ferðaleikhús OECDhttps://www.ogmundur.is/is/greinar/ferdaleikhus-oecd-komid . Í bréfinu er vitnað í skýrslur OECD nokkur ár aftur í tímann og sýnt fram á æpandi mótsagnir í því sem annars vegar var sagt árið 2005, -6 og -7 og hins vegar núna. Þá er vakin athygli á því hve fjölmiðlum er gjarnt að gleypa skýrslur OECD hráar og gleyma því að skýrslurnar eru unnar af einstaklingum sem upp til hópa aðhyllast hægri sinnaða markaðshyggju. Í lesendabréfi Ólínu er einnig minnt á þá staðreynd að landaskýrslur OECD eru unnar á grundvelli upplýsinga frá viðkomandi landi. Þar komi embættiskerfið að málum.
Undir þetta vil ég taka. Verður að segjast eins og er að skýrslur OECD síðustu ár eru ekki beinlínis vitnisburður um óhlutdræg vinnubrögð þeirra embættismanna sem hlut eiga að máli, að ekki sé minnst á þrönga pólitíska sýn. (Sjá hér: http://mbl.is/mm/frettir/erlent/2009/09/02/oecd_oflofadi_islenskt_fjarmalakerfi/)  

Fyrri met slegin

Hér á síðunni hefur margoft verið vakin athygli á pólitískum afskiptum OECD. Þó tel ég að nýjasta skýrslan slái flest met með yfirlætisfullum aðfinnslum og umvöndunum í okkar garð.
Nú er býsnast yfir því að ekki hafi verið nóg eftirlit með fjármálamarkaðnum. Í skýrslunni 2006 var það hins vegar talinn sérstakur kostur hve öllum hömlum hafi verið aflétt og hve frábærlega hafi tekist til við einkavæðinguna! Á Íslandi hafi hún verið framkvæmd "á aðdáunarverðan hátt" og um að gera að halda áfram á sömu braut. (Financial markets in Iceland are thriving and access to capital has greatly improved. A significant part of the responsibility for this development lies with government policy. Controls over the operation of financial markets have been lifted, commercial banks have been privatised and the sector has been opened up to international capital markets. This liberalisation programme has succeeded admirably and should be continued.)

Einkavæðið heilbrigðiskerfið og rukkið hina sjúku!

En það eru heilbrigðismálin sem standa mér næst. Þar lýsir OECD því lýst yfir að hægt sé að skera niður um fimmtung án þess að skerða þjónustu! Við þurfum ekki annað en líta til Spánar til að finna fordæmi, segja skýrsluhöfundar. Það sem gera þurfi sé að opna kerfið betur fyrir einkavæðingu og taka upp notendagjöld í ríkari mæli. Á mannamáli þýðir þetta að hækka eigi sjúklingaskatta. Prófessor í hagfræði sagði í Spegli RÚV í kvöld að almennt væri andstaða gegn hugmyndum OECD innan heilbrigðiskerfisins. Þetta þótti mér afvegaleiðandi yfirlýsing hjá Þórólfi Matthíassyni, prófessor við Háskóla Íslands. Þetta er misvísandi að því leyti að andstaðan er ekki bundin við heilbrigðiskerfið heldur tekur hún til alls þjóðfélagsins. Almennt vilja Íslendingar ekki sjá þessa þá stefnu sem OECD hvetur til. Ég spyr eins og fleiri, og mun spyrja við ríkisstjórnarborð, hver borgar fyrir skýrslugerð af þessu tagi? Læt ég þá liggja á milli hluta - að sinni - fráleitar fabúleringar um Evrópusambandsaðild Íslands.

Niðurskurðarsveðjur mundaðar

Mér heyrðist ég heyra í fulltrúum aðlja vinnumarkaðar tjá sig um skýrsluna og að hagfræðingur ASÍ hafi andmælt hugmyndunum sem snúa að heilbrigðiskefinu. Fróðlegt verður að fylgjast með fulltrúum samtaka launafólks þegar næsta niðurskurðarhrina í anda OECD og AGS  byrjar í veflerðarkerfinu. Ekki hafa mér virst þeir bera mikinn kvíðboga fyrir niðurskurðinum til þessa og vísa ég þá í aðkomu þeirra að stjórnarmyndun og síðan fjárlagagerð í vor leið og  þegar Stöðugleikasáttmálinn svonefndi var undirritaður um svipað leyti. Ég fékk ekki betur skilið en að þessir aðilar vildu helst ganga lengra en jafnvel Aljþjóðagjaldeyrissjóðurinn í niðurskurði - nema þá helst gagnvart sjóðum sem lúta forræði samtaka á vinnumarkaði! Þá átti að verja og helst þenja út en annað mátti skera.
Þurfa menn ekki að vera sjálfum sér samkvæmir?