OF ÞRÖNGT SJÓNARHORN Á KRÓNU, EVRU, PLAST OG ÍSLENSKT EFNAHAGSLÍF
Umræðan um gjaldmiðil okkar er fróðleg fyrir margra hluta sakir. Formaður Samfylkingarinnar telur krónuna handónýta og fráleitt annað en að taka upp evru. Þetta tengir
Við sögðum þetta allt...
Skyldu einhverjir muna varnaðarorð þingmanna Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs gagnvart stóriðjustefnu stjórnvalda með hundruð milljarða innspýtingu í efnahagskerfið og tilheyrandi þenslu, vaxtasprengingu og hágengi krónunnar? Skyldu einhverjir muna eftir varnaðarorðum okkar um að ákvarðanir – jafnvel yfirlýsingar – um áframhaldandi stóriðjuuppbyggingu myndu viðhalda þenslu og auka á brask erlendra spákaupmanna til að nýta sér himinháan vaxtamun á Íslandi? Skyldu einhverjir muna að við ráðlögðum að viðhalda - alla vega um sinn sterkum ríkisbanka – sem kjölfestu í íslensku fjármálalífi í stað þess að færa fjármálamönnum alla opinbera banka og sjóði nánast á einu bretti til ráðstöfunar?
Skyldu einhverjir muna hvatningu okkar um að ræða málin heildstætt?
Maður notar nú aðallega plastið...
Einmitt það þykir mér formaður Samylkingarinnar ekki gera sem skyldi þótt hvorki hún né nokkur annar komist með hælana þar sem núverandi utanríkisráðherra, fyrrverandi viðskiptaráðherra hefur hælana. Valgerður Sverrisdóttir segir að sig skipti litlu máli hvort við höfum hér Evru eða krónu, því sjálf noti hún plast!
..." Ég segi fyrir mig, ég hef engar sérstakar tilfinningar til þessarar krónu. Maður notar nú aðallega plastið og það gera flestir Íslendingar þannig að ef að við eigum leið að þá eigum við að skoða þetta í fullri alvöru. "
Gjaldmiðill er stjórntæki
Varla meinar ráðherrann þetta eins og það hljómar samkvæmt orðanna hljóðan, eða hvað? Nú kann framtíðin að vera sú að öll viðskipti verði meira og minna rafræn og eðlilegt að ræða þann þátt. Það virtist þó ekki kjarninn í yfirlýsingu ráðherrans heldur hugsanlega hitt að hún sæi ekki eftir krónunni eins og hverjum öðrum hjartkærum vini. Ætli sé ekki óhætt að gefa sér að þetta sé samhengið í hugsun fyrrum viðskiptaráðherra? En ætti umræðan ekki fyrst og fremst að snúast um gjaldmiðilinn sem hluta hagstjórnarinnar? Og er boðlegt að horfa til gjaldmiðilsins á eins þröngan hátt og bæði formaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi viðskiptaráðherra gera? Að sjálfsögðu er ekki hægt að kljúfa umræðu um gjaldmiðil frá öðrum efnahagslegum breytum. Augljóslega gæti það verið kostur að bindast öflugum gjaldmiðli, evru eða jafnvel dollar. En værum við reiðubúin að taka allar þær dýfur sem fast gengi gæti haft í för með sér varðandi atvinnustig í landinu?
Hátt gengi krónunnar og mikið flökt eru afleiðingar óábyrgrar hagstjórnar. Að kasta krónunni fyrir róða mun ekki tryggja almenning fyrir hagstjórnarmistökum eins og þeim sem hafa orðið síðustu misseri. Almenningur þarf vissulega að gjalda fyrir áhrif þeirrar hagstjórnar í ýmsu formi. Það er hins vegar ljóst að ef gengi krónunnar endurspeglar ekki efnahagslífið getur atvinnustigið verið einn þeirra þátta sem flöktir í staðinn. Vilja menn skapa aukinn stöðugleika fyrir útrásarfyrirtæki og hætta til atvinnuöryggi almennings? þau vandræði eru augljós áður en upptaka evrunnar yrði möguleg auk þess sem innganga í Evrópusambandið hefur til þessa verið skilyrði fyrir upptöku evru.
Það má vel vera að framtíðin beri það í skauti sér að við bindum okkar gjaldmiðil öðrum gjaldmiðli eða tökum hann upp. Sjálfsagt er að ræða slíkan kost. En umræðan þarf þá að fara fram undir víðara sjónarhorni en plastkorti fyrrverandi viðskiptaráðherra!