Fara í efni

....OG Í EINKAÞOTU


Í dag héldu oddvitar ríkisstjórnarflokkanna Geir H. Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar til Búkarest. Tilefnið er að sækja fund í hernaðarbandalaginu NATÓ. Almennt hélt ég að þau hefðu öðrum hnöppum að hneppa en sitja saman fundi um málefni NATÓ.

Enginn velkist í vafa um að íslenska þjóðarbúið stendur frammi fyrir alvarlegum erfiðleikum og mikilvægt er að skapa samstöðu um aðgerðir því til varnar. Í því samhengi horfir fólk ekki aðeins til þess sem ríkisstjórnin aðhefst, eða lætur hjá líða að aðhafast eftir atvikum, heldur er líka horft til merkjasendinga úr Stjórnarráðinu.

Á undanförnum árum hefur misskipting á Íslandi stóraukist. Til hefur orðið hópur auðmanna á sama tíma og kreppt hefur að þeim sem lakast standa. Lífsmáti milljarðamæringanna hefur borið þess vott að þeir gefi lítið fyrir íslenskt samfélag. Rauðvínsflösku opna þeir ekki hafi hún kostað minna en  hundrað þúsund og ekki kemur þeim til hugar að ferðast öðruvísi en á einkaþotum. Einkaþoturnar er táknmynd óhófs og bílífis - fólks sem slitnað hefur úr tengslum við uppruna sinn.

Þess vegna hrekkur fólk í kút þegar það heyrir að tvímenningarnir Geir og Ingibjörg skuli ákveða að halda til NATÓ fundarins í Búkarest í einkaþotu ásamt fylgdarliði. Ég hef ekki trú á því að þetta séu skilaboð sem þjóðin kann að meta. En hún skilur þessi skilaboð. Þetta eru skilaboð um firringu og valdhroka.