ÖGRANIR Í GARÐ BHM
Á þriðjudag hefjast verkafallsaðgerðir félagsmanna í nokkrum félögum háskólamenntaðra starfsmanna ríkisins, BHM. Fyrirhugaðar vinnustöðvanir munu að öllum líkindum hafa lamandi áhrif innan ýmissa lykilstofnana samfélagsins. Páll Halldórsson, formaður BHM, upplýsir í fréttum í dag að engir samningafundir séu boðaðir fyrr en á miðvikudag!
Varla er ég einn um að reka í rogastans. Hvers vegna er ekki boðað til fundar á morgun, laugardag og hvað með mánudag, að ekki sé minnst á þriðjudag? Er fjármálaráðuneytið að reyna að ögra fólkinu? Heldur einhver að starfsfólkið leggi niður vinnu sér til skemmtunar? Halda menn að samfélaginu verði skemmt þegar dregur úr þjónustu innan heilbrigðisstofnana og annarra lykilstofnana þjóðfélagsins sem verkfallsaðgerðirnar taka til?
Reynslan sýnir að jafnvel þegar mikið ber í milli skilar það árangri þegar reynt er að ná saman. Samræðan ein styttir bilið milli aðila.
Tekið skal undir með formanni BHM að boðað verði til samningafunda yfir hátíðarnar og þess freistað að ná niðurstöðu.