OKKAR BESTU MENN ERU Á VAKTINNI
Fyrir þá sem hafa áhyggjur af ástandi þjóðmála þessa stundina er gott til þess að vita að okkar bestu menn standa vaktina á Alþingi.
Þar er unnið hörðum höndum að mikilvægum málum líðandi stundar og því óþarfi að hafa nokkrar áhyggjur. Á heimasíðu þingsins má til dæmis sjá að hinir mikilhæfu og framsýnu þingmenn Sigurður Kári Kristjánsson, Ágúst Ólafur Ágústsson og Birgir Ármannsson eru flutningsmenn frumvarps um afnám einkaleyfis ríkisins á sölu áfengis. Það er greinilegt að menn eru algjörlega með stöðuna á hreinu - og gera ráð fyrir að frumvarpið, sem lagt var fram á Alþingi á fimmtudaginn í síðustu viku, taki gildi 1. júlí 2008!! - og ekki seinna vænna ef einkaframtakið á að ná að sýna snilld sína á þessum óplægða akri en í greinargerð með frumvarpinu segir m.a. að "Á undanförnum árum og áratugum hefur hið opinbera dregið sig út úr atvinnurekstri á mörgum sviðum þar sem talið er að einstaklingar og fyrirtæki geti stundað viðkomandi starfsemi betur eða í það minnsta ekki verr".
Einmitt!
Það er traustvekjandi að hinir ungu snillingar, aðalflutningsmenn frumvarpsins, njóta stuðnings úrvalsliðs þingmanna og þingkvenna. Þessir þingmenn eru flutningsmenn auk Sigurðar Kára:
Ágúst Ólafur Ágústsson
Bjarni Benediktsson,
Illugi Gunnarsson,
Pétur H. Blöndal,
Einar Már Sigurðarson,
Ásta Möller,
Ólöf Nordal,
Jón Gunnarsson,
Kristján Þór Júlíusson,
Ragnheiður Ríkharðsdóttir,
Ármann Kr. Ólafsson,
Arnbjörg Sveinsdóttir,
Rósa Guðbjartsdóttir.
Kæru landsmenn! Við erum í góðum höndum!
Jón Þórisson