Fara í efni

ÓLAFAR NORDAL MINNST

Ólöf Nordal II
Ólöf Nordal II

Stjórnmálin á Íslandi verða fátækari án Ólafar Nordal. Ég hef grun um að það viti samherjar hennar mæta vel. En það vitum við líka sem höfum verið annars staðar á róli í pólitíkinni.

Ég minnist þess þegar Ólöf Nordal kom fyrst  inn á þing og við fórum að taka snerrur saman. Það var ekki oft en það kom fyrir. Þær snerrur snerust ekki síst um orkustefnu og nýtingu orkunnar. Þar vorum við á öndverðum meiði þótt sameiginlegir snertifletir væru margir. Aldrei efaðist ég um góðan hug hennar og virðingu og væntumþykju fyrir landinu og náttúru þess.

Hún tefldi fram úthugsuðum rökum og ég man að ég hafði sérstaklega orð á því hve gott það var að eiga við hana orðastað vegna þess hve málefnaleg hún væri og skýr í hugsun. Fyrir bragðið lyfti hún umræðunni, og þar með okkur öllum, upp á hærra plan.

Við Ólöf röktum saman ættir okkar og kölluðum hvort annað frænku og frænda. Ekki vegna þess að við værum svo mikið skyld heldur vegna þess að við höfðum gaman af þessari tengingu. Og við urðum góðir vinir.

Við kunnum bæði frásagnir af vinskap þeirra frændsystkina, Sigurðar Nordal, afa Ólafar, og Ingibjargar Björnsdóttur, ömmu minnar frá Marðarnúpi í Vatnsdal og síðar húsfreyju á Torfalæk.

Ekki þótti henni verra hve uppfullur aðdáunar ég var á menningardugnaði þess fólks sem að henni stóð og þá ekki síst elju og framtaksemi afa hennar, Sigurðar, sem öðrum fremur færði heimspekina inn í vitundarlíf landsmanna á öndverðri öldinni sem leið, bæði með skrifum sínum og einnig fjölsóttum fyrirlestrum sem hann efndi til í lok fyrra stríðs og voru kenndir við Hannes Árnason, kennara í heimspekilegum forspjallsvísindum við Prestaskólann. Yfirskrift þessara stórmerku fyrirlestra var Einlyndi og marglyndi. Um fimm hundruð manns sóttu þá í Bárubúð í Reykjavík, sem var Harpa þess tíma. Geri aðrir betur í sextán þúsund manna bæjarfélagi.

Í minningarorðum um Ingibjörgu frænku sína á Torfalæk skrifaði Sigurður Nordal að þar hefði farið "kona, sem skipaði til hlítar það rúm, sem forlögin höfðu vísað henni til" og hefði hún fundið "ærið verksvið til þess að njóta hæfileika sinna og beita þeim."

Þessi orð Sigurðar Nordal um frænku sína langar mig til að heimfæra á sonardóttur hans, Ólöfu. Allir fundu hve vel hún rækti það hlutverk sem forlögin höfðu vísað henni til og af hve miklu viti og velvild hún beitti hæfileikum sínum. Þess vegna er hún nánast óumdeild þegar hún nú hverfur frá borði sem forystukona í fremstu röð íslenskra stjórnmála.

Ég sakna nú góðs vinar. En sárust þykir mér tilhugsunin um fjölskylduna, börnin hennar, eiginmann, foreldra, tengdafólk og systkini og þeirra börn. Ég votta ykkur öllum mína dýpstu samúð. Megið þið finna styrk í minningunni um góða konu.
(Birtist í Morgunblaðinu)