Ólafur G. Einarsson leggur orð í belg
Birtist í Mbl
Þjóðin hefur nú um nokkurra vikna skeið fengið að kynnast viðskiptasiðferði á íslenskum fjármálamarkaði m.a. við lestur greina um átökin í Lyfjaverslun Íslands hf. Fjársterkir aðilar í stjórn þessa fyrirtækis ætluðu að knýja stjórnina til að kaupa á uppsprengdu verði samning sem þeir höfðu á hendi og hagnast þannig við millifærsluna. Þetta var margumræddur samningur um elliheimili við Sóltún í Reykjavík.
Samninginn gerði heilbrigðisráðherra, Ingibjörg Pálmadóttir, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar á fyrrihluta árs 1999. Þetta var liður í einkavæðingaráformum sem framkvæmd eru undir handarjaðri einkavæðingarnefndar forsætisráherra. Í þeirri nefnd sitja m.a.menn sem einkavæða eignir almennings upp í eigin hendur. Stjórnarformaður Aðalverktaka á t.d. sæti í einkavæðingarnefndinni en það fyrirtæki fékk Sóltúnsverkefnið til sín í samvinnu við Securitas og eru Aðalverktakar nú að reisa elliheimilið í Sóltúni.
Í fyrrnefndum skrifum hefur margt nýtt og athyglisvert komið fram. Þannig virðast fjárfestar hafa verið afgerandi í stefnumótun ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu. Engin svör hafa borist þegar spurt hefur verið um ráðgjöf þessara aðila innan Stjórnarráðsins. En umræðan var fjárfestum mjög vel kunn og voru þeir jafnan í viðbragðsstöðu að ná til sín bitunum og gera sér úr þeim mat. Í Morgunblaðinu 15. ágúst sl. segir Örn Andrésson, stjórnarmaður í Lyfjaverslun Íslands, eftirfarandi: „Ég var fylgjandi að útvíkka það svið í heilbrigðisgeiranum sem LÍ var að fást við og takast á við ný verkefni. Þar kom Sóltúnsverkefnið (nú Frumafl) sem kjörin byrjun.“ Í Viðskiptablaðinu 18. júlí sl. segir að ef ekki hefði komið fram gagnrýni á opinberum vettvangi og málið því „pólitískt viðkvæmt“ hefði verið gengið frá þessum samningi þegar í ársbyrjun 2000. „Þá var Öldungur búinn að loka samningunum við ríkið um rekstur á hjúkrunarheimilinu við Sóltún og Jóhann Óli vildi setja það inn í LÍ. Það hefði gert honum kleift að innleysa hagnaðinn úr samningnum mun hraðar en ella.“
Ríkisendurskoðun gerði sem kunnugt er úttekt á þessum makalausa samningi. Í úttektinni var fundið að því að ekki hafi eðlilega verið staðið að útboði. Fleiri aðilar hafa lýst furðu á að hagstæðasti kosturinn skuli ekki hafa verið valinn. Þá hefur Ríkisendurskoðun staðfest að samningurinn við Öldung hf. (síðar Frumafl) hafi verið mun hagstæðari en samningar við alla aðra rekstraraðila öldrunarstofnana vegna þess að ríkisstjórnin hafi viljað gera ráð fyrir því að eigendur fyrirtækisins gætu haft arð af fjárfestingu sinni. Ef allar öldrunarstofnanir hefðu notið góðs af örlæti ríkisstjórnarinnar hefði auknu framlagi til öldrunarmála án efa verið fagnað. En því var ekki að heilsa. Stuðningurinn var augljóslega ekki við aldraða heldur við fjármagnseigendur. Viðleitni þeirra til að maka krókinn skyldi verða ríkisstyrkt. Út á þetta gekk samningurinn.
Fleiri þætti þessa máls mætti rekja. Á undanförnum árum hafa menn fylgst með því hvernig aðalpersónur í þessu leikriti hafa hagnast á kostnað ríkissjóðs. Þannig fékk Securitas, fyrirtæki lengi í eigu Jóhanns Óla Guðmundssonar, ýmis verkefni sem áður voru á hendi hins opinbera. Iðulega versnuðu kjör starfsfólksins við þessi skipti og ekki fer sögum af því að ríkissjóður hafi hagnast á þessum viðskipum. En dæmi eru um hið gagnstæða. Gott ef þetta gerðist ekki í menntamálaráðherratíð Ólafs G. Einarssonar.
Gefum nú þeim ágæta manni orðið. Ólafur G. Einarsson hefur sem kunnugt er átt sæti í þeim ríkisstjórnum sem skorið hafa niður aðstoð við aldraða á liðnum árum. Í Morgunblaðinu 9. ágúst segir þessi fyrrverandi stjórnarmaður í Lyfjaverslun Íslands:
„Nokkrar ástæður liggja að baki þess að ég féllst á að taka sæti í stjórn Lyfjaverslunar Íslands. Í fyrsta lagi hef ég lengi haft áhuga á heilbrigðismálum, einkum umönnun aldraðra. Sjálfsagt vegna þess að ýmsir mér nákomnir hafa þurft á umönnun að halda á stofnunum síðustu ár ævinnar. Þótt við þessa aðila hafi í flestu verið vel gert hefur mér orðið æ ljósara að margt mætti betur fara. Ég átti þess einnig kost fyrir atbeina Jóhanns Óla Guðmundssonar að fylgjast með hinu svonefnda Sóltúnsverkefni frá því það fór af stað. Ég varð strax mjög hrifinn af því hvernig að því öllu var staðið. Fyrst af hálfu ríkisstjórnarinnar undir forystu þáverandi heilbrigðisráðherra, Ingibjargar Pálmadóttur, og svo af hálfu þeirra sem áttu lægsta tilboð í verkið, þ.e. Íslenskra aðalverktaka og Securitas, nú Frumafl. Þar var ekkert til sparað þegar menn lögðu grunn að byggingu og rekstri slíks heimilis sem Sóltún verður. Mér þótti vænt um að fá að fylgjast með þróun verkefnisins og jafnvel á stundum að leggja orð í belg.“
Þarf að segja mikið meira?