Ólína bíður spennt eftir Mogga
Ólína sem að mínu mati kemur oft auga á ýmsar athyglisverðar hliðar stjórnmálanna sendi síðunni bréf í morgun. Hún fjallar um ýmsar hliðar úrslitanna, þar á meðal breyttar áherslur innan Sjálfstæðisflokksins. Þar hafi konur úr hófsamari kantinum horfið úr þingsveitinni en síðan segir Ólína: " Á móti kemur að ungir vaskir sveinar koma nú inn á vegum Sjálfstæðisflokksins. Þessum hörðu frjálshyggjumönnum þéttbýlisins skolaði inn á Alþingi á brotnu kosningafleyi flokksins. Það er kannski þverstæðan sem sjálfstæðismennirnir hljóta að velta fyrir sér. Kjósendum er boðið upp á unga menn í öruggum sætum sem allir eru harðir frjálshyggjumenn og hver um sig hagsmunagæslumaður tiltekinna viðhorfa og fyrirtækja. Þegar svo kjósendur eru almennt spurðir um það í kosningum hvort þeir vilji þessa tegund Sjálfstæðisflokks þá segja þeir hreint nei og flytja sig yfir á miðju-hægriflokkinn Framsókn, sem tvöfaldaði fylgi sitt miðað við kannanir. Hvernig ber að túlka þennan vilja kjósenda Ögmundur? Hvernig vilt þú túlka þann vilja kjósenda að styrkja Samfylkinguna og Framsókn (miðað við kannanir) á miðjunni og ekki VG sem réttilega hefur “staðið vaktina” í mörgum mjög veigamiklum málum? Spurt hreint út: Treystir þú þér til að standa vaktina og standa með þessum miðjusæknu evrópuflokkum sem þriðji flokkur í ríkisstjórn undir forystu Halldórs Ásgrímssonar eða Össurar Skarphéðinssonar?"
Ég svaraði Ólínu því til að ég myndi velta úrslitunum betur fyrir mér en okkar afstaða til þeirrar ríkisstjórnar sem þarna er spurt um myndi að sjálfsögðu ráðast af þeim málefnum sem hún hyggðist beita sér fyrir.