OLÍS SVARAR KALLI ÞJÓÐARINNAR EN HVAÐ GERA ÞJÓÐKJÖRNIR FULLTRÚAR?
Fram til þessa hefur Olís starfrækt spilakassa á þremur sölustöðum sínum á höfuðborgarsvæðinu og fjóra á landsbyggðinni. Öllum þessum spilakössum var lokað 24. mars s.l en flestir spilakassar Íslandsspila opnuðu aftur 5. maí nema spilakassar á sölustöðum Olís.
Þarna sýnir Olís félagslega ábyrgð sem ber að þakka og lofa. Vonandi verður framhald þarna á. Fyrir bragðið verður ánægjulegra að koma inn á sölustaði Olís!
Sjá nánar: https://www.visir.is/g/20201980428d/hvetur-olis-til-ad-opna-ekki-spila-kassana-a-nyjan-leik?fbclid=IwAR2_KIEKBHDXK-Dfju9My1BG1YRKKw7S7kiulY4Ok41xXlBGgCrQHREYNlM
Nú er að vita hvað Háskóli Íslands, Rauði krossinn, Slysavarnafélagið Landsbjörg og SÁÁ gera. Þar virðist forherðing ráða för jafnvel eftir að í ljós hefur komið að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar vill láta loka kössunum.
Þá þarf að horfa til ríkisstjórnar og Alþingis sem bera ábyrgð á ósómanum með því setja ekki lög sem banni spilavíti eða að lágmarki setji lagaramma sem veiti spilafíklum einhverja lágmarksvörn þegar framangreindar hjálparstofnanir og æðsta menntastofnun þjóðarinnar gera atlögu að þeim.
Ríkisstjórn og Alþingi hafa til þessa stólað á að þögn af þeirra hálfu myndi kæfa málið. Á þessu mun fljótlega verða breyting því fjölmiðlar virðast vera að vakna til vitundar um hve glæpsamleg svívirða rekstur spilavíta er og mun hvorki framkvæmdavald né löggjafarvald komast upp með það öllu lengur að reyna að þegja málið í hel.
Til þessa hefur beiðni Áhugafólks um spilafikn um viðræður við ríkisstjórnina verið hundsuð og hreinlega ekki svarað einu orði þrátt fyrir ítrekanir en nú fregna ég að veita eigi samtökunum áheyrn í komandi viku.
Um þetta þurfa fjölmiðlar að vera vel upplýstir og fylgjast vel með svo við fáum sem gleggstar upplýsingar um áform stjórnvalda. Góð undirbúningslesning er Gallup könnunin sem sýndi að almennt vill þjóðin – yfirgnæfandi meirihluti hennar – láta loka á þessa starfsemi að fullu.
Er ekki rétt að hlusta á þessa rödd þjóðarinnar?