Fara í efni

ÖLL Á TORGIÐ AÐ MÓTMÆLA HERNÁMI ÍRAKS!


Í dag, laugardaginn 15. mars, kl. 13, verður útifundur á Ingólfstorgi til að mótmæla hernámi Íraks. Hinn 20. mars verða liðin fimm ár frá innrás Bandaríkjanna og bandamanna þeirra í Írak með stuðningi íslensku ríkisstjórnarinnar. „Við" vorum í hópi hinna „viljugu" og erum því miður enn ef dæma skal af yfirlýsingum núverandi ríkisstjórnar.
Mótmælaaðgerðir gegn hernámi Íraks verða víða um heim á í dag og í næstu viku undir kjörorðinu „Allur heimurinn gegn stríðinu"! Sjá nánar á Friðarvefnum, http://www.fridur.is/.
Spurning hvort kalla eigi þetta stríð. Um er að ræða hernám annars  vegar og síðan andspyrnu gegn því. Ömurlegt er að vita til þess að íslensk stjórnvöld skuli hafa lagst í duftið fyrir hið árásargjarna herveldi, Bandaríkin. Þyngra en tárum taki er að Samfylkingin með formann þess flokks í broddi fylkingar,Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, skuli ganga eins langt og raun ber vitni í þjónkun við Bush-stjórnina bandarísku.
Vesöld Samfylkingarinnar virðist ekki eiga sér nein takmörk!