ÖLL SKYNJUM VIÐ ERINDIÐ
Góð samstaða hefur verið með stjórnarandstöðuflokk-
unum á Alþingi í haust. Í fyrsta lagi urðu þeir sammála um að freista þess að mynda saman ríkisstjórn að afloknum alþingiskosningum á vori komanda. Í öðru lagi sameinuðust þeir um að leggja fram þingmál sem yrði jafnframt forgangsverkefni á næsta kjörtímabili og það er að draga úr misrétti í íslensku þjóðfélagi. Þingmálið miðaði að því að rétta hlut öryrkja og aldraðra sem búa við erfið kjör.
Þetta lofar góðu um framhaldið. Að sjálfsögðu þurfa flokkarnir að leggja nokkuð á sig til þess að ná saman um stjórnarstefnu því ljóst er að áherslur þeirra eru talsvert mismunandi á ýmsum sviðum. Þetta kom m.a. fram undir þinglokin þegar Samfylkingin lagði ofurkapp á mikilvægi þess að létta skattbyrðar og tryggja almenningi á þann hátt aukinn kaupmátt, á sama tíma og VG vildi fara varlega í sakirnar hvað skattana áhrærir, horfa fram í tímann og meta hver staða ríkissjóðs og sveitarsjóða verður þegar ekki nýtur lengur innstreymis vegna tímabundinna þensluskatta og „gróðinn“ af einkavæðingunni er fyrir bí. Ekki viljum við þá búa við svo aðþrengdan ríkissjóð að hann láti sjúklinga borga ennþá meira nú, skólabörnin einnig; með öðrum orðum að við sitjum ekki uppi með fyrirkomulag þar sem samneyslan víkur fyrir ranglátum einkalausnum. Einnig bentu þingmenn VG á að verðlag á matvöru væri vissulega mikilvægt fyrir pyngju launamannsins en gæðin skiptu einnig máli fyrir líkama og sál. Þegar upp var staðið var VG eini flokkurinn sem stóð á móti verðlækkunum á gosdrykkjum (sem lækka meira en nokkur önnur matvara í skattalækkunarpakka ríkisstjórnarinnar!). Þar vildi VG fara að ráðum Lýðheilsustöðvar og horfa til heilsunnar.
Þetta er dæmi um ólíkar áherslur innan stjórnarandstöðunnar. Sitthvað hefur þó færst til betri vegar og má nefna sem dæmi að flokkarnir hafa heldur verið að nálgast hver annan á sviði umhverfismála. Þannig hefur Samfylkingin lýst vilja til að hafa umhverfis- og náttúruverndarsjónarmið meira í hávegum og hefur þar verið vísað í stefnumótunarplagg flokksins frá því í haust. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar segir í viðtali sem birtist í Fréttablaðinu sl. laugardag, undir fyrirsögninni, Nú skynja ég erindið, að flokkur sinn sé “eini flokkurinn sem hefur lagt fram skýrar tillögur til framtíðar um hvernig á að takast á við umhverfismálin.” Þetta eru undarleg ummæli þegar horft er til þeirrar miklu vinnu og geysilegu áherslu sem Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur alla tíð lagt á umhverfismál. VG hefur lagt fram kröfur, hugmyndir, stefnumótun á þessu sviði og skoðað umhverfismálin frá öllum sjónarhornum: náttúrunni í nánd og einnig í stærra samhengi, efnahagslífinu og byggða- og samfélagsmálum. Látum vera að formaður Samfylkingarinnar lýsi ánægju með stefnu síns flokks en slík sending til okkar í Vinstrihreyfingunni grænu framboði þykir mér ekki beinlínis vera í anda þeirrar víðsýni og þess umburðarlyndis sem Ingibjörg Sólrún segist bera mjög fyrir brjósti í umræddu viðtali.
Auðvitað vilja allir stjórnarandstöðuþingflokkarnir að þeir hver um sig eflist allra flokka mest. Það er heldur ekki óeðlilegt að þeir bendi kjósendum á að þeir geti haft áhrif á áherslur í samstjórn þessara flokka með því að styrkja þann flokkinn sem fylgir stefnu sem þeim er helst að skapi. Hinu mega þeir ekki gleyma að staðreyndin er sú að hagsmunir þeirra eru að í sameiningu vegni þeim vel.
Ekki er nóg með að formaður Samfylkingarinnar gleymi þessari staðreynd heldur gerist Ingibjörg Sólrún Gísladóttir óþægilega sjálfhverf fyrir eigin flokk og þá ekki síður fyrir eigin persónu í umræddu viðtali. Þar segir hún: “ Ég vildi koma þeim skilaboðum til fólks að það er alger forsenda þess að hér verði umskipti í landsstjórninni að Samfylkingin fái aukið fylgi. Samfylkingin er lykillinn að nýrri ríkisstjórn, að minnsta kosti ríkisstjórn sem einhver endurnýjunarkraftur er í.”
Ekki er ég nú sammála þessu en látum það vera. Óþægilegri er þó áherslan á fyrstu persónu-nálgun formanns Samfylkingarinnar í komandi stjórnarmyndun (sem við aldrei fáum að vita í viðtalinu með hverjum á að vera).
Allt frá síðustu kosningum hafi verið erfiður tími er okkur sagt en nú sé annað uppi á tengingnum. ISG segist finna fyrir “óþreyju”. Þetta “er sama óþreyjan og ég fann 1994 í borginni svo ég er full eftirvæntingar að takast á við það þarfa verkefni að mynda hér nýja ríkisstjórn ... Fyrir ári síðan var þetta ekki runnið upp fyrir mér eins í merg og bein og ég skynjaði þetta ekki eins sterkt af því að erindið var ekki eins nálægt. Nú skynja ég erindið.”
Ég hélt að hefðum öll skynjað þetta erindi fyrir löngu og á sama hátt og 1994 þegar Sjálfstæðisflokkurinn var gersamlega rúinn trausti í borginni, þá hafi núverandi ríkisstjórnarflokkar glatað öllu trausti. Stjórnarandstaðan er hins vegar að eflast, snúa bökum saman, horfa til þess sem sameinar fremur en hins sem sundrar. Stjórnarandstaðan gerir sér þannig grein fyrir því að nú þarf átak, sameiginlegt átak, þar sem allir skynja erindi sitt. Þetta snýst nefnilega um okkur öll. Ekki eitthvert eitt okkar. Foringjahugsun – þar sem leiðtogi telur sig fá vitrun - á að heyra sögunni til. Enda er málið mjög einfalt. Hér situr ríkisstjórn sem löngu er tímabært að koma frá völdum eftir alla eyðilegginguna af hennar völdum á landi og samfélagi. Við sem höfum barist gegn samfélags- og náttúruspjöllum ríkisstjórnar Framsóknar-og Sjálfstæðisflokks í hálfan annan áratug horfum nú fram á að ætlunarverk okkar nái fram að ganga í maí á næsta ári. Þá gefst kjósendum kostur á að breyta um kúrs á þjóðarskútunni.