ÖLLU MÁ NAFN GEFA
Birtist í Fréttablaðinu 16.09.20.
Ekki veit ég hvort er furðulegra nýafstaðin heimsókn Róbets Spanós, forseta Mannréttindadómstóls Evrópu til Tyrklands að þiggja þar viðurkenningu úr hendi valdakerfis þess lands, eða leiðari Aðalheiðar Ámundadóttur, fréttastjóra Fréttablaðsins, sem hrósar forsetanum fyrir þessa för undir fyrirsögninni: Hugrekki.
Framkvæmd og réttlæting
Munurinn er náttúrlega sá að Róbert framkvæmir, Aðalheiður réttlætir. Hún kallar það hugrekki að fara til Tyrklands til að “tala við fólkið” og “byggja brýr”. Þetta kosti náttúrlega þrek, þor og staðfestu svo hugtök leiðarahöfundar séu notuð, enda mátti vita að heimsóknin færi “fyrir brjóstið á meginþorra manna”. En þá væri á það að líta að forsetar Mannréttindadómstóls Evrópu hefðu þegið heiðursorður í ríkjum á borð við Armeníu, Tékkland og Pólland og væri ekki rétt að brjóta þá “órofa hefð” sem hefði myndast um að þiggja heiðursnafnbætur í aðildarríkjum Evrópuráðsins. Hér kveður við sama tón og hjá Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, þingkonu Pírata, sem situr á þingi Evrópuráðsins, þegar hún lýsti yfir að ekki væri rétt að mismuna aðildarríkjum Evrópuráðsins og að auðvitað hefði Róbert átt að þiggja heimboð Tyrkja.
Spurt um afstöðu Íslendinga
Varla veit ég hvar á að byrja til að andæfa þessu. Það geri ég opinberlega vegna þess að ég veit að fylgst er með hérlendri umræðu um þessa heimsókn. Það gera mannréttindasamtök í Tyrklandi, í Evrópu og víðsvegar um heiminn og er þá spurt hvort þessu sé ekki mótmælt á Íslandi, í heimaríki dómsforsetans.
Í fyrsta lagi vil ég lýsa þeirri persónulegu skoðun minni að forseti Mannréttindadómstóls Evrópu eigi ekki að þiggja neinar vegtyllur, frá neinu ríki á meðan viðkomandi er í embætti. Í öðru lagi hlýtur dómgreind manna að mismuna í samræmi aðstæður. Þegar ríki hefur látið reka þúsundir dómara og lögfræðinga úr starfi vegna skoðana sinna og afstöðu til valdstjórnarinnar og fangelsa enn fleiri þúsundir mannréttindafrömuða og pólitískra andstæðinga, jafnað heilar borgir við jörðu, eyðilagt menningarverðmæti á minjaskrá Sameinuðu þjóðanna, hrakið hundruð þúsunda á vergang, lagt á útgöngubann með það að markmiði að koma í veg fyrir aðgang að vatni, ráðist inn í önnur ríki og hersitji þau, ekki einhvern tímann í fyrndinni heldur núna, þá fer forseti Mannréttindadómstóls Evrópu ekki í heimsókn til að láta næla á sig heiðursmerki. Og ef þarf að brjóta einhverja hingað til “órofa hefð” þá er þetta rétti tíminn til að rjúfa þá hefð! Til þess hefði varla þurft hugrekki, efast ég um það, sennilega bara sæmilega dómgreind.
“Fólkið” sem rætt var við
Það er rangt hjá leiðarahöfundi Fréttablaðsins að forseti MDE hafi farið til að “tala við fólkið”. Hann talaði ekki við mannréttindasamtök eða fulltrúa hinna kúguðu, ekki þá sem setið höfðu í kennarstöðum eða starfað í dómsölum og nú útilokaðir þaðan, heldur bara leppana sem settir höfðu verið í þeirra stað. Þess má geta að í Mardin sem Róbert Spanó heimsótti, höfðu Kúrdar sigrað í sveitarstjórnarkosningum, en hinir sigursælu borgarstjórar, karl og kona, verið sett af og í þeirra stað settir einstaklingar þóknanlegir stjórnvöldum. Hinir síðarnefndu voru “fólkið” sem forseti Mannréttindadómstólsins hitti að máli og ræddi við í Tyrklandsheimsókn sinni.
Án nafns og kennitölu
Leiðarahöfundur Fréttablaðsins segir forseta MDE hafa rætt mannréttindi í heimsókn sinni. Það sem ég hef séð af ræðum hans hefðu þær getað verið fluttar í kennslustofu Háskóla Íslands eða hvar sem er því þarna var ekki talað tæpitungulaust og sérstaklega um mannréttindabrot í Tyrklandi heldur um mikilvægi þess að virða mannréttindi almennt, allt án nafns og kennitölu, með öðrum orðum kurteisishjal í húsi mannréttindabrjóta.
Allt þetta gerist með troðfull fangelsin af samviskuföngum, lögfræðingur nýlátinn í fangelsi eftir mótmælasvelti … og forseti Mannréttindadómstólsins neitar að eiga fund með fulltrúum mannréttindasamtaka! Hann var hins vegar myndaður í bak og fyrir með Recep Tayyip Erdoğan forseta og átti fund með ýmsum valdamönnum m.a. með Mustafa Şentop, forseta þingsins sem lýsti því yfir innan sólarhrings eftir samtal þeirra, að hann væri hlynntur dauðarefsingu. Fræðsla dómsforsetans hefur greinilega ekki hrifið, eða dugað stutt.
Tyrklandsförin afleit allra vegna
Forseti dómstólsins hefði getað rætt við samtök blaðamanna sem sviptir hafa verið frelsi sínu eða við samtök sem tala fyrir hönd samviskufanga og heyrt þeirra hlið á málum. “Þannig hefði mátt gefa táknræn skilaboð um óhlutdrægni,” segir í grein á tyrkneskum vefmiðli undir fyrirsögninni í lauslegri þýðingu, “Evrópudómstóllinn hrynur í hugum fólks”.
Róbert Spanó segir heimsókn sína til Tyrklands hafa verið rækilega ígrundaða af sérfræðingum Mannréttindadómstólsins. Ekki þykir mér það góður vitnisburður um þá sérfæðinga.
Sárt er að það skuli hafa hent Róbert Spanó að gera þessi miklu mistök, Mannréttindadómstólsins vegna, Íslands vegna, því hann er fulltrúi Íslands í dómstólnum, en einnig sjálfs sín vegna því hann á betra skilið af sjálfum sér.
Það tel ég mig vita því af mörgu góðu þekki ég hann.
Ögmundur Jónasson,
fyrrverandi þingmaður á þingi Evrópuráðsins