OPIÐ BRÉF TIL ALÞINGIS FRÁ ÞREMUR RÁÐHERRUM
Í Morgunblaðinu í gær birtist opið bréf til alþingismanna um málefni Ríkisútvarpsins þar sem varað er við því að stofnuninni verði breytt í hlutafélag. Þessi blaðagrein er merkileg fyrir ýmissa hluta sakir, gott ef hún er ekki söguleg, því höfundar eiga það sammerkt að vera allir fyrrverandi menntamálaráherrar landsins úr þremur stjórnmálaflokkum. Ekki minnist ég þess að þrír fyrrverandi ráðherrar úr þremur flokkum sameinist í blaðaskrifum um frumvarp sem er til umfjöllunar á Alþingi. Ingvar Gíslason var sem kunnugt er, menntamálaráðherra Framsóknarflokksins, Ragnar Arnalds var menntamálaráherra úr Alþýðubandalagi og Sverrir Hermannsson var menntamálaráherra fyrir Sjálfstæðisflokkinn en siðar varð hann formaður Frjálslyndaflokksins.
Í Morgunblaðsgreininni segir m.a. : "Á Alþingi er nú til umræðu stjórnarfrumvarp til breytinga á gildandi útvarpslögum. Þar er m.a. lagt til að Ríkisútvarpið verði gert að hlutafélagi. Nái sú tillaga fram að ganga væri stigið varhugavert spor, enda ljóst að hlutafélagsformið er sniðið að fésýsluþörfum og hentar ekki menningarstofnun í almannaeigu. …Við undirritaðir ítrekum það, sem fyrr hefur komið fram, að við teljum að best fari á því að Ríkisútvarpið haldi stöðu sinni sem sjálfstæð þjóðareign og mælum gegn því að breyta rekstrarformi þess í hlutafélag. Sérstaklega leyfum við okkur að beina því til alþingismanna að þeir greini muninn sem er á þjóðmenningarstofnun og viðskiptafyrirtæki."
Undir þetta skal tekið. Ein megin röksemdin fyrir því að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag er að þannig verði það "sveigjanlegra" í starfmannahaldi og í markaðsviðskiptum. Um leið og ég þakka menntamálaráðherrunum fyrrverandi fyrir bréfið vil ég taka undir það sem þar kemur fram, nefnilega að greina beri muninn á þjóðmenningarstofnun og viðskiptafyrirtæki.
Eftifarandi er umrædd Morgunblaðsgrein í heild sinni:
Eiga viðskiptafyrirtæki að kaupslaga með hlutabréf í menningarstofnunum?
Bréf til alþingismannaÍslendingar teljast með helstu velmegunarþjóðum heimsins og halda því til jafns við stórþjóðir um efnisleg gæði.
En auður þjóðar felst ekki einungis í mælanlegum markaðsverðmætum. Varla greinir menn á um að ríkidæmi þjóðar er ekki síður metið á mælikvarða andlegra verðmæta, skapandi listmenningar og auðugs þjóðlífs, þ.ám. þroskaðrar þjóðtungu og bókmennta.
Íslensk þjóð er fámenn, búsett á eylandi á ystu nöfum Norður-Atlantshafsins, fjarri meginlandi Evrópu. Á Íslandi hefur samt þróast þjóðmenning, sem vissulega er mótuð af samevrópskum menningaráhrifum og lífsviðhorfum, en er eigi að síður sér á parti, mörkuð sérkennum, sem ráðast af legu landsins, náttúrufari þess og búsetuskilyrðum í harðbýlu landi.
Öll viljum við að Íslendingar haldi sínu í samskiptum við aðrar þjóðir. Það gerum við best með ræktarsemi við þjóðlega menningu okkar, enda er menningarrækt smáþjóðum höfuðnauðsyn. Þann vilja geta Íslendingar ekki síst sýnt í verki með því að styrkja menningarstofnanir þjóðarinnar, mennta- og menningarsetrin, skólana og söfnin, sem löngum hefur verið litið á sem samfélagseign, m.a. Þjóðminjasafn Íslands, Þjóðleikhúsið og Ríkisútvarpið. Við, sem stöndum að þessu bréfi, teljum að samfélagseignir á menningarsviði séu ekki söluvara.
Á Alþingi er nú til umræðu stjórnarfrumvarp til breytinga á gildandi útvarpslögum. Þar er m.a. lagt til að Ríkisútvarpið verði gert að hlutafélagi. Nái sú tillaga fram að ganga væri stigið varhugavert spor, enda ljóst að hlutafélagsformið er sniðið að fésýsluþörfum og hentar ekki menningarstofnun í almannaeigu. Þótt til kæmi sú varúðarregla að banna sölu slíks hlutafélags með lögum, er hægurinn hjá, þótt síðar yrði, að nema sölubannsákvæðið úr gildi. Þá opnast leið til þess að bjóða hlutabréf stofnunarinnar til sölu. Fésýslumenn, þ.ám. alþjóðleg fégróðafyrirtæki, færu þá að kaupslaga með eina mikilvægustu menningarstofnun þjóðarinnar, en í raun er engin leið að meta verðgildi hennar í peningum, því að menningarverðmæti eru í eðli sínu ómetanleg. Það á ekki síst við um eignasamsetningu Ríkisútvarpsins.
Við undirritaðir ítrekum það, sem fyrr hefur komið fram, að við teljum að best fari á því að Ríkisútvarpið haldi stöðu sinni sem sjálfstæð þjóðareign og mælum gegn því að breyta rekstrarformi þess í hlutafélag. Sérstaklega leyfum við okkur að beina því til alþingismanna að þeir greini muninn sem er á þjóðmenningarstofnun og viðskiptafyrirtæki.
Ingvar Gíslason, fyrrverandi menntamálaráðherra, Ragnar Arnalds, fyrrverandi menntamálaráðherra, Sverrir Hermannsson, fyrrverandi menntamálaráðherra.