Opið bréf til oddvita ríkisstjórnarflokkanna: ERU BARA TIL PENINGAR ÞEGAR VIÐSKIPTARÁÐIÐ BANKAR UPP Á?
Birtist í Morgunblaðinu 04.06.07.
Landspítalinn hefur iðulega farið fram á auknar fjárveitingar m.a. vegna endurhæfingardeildarinnar að Grensási. Oftar en ekki hafa forsvarsmenn sjúkrahússins farið bónleiðir til búðar.
Nú bregður svo við að tryggingafyrirtækið Sjóvá býðst til þess að koma inn í þennan rekstur, í það minnsta að stækkun deildarinnar að því er fram hefur komið opinberlega. Þessu hefur Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra fagnað ákaflega. Segir hann að sest verði yfir þessi mál. Prýðilegt. Ég vil leyfa mér að hvetja til ítarlegrar og málefnalegrar umræðu um þetta efni. Þar verði öllu velt við.
Upplýsa þarf hvað Sjóvá býður upp á. Lýtur það fyrst og fremst að húsnæðinu eða rekstrinum? Minnstur vandinn er að reisa húsnæðið – það er starfrækslan sem hefur staðið í mönnum. Hvorugt hefur þó hingað til talist sérsvið tryggingafélaga.
Ódýrara með nýjum millilið?
Ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að heilbrigðiskerfið verði fjármagnað með skattgreiðslum landsmanna. Eðlilegt er að þá verði skoðað á hvern hátt Sjóvá ætlar að leysa vandann betur en gert yrði án slíks milliliðar. Heilbrigðisráðherra þarf fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að upplýsa hvernig standi á því að ekki hefur verið hægt að láta fjármuni renna til Grensásdeildar fram að þessu, en það væri hins vegar hægt ef Sjóvá kæmi að málinu.
Áður hefur Ríkisendurskoðun staðhæft að ástæðan fyrir því að hjúkrunarheimilið Sóltún er dýrari kostur fyrir skattborgarann en önnur hjúkrunarheimili fyrir aldraða, sé sú að arður til eigenda leggist þar ofan á annan kostnað. Að mínu frumkvæði gerði Ríkisendurskoðun úttekt á þeim mismun sem er á greiðslu til Öldungs hf, rekstraraðila Sóltúns annars vegar og annarra dvalarheimila fyrir aldraða hins vegar. Hin síðarnefndu, sagði Ríkisendurskoðun, “eiga að jafnaði ekki að sýna hagnað af starfsemi sinni. Að sjálfsögðu á slíkt ekki við um hlutafélög og aðra sambærilega einkaaðila á borð við Öldung hf. Forsvarsmenn félagsins hljóta að gera eðlilegar kröfur um hagnað af starfsemi fyrirtækisins.”
Umhyggja fyrir þjóðarhag eða arðsemisvon?
Sjálfstæðisflokkurinn vill einkarekið heilbrigðiskerfi. Samfylkingin hefur haft innan sinna vébanda aðila sem eru sama sinnis, þótt vitað sé um margt Samfylkingarfólk sem er í fullri alvöru andstætt slíkum áformum. Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, hefur gefið í skyn að áhugi Sjóvá (Mbl. 1.júní sl.) sé fyrst og fremst tilkominn vegna þess að fyrirtækin í landinu hafi svo mikinn áhuga á heilbrigði landsmanna. "Síðan eru það fyrirtækin í landinu sem hafa svo sannarlega alla hagsmuni af því að heilbrigði þjóðarinnar sé sem best og ég fagna að þeir hafi áhuga á því að koma að þeim málum og mun reyna að beita mér fyrir því að samvinna allra þessara aðila verði sem best."
Vel má vera að eitthvað sé til í þessu. En við vitum líka að ýmis samtök sem hafa gætt hagsmuna fjárfesta hafa löngum þrýst mjög á um einkavæðingu innan velferðarþjónustunnar til þess að hægt sé að græða á henni. Þar hefur Viðskiptaráðið staðið fremst í flokki og iðulega klætt hagsmunagæsluna í hugmyndafræðilegan búning. Innsti koppur í því búri hefur verið harðduglegur maður og fylginn sér: Þór Sigfússon. Hann er fyrrverandi aðstoðarmaður fjármálaráðherra. Hann er nú forstjóri Sjóvá, sá hinn sami og heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins fagnar nú hvað ákafast. Það kemur ekkert á óvart að tryggingafyrirtækið, með digra sjóði og kröfuharða hluthafa sem vilja ávaxta sitt pund undir stjórn Þórs, reyni að hasla sér völl í einkarekinni heilbrigðisþjónustu. Þar er stöðug eftirspurn og þar er stöndugur greiðandi. Það er andvaraleysi hagsmunagæslumanna almennings, þar með talinn ríkissjóðs, sem helst vekur ugg; að hann standi sig ekki í stykkinu.
Þrjár spurningar
Í því ljósi vil ég beina þremur spurningum til oddvita ríkisstjórnarflokkanna.
1) Hvað veldur því að peningar eru til þegar Sjóvá bankar upp á en ekki þegar forsvarsmenn Grensásdeildar gera slíkt hið sama?
2) Er ríkisstjórnin tilbúin að fallast á ítarlega athugun með þverpólitískri aðkomu áður en ákvarðanir verða teknar um fjárútlát úr ríkissjóði til einkaframkvæmda innan heilbrigðisþjónustunnar?
3) Er samstaða um þessi efni innan ríkisstjórnarinnar?