Fara í efni

OPIÐ BRÉF TIL RÍKISSTJÓRNAR ÍSLANDS


Birtist í Morgunblaðinu 19.02.19.
Staða mannréttindamála tekur á sig æ dekkri mynd í Tyrklandi og er svo komið að ríki heims geta ekki lengur þagað þunnu hljóði. Þetta á við um Ísland, ekki síður en um önnur ríki. Auk þess á svo að heita að við séum í bandalagi við Tyrkland með veru okkar í NATÓ.

Samviskufangar í mótmælaföstu

Ríkjum heims ber skylda til að gagnrýna mannréttindabrotin í Tyrklandi og krefjast þess að gripið verði til aðgerða þegar í stað til að koma í veg fyrir að mótmælafasta, sem breiðist nú ört út á meðal samviskufanga í tyrkneskum fangelsum, leiði til dauða mörg hundruð manns sem svo aftur hefði keðjuverkandi afleiðingar með auknu ofbeldi og mannréttindabrotum.
Í mars á síðastliðnu ári tók Parísardómstóllinn (the Permanent Peoples´ Tribunal) - sem starfað hefur nær óslitið frá sjöunda áratug síðustu aldar, að frumkvæði heimspekinganna Bertrands Russells og Jean-Pauls Sartres - fyrir ásakanir um ofbeldi og stórfelld mannréttindabrot tyrkneskra stjórnvalda í Kúrdahéruðum Tyrklands.

Afdráttarlaus niðurstaða um stórfellda stríðsglæpi

Tveimur mánuðum síðar, í maí í fyrra, þegar dómstóllinn hafði rannsakað það sem fram kom við vitnaleiðslur og gögn sem fram höfðu verið reidd í París, lá afdráttarlaus niðurstaða fyrir: Framdir höfðu verið stórfelldir stríðsglæpir, fjöldamorð og mannréttindabrot af margvíslegu tagi. Dómstóllinn hafði fyrst og fremst til skoðunar tímabilið frá miðju ári 2015 til ársloka 2017. Í niðurstöðu dómstólsins er því einkum fjallað um þessi ár en þó er einnig vikið að hryðjuverkum tyrkneska hersins í árásunum á Kúrdabyggðirnar í Afrin í norðanverðu Sýrlandi í upphafi síðasta árs.

Öcalan líkt við Mandela

Árið 1999 var óskoraður leiðtogi Kúrda í Tyrklandi og norðanverðu Sýrlandi, Abdullah Öcalan, hnepptur í fangelsi. Í þau tuttugu ár sem síðan eru liðin hefur honum verið haldið föngnum á Imrali-eyju í Marmarahafi. Stundum er dregin upp samlíking með Öcalan og Mandela í Suður-Afríku, sem einnig var haldið í einangrunarvist á eyju, Robin-eyju í hans tilviki, að því leyti að báðir leiddu þeir vopnaða baráttu í réttindastríði við stjórnvöld. Í hvorugu tilvikinu viðurkenndu stjórnvöld réttmæti baráttunnar og skilgreindu því alla sem komu nærri henni sem hryðjuverkamenn.

Brot á mannréttindum

Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg komst að þeirri niðurstöðu í mars árið 2003 að Öcalan hafi ekki fengið réttmæta málsmeðferð fyrir dómi og rúmum tíu árum síðar að einangrun á Imrali-eyju stæðist ekki grundvallarreglur mannréttinda en úr því hafi verið bætt árið 2009 með því að fangelsa þrjá menn aðra einnig á eyjunni. Þótti þá formsatriðum fullnægt!
Á ferð minni til Tyrkalnds í síðustu viku og þar með talið til Kúrdahéraða í suð-austanverðu landinu, átti ég viðræður við fjölda mannréttindasamtaka sem lýstu reiði og undrun vegna deyfðar umheimsins, og þá ekki síst mannréttindastofnana, á ofbeldinu sem Kúrdar eru beittir.

Forsenda friðar

Allir sem rætt var við voru á einu máli um að rof á einangrunarvist Abdullah Öclans væri forsenda þess að viðræðurnar um varanlegan frið gætu hafist að nýju, nokkuð sem allt þetta fólk sem við ræddum við þráir. Þær fréttir hafa þó varla farið fram hjá neinum að það eitt að setja nafn sitt við þessa kröfu, að friðarvirðræður hefjist að nýju, er fangelsissök í Tyrklandi.
Í aðdraganda ferðar minnar til Tyrklands skrifaði ég Abdulhamit Gül, dómsmálaráðherra landsins, bréf fyrir hönd sjö manna sendinefndar þar sem óskað var eftir fundi með honum. Við bréfi mínu barst ekkert svar.

Ekki fengið að hitta lögfæðinga síðan 2011

Nú er svo komið að yfir þrjú hundruð manns – og fer fjölgandi – í tyrkneskum fangelsum og víða utan Tyrklands einnig eru í mótmælaföstu til að krefjast þess að einangrun Öcalans verði rofin. Hann hefur ekki fengið að hitta lögfræðinga sína síðan 2011 og fjölskyldu sína síðan 2015 að undaskildum tveimur heimsóknum bróður síns í þrjátíu mínúntur árið 2016 og í fimmtán mínútur 12. janúar síðastliðinn.

Gegn samþykktum Sameinuðu þjóðanna

Einangrun Öcalans stríðir gegn samþykktum Sameinuðu þjóðanna um einangrunarvist fanga frá árinu 2015, sem stundum eru kennd við Nelson Mandela (Mandela rules). Samkvæmt þeim er ekki heimilt að halda manni í algerri einangrun lengur en 22 klukkustundir á sólarhring í meira en fimmtán daga samfleytt án nokkurra mannlegra samskipta.

Niðurlæging þagnarinnar

Um þetta deilir enginn opinberlega. En þótt engan hafi ég heyrt deila um mannréttindabrotin þá hef ég “heyrt” þögn margra.
Það var sláandi að heyra talsmann mannréttindasamtaka í Amed/Diyarbakir lýsa stöðu mála eins og hún blasti við honum: “Ég þakka ykkur fyrir að koma hingað til fundar við okkur. Það veitir okkur styrk. Hitt megið þið vita að við erum ekki hjálparvana í þrengingum okkar, við munum verja okkur. En þið þurfið hins vegar að verja Evrópu og umheiminn fyrir niðurlægingu þagnarinnar um okkar hlutskipti!”

Ríkisstjórnin geri tvennt

Og nú leita ég til ríkisstjórnar Íslands um að láta frá sér heyra. Ég leyfi mér að fara fram á tvennt:
Tafarlaust verði haft samband við RecepTayyip Erdogan, forseta Tyrklands, og þess krafist að einangrun Öcalans verði þegar í stað aflétt og friðarviðræður hafnar að nýju.
Tafarlaust verði haft samband við framkvæmdastjóra Evrópuráðsins, Thorbjörn Jagland, og óskað eftir því að hann hafi þegar í stað samband við Erdogan, forseta Tyrklands, og krefjist þess að einangrun Öcalans verði þegar aflétt og friðarviðræður hafnar að nýju.

Engar áhyggjur, nú þarf beinar afdráttarlausar kröfur!

Nú er sá tími liðinn að umheimurinn þegi eða í besta falli lýsi yfir áhyggjum. Nú þarf skýrar og afdráttarlausar kröfur.
Í aðdraganda Tyrklandsheimsóknar minnar heimsótti ég Srassborg og hópinn sem þar er í mótmælasvelti til að leggja áherslu á framangreindar kröfur. Og í Amed/Diyarbakir kom ég að hvílu Leylu Güven. Hún var þá á 98. degi í mótmælaföstu. Hún sagði: Ég lít ekki svo á að ég sé að taka líf mitt. Þvert á móti er þetta óður minn til lífsins, ég vil lifa lífinu, en með mannlegri reisn.”
Ég óska eftir opnu svari við opinni ósk minni.
Ögmundur Jónasson