OPIÐ BRÉF TIL SAMFYLKINGARFÓLKS
Birtist í Morgunblaðinu 21.10.05.
Í Sjálfstæðisflokknum er nú talað opinskátt um hve æskilegt væri að samstarf tækist með Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu í landsmálum. Svo dæmi sé tekið, hefur
Ég er í hópi þeirra sem hef verið mjög eindreginn fylgismaður vinstra samstarfs og hef þá horft til þeirra flokka sem hafa viljað kenna sig við félagshyggju, þá ekki síst til Samfylkingarinnar.
Samfylking til hægri?
Í ljósi ýmissa yfirlýsinga sem komið hafa frá Samfylkingunni upp á síðkastið eru óneitanlega farnar að renna á mig tvær grímur um hvar staðsetja eigi Samfylkinguna í hinu pólitíska litrófi. Ekki fæ ég betur fundið en að kul frá hægri stafi nú frá þeim flokki. Í sjálfu sér er það engin nýlunda að Samfylkingin leggi blessun sína yfir einkavæðingu og hlutafélagavæðingu, hvort sem það hafa verið bankar, póstur og sími, hafnir, vatnsveitur eða ýmislegt annað sem Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur varað við að færa út á markaðstorgið. En viðkvæðið hjá Samfylkingunni hefur jafnan verið að línan skuli dregin um heilbrigðis- og skólamál. Markaðsöflunum skuli haldið frá þessum sviðum velferðarþjónustunnar.
Ég fæ hins vegar ekki betur skilið en Samfylkingunni þyki nú koma vel til álita að markaðsvæða heilbrigðisþjónustuna. Ýmsir talsmenn flokksins eru meira að segja farnir að tala ákveðið fyrir slíku.
Stefna Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í heilbrigðismálum sú sama?
Stefnumótunarvinnu Samfylkingarinnar, sem kunngerð var á landsfundi flokksins sl. vor, hlaut eftirfarandi umsögn í Morgunblaðinu frá hendi Ólafs Arnar Arnarssonar, læknis, eins helsta hugmyndafræðings Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðismálum um áratugaskeið: „Á landsfundi Samfylkingar nýlega var lögð fram niðurstaða heilbrigðisvinnu Samfylkingar. Ekki stóð til að ganga frá málinu sem landsfundarsamþykkt en hér er um að ræða mjög athyglisverða stefnumótun í þessum málaflokki. Undirritaður hefur sl. 15 ár tekið þátt í að móta ályktanir landsfundar Sjálfstæðisflokksins og þegar þetta tvennt er borið saman kemur í ljós að stefna þessara tveggja stjórnmálaflokka ...er sú sama.“
Ekki þurfti maður að velkjast í vafa um sannleiksgildi þessa eftir lestur greinar varaformanns Samfylkingarinnar, Ágústs Ólafs Ágústssonar í Morgunblaðinu 29. september sl. Fyrirsögnin er afdráttarlaus pólitísk yfirlýsing: „Aukum vægi einkareksturs í heilbrigðisþjónustu“. Það er að sjálfsögðu góðra gjalda vert að tala skýrt og ekkert væri við þetta að athuga ef þessi talsmaður Samfylkingarinnar gæti fært rök fyrir því að einkarekin heilbrigðisþjónusta væri hagkvæmari, gæfi meiri gæði og drægi úr kostnaði. Rannsóknir benda til að hið gagnstæða sé uppi á teningnum, einkavæðingu innan velferðarþjónustunnar fylgi aukinn kostnaður og félagsleg mismunun. Um þetta er að hafa dæmi, innlend sem erlend. Á þessum forsendum hafa vinstri menn, þeir sem vilja kenna sig við félagshyggju, hafnað markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustunnar.
Hægri sinnar, talsmenn peningafrjálshyggju, hafa hins vegar viljað einkavæða án tillits til fyrrgreindra afleiðinga. Þetta hefur einfaldlega verið þeirra hugsjón og þeir trúað því að markaðsvæðing samfélagsins væri æskileg þrátt fyrir annmarkana. Að vísu hefur þessi skoðanahópur þurft að hörfa nokkuð í seinni tíð og hefur viðkvæðið þá verið að þótt heilbrigðiskerfið yrði markaðsvætt ætti eftir sem áður að fjármagna það með skattfé. Þetta er nú viðkvæðið bæði hjá talsmönnum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. En svo mikið telur þetta fólk vera gefandi fyrir markaðsvæðinguna að það virðist láta sér í léttu rúmi liggja þótt rannsóknir leiði í ljós að einkarekstur sé dýrari fyrir skattborgarann og óhagkvæmari á flesta
Með kápuna á báðum öxlum
Samkvæmt mínum skilningi liggur helsta átakalínan í stjórnmálum um það hvort markaðsvæða eigi grunnþjónustu samfélagsins, rafmagn, vatn, skólp að ógleymdri heilbrigðisþjónustu og menntakerfi. Vel má vera að Samfylkingin telji það vera til vinsælda fallið á 21. öldinni, að gerast eins hægri sinnaður og hægri vængur Sjálfstæðisflokksins. Þá hættir flokkurinn hins vegar að vera félagshyggjuflokkur. Og fyrir okkur, sem horft höfum til Samfylkingarinnar sem vænlegs samstarfsflokks í stjórnmálum, vakna áleitnar spurningar.
Stjórnmálaflokkar verða að tala skýrt. Það gengur ekki fyrir Samfylkinguna að láta sem flokkurinn sé þenkjandi á jafnaðarvísu um leið og boðuð er grundvallarbreyting á samfélaginu í anda stækustu peningafrjálshyggju. Slíkt kallast að bera kápuna á báðum öxlum.
Kemur fólki, sem stendur utan Samfylkingarinnar, það við hvernig hún hugsar og talar? Í tvennum skilningi er svo. Það skiptir kjósendur almennt máli að stjórnmálaflokkur komi hreint til dyranna svo þeir viti að hverju þeir ganga við kjörborðið. Það skiptir aðra stjórnmálaflokka máli, að þeir viti hvað er í pokahorninu hjá hugsanlegum samstarfsaðilum, þegar gengið er til samstarfs í bæjar- og landsmálum.