ORÐ OG EFNDIR
Birtist í Fréttablaðinu 24.01.12.
Skilja má á Stíg Helgasyni blaðamanni á Fréttablaðinu, í skrifum á miðvikudag að sér finnist skjóta skökku við að ég ætli mér að taka málsferð hælisumsókna til skoðunar því nákvæmlega það hafi ég áður sagst vilja gera þegar ég hafi sett á laggirnar starfshóp um málefni útelndinga utan EES í júlí 2011. En aldrei sé góð vísa of oft kveðin!
Það er reyndar alveg rétt að endurskoðun á verkferlum í stofnunum hins opinbera á að vera stöðug og sífellt endurtekin eins og góðar vísur. Það er hins vegar miskilningur hjá blaðamanni Fréttablaðsins að yfirlýsingar mínar frá því í júlí 2011 hafi ekki skilað árangri og verið orðin tóm. Fjarri lagi. Á vinnsluborði Alþingis liggur nefnilega frumvarp með heildstæðri endurkoðun á málefnum útlendinga utan EES svæðisins, meðal annars um skilyrði og verklag við komu fólks til landsins undir mismunandi formerkjum. Ný útlendingalöggjöf er bráðnauðsynleg því núverandi lög eru um margt óskýr og óaðgengileg auk þess að margt þarf að færa í réttlætisátt. Það er reynt að gera í nýju frumvarpi til útlendingalaga sem sumir fréttamenn á Fréttablaðinu hafa sýnt verðskuldaðan áhuga. Hins vegar blasir sú staðreynd við að fjöldi hælisleitenda hefur margfaldast frá því sem var á sama tíma í fyrra og málsmeðferðartími lengist. Verklagið þarfnast því skoðunar, núna.