ORÐ SKIPTA MÁLI – EKKI SÍST ÚR MUNNI FRÉTTAMANNA
Mary Robinson, fyrrum forseti Írlands og mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, flutti erindi á hátíð í tilefni 75 ára afmælis Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands. Ágætu erindi hennar hafa verið gerð góð skil í fjölmiðlum, m.a. í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni Orðin sem við notum skipta máli. Í erindi sínu gaf Robinson dæmi af áhrifamætti orðanna og hvernig senda mætti táknræn skilaboð með fáum orðum.
Þetta varð mér umhugsunarefni sem reyndar stundum fyrr. Í hádegisfréttum RÚV í dag var rætt um tvo áhrifamenn úr liði Bush Bandaríkjaforseta og afstöðu þeirra til Sameinuðu þjóðanna, annars vegar Johns Boltons nýútnefnds sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum og Condoleezzu Rice utanríkisráðherra. Okkur var sagt að John Bolton hefði gagnrýnt SÞ harðlega og Condoleezza Rice vildi umbætur hjá þessum sameiginlegu samtökum jarðarbúa. En nú fór ég að hugsa um orðin. Er rétt að segja að John Bolton hafi gagnrýnt Sameinuðu þjóðirnir, væri ekki nær að segja að hann hafi ráðist á SÞ eða hvað kalla menn yfirlýsingu á borð við þessa:
" Það er ekkert til sem kalla má hinar Sameinuðu þjóðir. Það er vissulega til alþjóðasamfélag sem stundum lýtur leiðsögn eina raunverulega stórveldisins í heiminum, Bandaríkjunum, það er að segja, þegar það þjónar hagsmunum okkar og þegar okkur tekst að fá aðra til að fylgja okkur...Árangur okkar í Flóastríðinu var ekki vegna þess að Sameinuðu þjóðirnar hefðu skyndilega skilað árangri. Þetta var vegna þess að Bandaríkin, fyrir tilstilli Bush forseta, sýndu hverju forysta á heimsvísu, myndun bandalaga og diplómatísk sambönd geta fengið áorkað...Þegar Bandaríkin stýra þá fylgja Sameinuðu þjóðirnar á eftir. Þegar það þjónar hagsmunum okkar að hafa þennan hátt á þá gerum við það."
Textinn á ensku er svohljóðandi: "There is no United Nations. There is an int
Condoleezza Rice hefur tekið undir með John Bolton enda í hópi harðvítugustu hægri hauka Bushstjórnarinnar og er þá nokkuð mikið sagt. Þegar stjórnmálamaður talar um umbætur efast ég ekki um að hann telur tillögur sínar til bóta. Þær tillögur sem hér eru til umræðu eru hins vegar mjög umdeildar og tel ég þær til dæmis vera afar neikvæðar. Ekki geri ég þó þær kröfur til fréttastofu RÚV að fréttir af hugmyndum Condoleezzu Rice verði orðaðar sem niðurrifstilllögur, þótt sjálfum fyndist mér það réttnefni. Ég á hins vegar erfitt með að taka því að þær séu kallað umbótatillögur. Það er gildishlaðið hugtak. Gætu menn sæst á að tala um breytingatillögur bandaríska utanríkisráðherrans, að hún vildi gera breytingar á stjórnskipulagi og vinnulagi SÞ? Þar með væri gildismati útrýmt úr orðalaginu.
Samkvæmt mínum skilningi vill Condoleeza Rice breyta Sameinuðu þjóðunum. Ég myndi hins vegar aldrei skrifa upp á að tillögur hennar væru umbótatillögur. Hún má sjálf vísa í þær með því orðalagi mín vegna. Það eiga fréttastofur hins vegar ekki að gera að mínu mati.
Í þessu sambandi minnist ég blaðagreinar sem Richard Perle einn af haukum Bush skrifaði fyrir fáeinum misserum í breska blaðið Guardian undir fyrirsögninni, Thank God for the death of the United Nations, Þökk sé guði fyrir endalok SÞ. Var þetta einn af gagnrýnendum Sameinuðu þjóðanna í hópi með John Bolton eða var hann ef til vill að tala máli umbótasinna á borð við Codoleezzu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna?