Fara í efni

ORKAN OKKAR


Birtist í Morgunblaðinu 09.03.19.
Í fjöl­miðlum, ekki síst í Morg­un­blaðinu, hef­ur farið fram mik­il og oft á tíðum mjög upp­lýs­andi umræða um orku­stefnu Evr­ópu­sam­bands­ins. Í þess­ari umræðu hafa kunn­áttu­menn úr orku­geir­an­um út­skýrt hvað fel­ist í svo­kölluðum „orkupökk­um“ ESB, en sam­kvæmt áætl­un rík­is­stjórn­ar­inn­ar hef­ur staðið til að Íslend­ing­ar samþykki „þriðja orkupakk­ann“ á yf­ir­stand­andi þingi.
Ekki er þó útséð um það því Guðlaug­ur Þór Þórðar­son ut­an­rík­is­ráðherra vill skoða málið nán­ar. Það er vel.

Áleitn­ar spurn­ing­ar um framtíð orku­geir­ans

Þór­dís Kol­brún R. Gylfa­dótt­ir ferðamála-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra gef­ur þess­ari umræðu hins veg­ar ekki háa ein­kunn á ný­af­stöðnum árs­fundi Lands­virkj­un­ar þar sem hún greindi frá þeirri ákvörðun rík­is­stjórn­ar­inn­ar að hefja viðræður um kaup rík­is­ins á eign­ar­hlut­um í Landsneti.
Landsnet, sem er í meiri­hluta­eigu Lands­virkj­un­ar, á og rek­ur all­ar meg­in­flutn­ings­lín­ur raf­magns hér á landi. Aðrir eign­araðilar eru einnig í al­manna­eign, þ.e. RARIK, Orku­veita Reykja­vík­ur og Orku­bú Vest­fjarða.
Mein­ing­in er semsagt að al­menn­ing­ur selji al­menn­ingi, það er að segja sjálf­um sér. Ef­laust er það, þröngt skoðað, hið besta mál verði það til þess að tryggja með skýr­um hætti að Landsnet sé grunnþjón­usta í eigu og á veg­um al­menn­ings, aðskilið því sem er rekið á for­send­um einka­eign­ar­rétt­ar. Þegar hér er komið sögu ger­ast hins veg­ar áleitn­ar ýms­ar spurn­ing­ar um framtíðaráform varðandi eign­ar­hald á Lands­virkj­un.

Lágt orku­verð eða mik­il arðsemi?

Svo er nefni­lega að skilja, að það sjón­ar­mið sé að verða ofan á, að ávinn­ing­ur al­menn­ings af ork­unni eigi ekki að fel­ast í lágu orku­verði í gegn­um eign­ar­haldið, held­ur arðinum af markaðsbú­skap með ork­una sem þá hugs­an­lega renni í fyr­ir­hugaðan Þjóðarsjóð. Þar með væri búið að tengja hvata til að fram­leiða sem mesta orku sem seld yrði á sem hæstu verði til kaup­enda. Þjóðin myndi síðan hagn­ast af arði og skatt­lagn­ingu. Svo er að sjá að verið sé að kort­leggja þessa framtíð. Varla hugn­ast ís­lensk­um garðyrkju­bænd­um hún né um­hverf­is- og vernd­un­ar­sinn­um.

Mbl.is grein­ir frá

Umræða um þessi efni seg­ir iðnaðarráðherra, sam­kvæmt mbl.is hinn 28. fe­brú­ar, „hef­ur farið út um víðan völl. Þó væru menn að byrja að átta sig á sam­hengi hlut­anna: „Orkupakk­arn­ir voru ekk­ert annað en markaðspakk­ar, og sá þriðji er það líka,“ sagði ráðherra og bætti við að sam­keppni á raf­orku­markaði hefði auk­ist frá samþykkt fyrri pakk­anna. Þór­dís Kol­brún sagðist hafa heyrt af því að hóp­ur fólks sem ætlaði að berj­ast gegn samþykkt þriðja orkupakk­ans á Alþingi ætlaði að fara fram und­ir slag­orðinu „Okk­ar orka“ og sagðist hún túlka þau skila­boð sem svo að þessi hóp­ur teldi orku­auðlind­ina af sama meiði og fisk­inn í sjón­um, þ.e. í sam­eign þjóðar­inn­ar. Svo er ekki, sagði ráðherra, og lagði áherslu á að vatns­afl og jarðvarmi og nýt­ing­ar­rétt­ur af þeirri auðlind væri í hendi land­eig­enda“.

ACER af­teng­ir lýðræðið

Það er vissu­lega rétt hjá ráðherr­an­um að orkupakk­arn­ir eru fyrst og fremst „markaðspakk­ar“ og þriðji pakk­inn fær­ir fyr­ir­hugaðan raf­orku­markað und­ir sam­evr­ópskt eft­ir­lit sem nefn­ist ACER, Agency for the Cooperati­on of Energy Reg­ulators, sem hef­ur á hendi úr­sk­urðar­vald um ágrein­ing á raf­orku­markaði. ACER er ætlað að af­tengja allt sem heit­ir lýðræði ákvörðunum á markaði. Út á það geng­ur þriðji orkupakk­inn!

Lægst orku­verð á Íslandi – ennþá

Og á evr­ópsk­um markaði er raf­orku­verð lægst á Íslandi. Það kæmi hins veg­ar ekki að sök, fylg­ir sög­unni, því hagnaður­inn endaði á end­an­um í Þjóðarsjóðnum eða í skatt­hirsl­um rík­is­ins. Það er mik­il­vægt að við ger­um okk­ur fulla grein fyr­ir þessu, að með teng­ingu Íslands við evr­ópsk­an orku­markað væru liðnir dag­ar lágs orku­verðs á Íslandi. Ekki er þó sjálf­gefið að við tengj­umst evr­ópsk­um markaði með sæ­streng eða öðrum hætti í bráð þótt við féll­um und­ir ACER. En for­ræði okk­ar væri farið eins og reynd­ar hef­ur verið að ger­ast smám sam­an með fyrri „pökk­um“. Það er rétt hjá iðnaðarráðherr­an­um.

Bar­átta og málþóf þokaði okk­ur áfram

En varðandi út­legg­ing­ar ráðherr­ans á eign­ar­haldi ork­unn­ar þá er þetta nú ekki al­veg svona ein­falt, alla vega eins og ég skil það. Er það ekki svo að drjúg­ur hluti þjóðar­inn­ar hef­ur verið að reyna að koma auðlind­un­um í þjóðar­eign, þar á meðal hóp­ur­inn sem ráðherr­ann tal­ar niður til, „Ork­an okk­ar“?
Þetta er ekki auðveld bar­átta en hún hef­ur engu að síður verið háð af hálfu þeirra sem vilja horfa vítt yfir völl­inn. Um alda­mót­in var tek­ist á um eign­ar­hald á vatni. Niðurstaðan varð ekki ákjós­an­leg en um sumt varð ávinn­ing­ur í jag­inu fram og til baka, enda­lausu „málþófi“ á Alþingi góðu heilli! Þannig var sett inn í vatna­lög­in árið 2011 klásúla sem seg­ir: „Ríki, sveit­ar­fé­lög­um og fyr­ir­tækj­um sem al­farið eru í eigu þeirra er óheim­ilt að fram­selja beint eða óbeint og með var­an­leg­um hætti rétt til umráða og hag­nýt­ing­ar á því vatni sem hef­ur að geyma virkj­an­legt afl um­fram 10 MW.“
Þarna vildi lög­gjaf­inn sjá við því sem áður hafði verið fest í lög að vatns­rétt­indi fylgdu án tak­mark­ana eign­ar­haldi á landi sem selt er. Hafi ríkið eða aðrir hand­haf­ar al­menn­ings á annað borð öðlast eign­ar­hald á landi þá var með þess­ari laga­setn­ingu kom­inn inn varnagli varðandi vatnið. Til þessa varnagla þarf m.a. að horfa þegar lög um eign­ar­hald á landi verða end­ur­skoðuð.

Ork­an verði okk­ar

Þetta er sam­fé­lagið að tak­ast á um og fagna ég sér­stak­lega umræðunni sem sprott­in er frá hinum óform­legu en þver­póli­tísku sam­tök­um „Ork­unni okk­ar“. Þar á bæ rýna menn í smá­atriði til­skip­ana og reglu­gerða sem varða orkupakka Evr­ópu­sam­bands­ins jafn­framt því sem horft er vítt yfir. Hvort tveggja þarf að gera. Við af­vega­leiðumst ef við reyn­um ekki að sjá hvert stefn­ir, hvert för­inni er heitið. Þess vegna þarf umræðan að fara um víðan völl. Ann­ars verður þess skammt að bíða að ork­an verði ekki okk­ar.