ÖRYGGISRÁÐIÐ – HVAÐ SKAL GERA?
Erfitt er að átta sig á því hvað verður ofan á varðandi tilraunir Halldórs Ásgrímssonar, forsætisráðherra að kaupa fyrir Ísland sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Forsætisráðherra ítrekaði áhuga sinn á sætinu í ræðu sem hann flutti á Allsherjarþingi SÞ. Uppi varð fótur og fit hér heima enda málið mjög umdeilt sem kunnugt er. Um þetta er eftirfarandi haft eftir Guðna Ágústssyni, landbúnaðarráðherra og varaformanni Framsóknarflokksins í Morgunblaðinu í dag: "Ég tel að þessi ákvörðun um að Íslendingar sækist eftir setu í Öryggisráðinu sem ákveðin var af ríkisstjórn og Alþingi fyrir um sjö árum sé núna í miklu uppnámi..." Guðni minnir á að sækja þurfi fjármagn vegna framboðsins til Alþingis en ljóst sé að þar sé mikil andstaða gegn málinu. Segir hann efasemdir margra, meðal annars sínar, hafi vaxið og tilgreinir ýmsar ástæður.
Þetta hljóta að teljast fremur óvenjulegar sendingar á milli helstu forsvarsmanna Framsóknarflokksins.
Af þessu er augljóst að ríkisstjórnin hefur ekki unnið heimavinnuna í þessu máli. Nú þarf hins vegar að leiða málið til lykta hið snarasta. Það er hárrétt hjá Guðna Ágústssyni að ákvörðun um fjárveitingar á að taka á Alþingi. Því miður hefur það verið að gerast í seinni tíð að afdrifaríkar ákvarðanir, sem fela í sér miklar fjárhagslegar skuldbindingar fyrir ríkissjóð, hafa þeir tekið félagarnir Davíð og Halldór - nánast í tveggja manna spjalli. Hvað þetta mál áhrærir er verið að tala um fjárútlát á bilinu hálfur til heill milljarður króna. Á þessu máli er einnig stórpólitískur flötur því það varðar aðkomu Íslands að alþjóðasamstarfi. Á Alþingi hefur þetta mál vissulega komið til umræðu en ekki til ákvörðunar. Á Alþingi og á öðrum opinberum vettvangi hef ég margoft lýst yfir miklum efasemdum um þetta brölt og má m.a. sjá röksemdir mínar HÉR. Það er freistandi fyrir stjórnarandstöðu að reyna að nýta mál af þessu tagi til að berja á ríkisstjórn sem augljóslega hefur klúðrað málum. Við þurfum hins vegar að hugsa um hag Íslands í þessu efni og hvernig við komum fram út á við. Ég er þeirrar skoðunar að enn sé ekki of seint að hætta við þetta brölt og þykir mér lofa góðu hve opinskátt bæði varaformaður Framsóknarflokksins og þingflokksformaður sama flokks, ræða þessi mál. Það ber vott um raunsæi og það er síður en svo veikleikamerki að sýna að skoðanir eru skiptar í Framsóknarflokknum og að efasemdarmönnum í þessu máli fari fjölgandi. Það er styrkur fólginn í því að geta skipt um skoðun ef mönnum þykja rök hníga í þá átt.
Að lokum ein lítil tillaga: Fari svo að Halldór Ásgrímsson hafi sitt fram og haldi þessu máli til streitu, væri ekki hugsandi að stöðva peningaflæðið, sjálfsupphafningartalið og áróðurinn og sjá hver niðurstaðan yrði? Þegar hafa ráðherrar flengst um heiminn ásamt fríðu föruneyti í því skyni að tala fyrir eigin ágæti um alllangt skeið og er svo að skilja að þar eigi að verða framhald á því kosningin fer ekki fram fyrr en á árinu 2008. Peningaausturinn þykir mér vera andlýðræðislegur og áróðurinn jaðra við siðleysi og skort á sjálfsvirðingu fulltrúa þjóðarinnar. Þá segir mér svo hugur að tal okkar manna í utanríkisþjónustunni um það hve geysilega flókið og erfitt og kostnaðarsamt það sé að sitja í Öryggisráðinu, sé stórlega orðum aukið. Ég er hins vegar viss um að þeim muni takst að eyða öllum þessum peningum ef til kemur. En að þess sé þörf, um það hef ég miklar efasemdir.