Öryggistilfinning Bandaríkjaforseta
Á forsíðu Fréttablaðsins í dag segir frá Írlandsheimsókn Bush Bandaríkjaforseta undir yfirskriftinni Heimurinn er öruggari en áður. "Ég trúi því að heimurinn sé öruggari staður", er orðrétt haft eftir forsetanum og ástæðan að sjálfsögðu sú, að hans sögn, að ráðist var á Afganistan og Írak. Eftir þessar innrásir sé heimurinn öruggari. Bush hefur viðdvöl á Írlandi í tæpan sólarhring á leið sinni til Tyrklands á NATO fund. Í DV kemur svo skýringin á þessari miklu öryggistilfinningu Gerorgs Bush. Þar segir frá öryggisráðstöfunum í tengslum við heimsóknina undir eftirfarandi fyrirsögn: Þúsundir hermanna og skriðdreka passa Bush í Írlandsheimsókn, Bandarískar skyttur með skotleyfi á Írlandi. Í fréttinni segir síðan að Bush eigi nú orðið erfitt með að ferðast til Evrópulanda vegna þeirra öryggisráðstafana sem þurfi að grípa til á ferðalögum hans: "Rúmlega tvö þúsund hermenn munu umkringja Shannon flugvöll þar sem forsetavélin lendir, auk þess sem skriðdrekar, herskip og herflugvélar verða allt um kring. Við Dromoland kastala verður komið fyrir fjögur þúsund lögreglumönnum en forsetanum fylgja auk þess sjö hundruð bandarískir öryggisverðir auk fjögurra herskipa. Bandarísku hermennirnir hafa skotleyfi sýnist þeim sem forsetanum sé hætta búin. Þá er ótalinn fjöldi sprengju- og eiturefnasérfræðinga sem verða að störfum á svæðinu...Forsetinn verður að líkindum lítið sem ekkert var við andstöðu við stríðið því mótmælendum verður meinað að stilla sér upp við þær götur sem forsetinn fer um."
Í ummælum sínum vísar forseti Bandaríkjanna til öryggis í heiminum. Þar hefur hann hins vegar ekki rétt fyrir sér því spenna hefur aukist verulega á stórum heimssvæðum í kjölfar fyrrnefndra innrása Bandaríkjamanna og aukinnar hervæðingar þeirra. Ef Georg Bush er hins vegar að horfa til sjálfs sín kann hann að hafa rétt fyrir sér að því leyti að öryggis hans sé betur gætt en áður. En skyldu menn í Washington aldrei spyrja sjálfa sig hversu heilbrigt það geti talist að Bandaríkjaforseti geti ekki ferðast um nema umlukinn heilum herdeildum. Og hvað með tilkostnaðinn af þessu öllu? DV greinir frá því að 18 klukkustunda stopp þessa manns á Írlandi kosti írska skattgreiðendur 300 milljónir króna. Það kostar sitt að hýsa menn með slæman málstað!