Fara í efni

ÓSTAÐLAÐA ÍSLAND


Austarlega i Grímsnesinu er þessi notalega verslun sem ég hef ófáum sinnum lagt leið mína í. Gott viðmót alltaf þar. Nú er hún að loka. Ég þakka starfsfólkinu fyrir mig og lýsi eftirsjá. Ég trúi ekki öðru en þarna sé grundvöllur fyrir verslunarrekstur því orlofsbyggðin á þessum slóðum þenst út. Reyndar eru fleiri ágætar verslanir á þessu svæði, í Reykholti og víðar. En verslunin Borg er annað og meira en búð. Hún er fulltrúi hins óstaðlaða Íslands. Staðlaða Ísland er búið til með reglustiku á miðstýrðu teikniborði stóru olíufélaganna. Allt flott og fínt en staðlað út í smáatriðin - fullt af ys og þys en samt lífvana. Alla vega í einhverjum skilningi. Hvernig væri að ráða arkitekta sem teiknuðu þjónustustöðvar inn í umhverfið í stað þess að þröngva umhverfinu inn í staðlana? Kannski er gamla Borg ekki hentugt vinnusvæði. Veit það ekki. En þetta mætti íhuga áður en gamla óstaðlaða Íslandi er lokað eða jafnað við jörðu.