ÓÞARFI AÐ HNEYKSLAST Á ÞJÓÐNÝTINGARTALI
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 02/03.11.24.
Nýafstaðið er þing Alþýðusambands Íslands. Undirbúningur var til fyrirmyndar og þinghaldið eftir því, fjölbreytt, málefnalegt og opið. Heill dagur var með málstofum þar sem einstök mál voru tekin til umfjöllunar, heilbrigðismál, orkumál, auðlindir og markaðsmál og reynt að máta allt inn í það samfélagsmódel sem verkalýðshreyfingunni finnst vera eftirsóknarverðast. Svona var þingið skipulagt og gekk þessi formúla upp að miklu leyti, en ekki öllu, enda ekki við allt ráðið.
Ég þykist vera umræðuhæfur um þetta þing Alþýðusambands Íslands því ég sat sem fastast og hlustaði á erindi og umræður allan daginn sem þinghaldið var opið.
Forseta ASÍ mæltist vel í setningarræðu sinni. Lagði hann að nokkru leyti út frá skoðanakönnunum sem Alþýðusambandið hafði látið gera. Spurt hafði verið meðal annars hvort orkulindir og raforkuver ættu að vera í almannaeign eða einkaeign. Þrjú prósent þjóðarinnar valdi síðari kostinn, að raforkan ætti að vera í höndum einkaaðila. Áttatíu og fimm prósent vildu að ríki og sveitarfélög hefðu eignarhald að öllu eða mestu leyti á sinni hendi en tólf prósent voru hlutlaus.
Minnir svolítið á sjávarauðlindina. Yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar hefur jafnan viljað að hún væri í eign og undir handarjaðri almennings.
Sama um heilbrigðisþjónustuna, hún ætti að vera almannarekin og eignarhaldið opinbert þótt afmörkuð sérfræðiþjónusta væri að einhverju leyti einkarekin. Sem betur fer er það svo að almennir skattgreiðendur standa að uppistöðu til straum af kostnaði við heilbrigðisþjónustuna. Það gefur auga leið að þessi sami almenningur skuli hafa yfirráð yfir rekstrinum og geti þannig tryggt að hann þjóni almannahagsmunum. Þetta voru líka skilaboð sænskra lýðheilsusérfræðinga sem ráðlögðu Íslendingum að læra af mistökum Svía. Þeir tóku að markaðsvæða heilbrigðiskerfi sitt í kringum aldamótin. Þá hafi hagnaðarhvatar tekið við stjórninni sem aftur leiddi til mismununar og misréttis. Þarna væru aldeilis vítin til að varast sögðu hinir sænsku sérfræðingar. Pallborðið tók almennt undir.
En svo var það raforkan og aðrar auðlindir. Þá byrjaði að fara verulega um mig því að varla höfðu ASÍ menn sleppt orðinu þegar sérfræðingar og pólitíkusar hófu upp raust sína. Nú brá svo við að allt varð óskýrara enda röksemdirnar í felulitum, ýjað að og gefið í skyn að tekið væri undir með þjóðarviljanum þegar í raun var verið að sveigja af leið. Þjóðin yrði að njóta auðlinda sinna var sagt hátt og skýrt. En það skyldi gert með auðlindarentu, það væri nýi tíminn. Þarna var ljóslifandi kominn óskadraumur fjárfestanna: Auðlindirnar markaðsvæddar en þjóðin fengi hluta arðsins í sínar hendur.
Skyldi einhvern ráma í umræðuna um kvótann á tíunda áratug liðinnar aldar og fram undir þennan dag? Þetta voru árin sem Samfylking og VG voru stofnuð. Og þarna var líka um skeið Frjálslyndi flokkurinn. Allir ætluðu þessir flokkar að fyrna kvótann, afnema framsalskerfið og í stað þess yrði veiðiheimildum úthlutað tímabundið til útgerðarinnar og sjávarbyggðanna sérstaklega. Þannig yrði raunverulega farið að fyrstu grein laga um stjórn fiskveiða sem í veruleikanum hefur verið að engu gerð, en hún kveður á um sameign þjóðarinnar á nytjastofnum á Íslandsmiðum og að úthlutun veiðiheimilda skuli ekki mynda „eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum“.
Framangreindir stjórnmálaflokkar minnast ekki lengur orði á þessi fyrirheit sín heldur aðeins hve hátt auðlindagjaldið eigi að vera; finnst engu skipta hver hafi forræðið heldur aðeins hve hátt hlutfall arðseminnar sé greitt til almennings. Það er nú það. Heldur einhver í alvöru að fjárfestarnir muni ekki finna ráð til að fela arðinn, og hvað orkuna snertir og vatnið þá er það að sjálfsögðu tryggast fyrir almenning að eiga hvort tveggja og halda síðan verðinu í lágmarki eins og við höfum gert til þessa. Eins fráleitt og það nú hljómar var það markaðssinninn Guðlaugur Þór sem einn minntist á þennan möguleika í umræðunni á þingi ASÍ. Í pallborðunum var eignarhaldið nær alveg horfið úr umræðunni en rentan réði ein. Ætti hún að vera há eða lág?
Áttatíu og fimm prósentin úr skoðanakönnuninni voru þarna með öllu gleymd. Nú var það bara spurning um að þjóna prósentunum þremur, efla markaðinn og samkeppniseftirlitið og síðan gleðjast yfir hverri krónu í auðlindasjóð sem samherjunum í sjávarútvegi tækist ekki að fela.
Pólitík sem hlustar ekki á vilja almennings, bara prósentanna þriggja, verður að skilja að einhvern tímann kemur að skuldadögum. Þótt stjórnarskrár segi að einkaeignarrétturinn sé heilagur þá getur ranglætið orðið slíkt að upp úr sjóði og almenningur sæki eignir sínar. Það er kallað þjóðnýting. Þeir sem hafa gefið auðmönnum eignir þjóðar gegn vilja hennar ættu ekki að hneykslast yfir því orði.
Eða var ekki rétt eftir tekið að einhver hafi verið að hneykslast?
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.