Fara í efni

ÓTÍMABÆR FÖGNUÐUR Í BRÜSSEL

Alþingi - esb
Alþingi - esb


Alþingi Íslendinga fer sem betur fer enn með löggjafarvald á Íslandi en hvorki Evrópusambandið né EFTA dómstóllinn. Eða hvað? Stundum hefur maður haft ástæðu til að efast um hvað sé rétt í því efni.Velferðarráðherra hefur kynnt hugmyndir að breytingum á lögum um Íbúðalánasjóð. Sagt er að stuðst verði við „danska kerfið". Á kynningarfundum var þó jafnan tekið skýrt fram að ýmislegt sem mörg okkar tóku sem jákvæðast í „danska kerfinu" átti ekki að gilda í íslenska kerfinu!  Látum svo hitt liggja á milli hluta að flestir, sem vísa til danska kerfisins í þessari umræðu, virðast hafa afar takmarkaða vitneskju um það. Eitt þykist ég geta fullyrt og það er að ekki er eins frábærlega auðvelt að eignast húsnæði í Danmörku og margir láta í veðri vaka - nema vissulega eru í danskri löggjöf og framkvæmd ívilnandi ákvæði sem íslensk stjórnvöld vilja ekkert hafa með að gera - að því er sagt var í vor á kynningu á þeim hugmyndum sem fram hafa komið. Látum það bíða seinni tíma umræðu.Í Brussel er því nú ákaft fagnað að íslensk stjórnvöld ætli að vísa lántökum vegna allra eigna sem eru meira en fjörutíumilljón króna virði til bankanna. (sbr. frásögn Viðskiptablaðsins, sjá slóð að neðan.)
Yrði það til að styrkja Íbúðalánasjóð?
 Nei.
 Styrkur Íbúðalánasjóðs er að hafa á hendi sem flest traust veð. Þeir sem á annað borð vilja muna það, ætti að ráma í að fyrir hrun þegar bankarnir gerðu aðför að Íbúðalánasjóði, vildu þeir að hann héldi sinni stöðu gagnvart tekjulægsta hluta þjóðarinnar og „köldum svæðum" þ,e. svæðum á landsbyggðinni þar sem fasteignaviðskipti gengju treglega og eignirnar fyrir vikið lágt metnar. Inn á slík „ótrygg" svæði vildu bankarnir sem minnst koma. Og það sem meira er, þangað fóru þeir ekki!
Hinn félagslegi þráður í Íbúðalánasjóði var í bland sá að tryggja lánveitingar á landinu öllu og jafna áhættu sína með því að hafa á hendi bæði hin tryggari veð sem og hin ótryggari.Oda Helen Sletnes, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), gefur sér að nú sé búið að hverfa frá þessu fyrirkomulagi og fagnar ákaft. Í mínum huga er þetta ótímabær fögnuður og sannast sagna ekkert sérlega geðfelldur, en minnir á hve miðstýrð og lítið lýðræðislega þenkjandi Evrópusambandið - og skilgetin afkvæmi þess - eru.
http://www.vb.is/frettir/107509/