Fara í efni

ÓVÆGIN FRAMSÓKN – GAGNVART ÖÐRUM EN FRAMSÓKN

Framóknarflokkurinn á í erfiðleikum. Sjaldan hefur það komið eins vel fram og í dag. Stöð 2 gerði mistök í fréttaflutningi sínum varðandi tímasetninguna á því hvenær (ekki hvort) Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson komu Íslendingum á lista yfir þjóðir, sem lýstu vilja til að styðja innrás í Írak gegn vilja Sameinuðu þjóðanna. Nú snýst allt um dagsetningar og hver segir satt og rétt frá. Það er vissulega verðug umræða. Í henni á Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra í vök að verjast. Þess vegna tekur hann og öll Framsókn fegins hendi feilspori hjá Stöð 2. Fréttamaðurinn og Stöð 2 biðjast hins vegar afsökunar. Öllum geta orðið á mistök. Allt veltur á hvernig viðkomandi bregðast við. Það er styrkur fréttamannsins, Róberts Marshalls, og Stöðvar 2 í þessu tilviki að viðurkenna mistökin. Þeir sem þannig bregðast við verða ekki fyrir varanlegum skaða. En þetta nægir ekki hinni grandvöru Framsókn. Á vefsíðu Framsóknarflokksins segir í pistli eftir V. Valdimar Valdemarsson m.a. eftirfarandi: "... Siðanefnd Blaðamannafélagsins hlýtur að finna hjá sér þörf til að koma saman og leggja dóm á hvað þarna gerðist og hver ber ábyrgðina...Ég held að framkoma fréttastjórans helgist af því að hann hefur ekkert álit á þeim sem horfa á fréttatíma Stöðvar 2 og á íslensku þjóðinni almennt.  .... Ef fréttastofa Stöðvar 2 ætlar að endurvinna traust þjóðarinnar eftir þessa dæmalausu uppákomu þarf að svara eftirfarandi: Hafa fréttamenn Stöðvar 2 sjálfdæmi í því hvaða fréttir eru fluttar og gilda engar almennar verklagsreglur um að fréttir séu lesnar yfir með gagnrýnum augum áður en þær eru settar í loftið? Bera fréttastjóri og vaktstjóri á fréttastofu enga ábyrgð á þeim fréttum sem sendar eru út? Eru forsvarsmenn og eigendur Stöðvar 2 sáttir við þessi vinnubrögð á fréttastofunni?...Reyndar bárust fréttir af því seint í kvöld að fréttamaðurinn, Róbert Marshall, hefði axlað ábyrgð á mistökum sínum með því að segja upp störfum, sem var óhjákvæmilegt af hans hálfu, en telji sig hins vegar áfram geta sinnt formennsku í Blaðamannafélaginu, sem ég fæ ekki séð hvernig á að ganga upp."
En bíðum nú við. Það er ekki aðeins verið að fjalla um trúverðugleika Stöðvar 2 og fréttamanna þar, manna sem hafa þó sýnt að þeir axla ábyrgð. Það er verið að fjalla um trúverðugleika forsætisráðherrans sem segist hafa upplýst Alþingi um forsendur stuðnings Íslendinga við innrásina í Írak. Stjórnarandstaðan telur hann ekki segja rétt frá og vill rannsókn á málinu, nokkuð sem forsætisráðherra hefur sett sig upp á móti. Reynist forsætisráðherra ekki hafa farið með rétt mál, hljótum við að spyrja hvort vænta megi skrifa á vefsíðu Framsóknarflokksins af því tagi sem má lesa hér að framan og að óhjákvæmilegt sé að viðkomandi segi af sér embætti?