PAIX JUSTE Í LÚXEMBORG
Ráðstefna sem ég sótti í Lúxemborg í gær, laugardaginn 5. október, undir heitinu Réttlátur friður, Paix juste, stóð undir væntingum og reyndist bæði fróðleg og gefandi. Viðfangsefnið var nútið og framtíð í Ísrael og Palestínu, hver væri staðan og hvert stefndi.
Á dagskrá ráðstefnunnar voru á annan tug ræðumanna og þátttakenda í pallborðsumræðum, bæði Ísraelar og Palestínumenn.
Sjaldséðir utanríkisráðherrar sem taka afstöðu með málstað Palestínumanna
Það var þó heimamaður í Lúxemborg sem reið á vaðið því Jean Asselborn, utanríkisráðherra Lúxemborgar, hélt ræðu við upphaf ráðstefnunnar, eins konar opnunarræðu. Hún þótti mér merkileg fyrir tvennt.
Í fyrsta lagi fyrir að hann skyldi yfirleitt tala á ráðstefnunni í ljósi þess hve gagnrýnin hún var í garð ísraelskra stjórnvalda. Kom ekki á óvart að hann skyldi í aðdraganda ráðstefnunnar hafa sætt harðri gagnrýni fyrir að hyggjast tala þar.
Í öðru lagi þótti mér ræða ráðherrans góð fyrir hve tæpitungulaus hún var, gagnrýnin á ísraelsk stjórnvöld en einnig á Hamas. Hann talaði fyrir tveggja ríkja lausninni.
Hlutdeild utanríkisráherra Lúxemborgar í fundinum var honum til sóma þótt ekki hefði hann tekið eins djúpt í árinni og Össur Skarphéðinsson, utanríkisráherra Íslands, gerði þegar hann hélt sína þrumuræðu á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um árið og gagnrýndi þá harkalega mannréttindabrot framin á Palestínumönnum.
Gideon Levy: Óhræddur baráttumaður fyrir mannréttindum
Næstur talaði Gideon Levy, dálkahöfundurinn margfrægi í Ísrael. Hann byrjaði á því að þakka utanríkisráðherra Lúxemborgar og skyldfólki hertogans af Lúxemborg, “the royal family”, fyrir að sækja fundinn, hvergi annars staðar í Evrópu hefði slíkt gerst.
Sagði hann frá ráðstefnu svipaðrar tegundar og þessi sem haldin var nýlega í Þýskalandi og erfiðleikum við að finna heppilegan fundarstað. Allir sem vildu hýsa ráðstefnuna máttu búast við ásökunum um andúð á Gyðingum – anti-semitisma – og undir því vildu fæstir sitja.
Gideon Levy mæltist síðan eitthvað á þessa leið: Það er engin deila í Palestínu, frekar en deila hafi verið um Alsír á sínum tíma, það var einfaldlega um það að ræða að Frakkar höfðu hertekið Alsír og Alsírbúar vildu losna undan nýlenduveldinu. Svo einfalt er það í Ísrael ekki flókið eins og yfirvöldin vilja vera láta. Þvert a móti er allt deginum ljósara, spurningasrnar sem svara þarf algerlega skýrar, stendur þú með mannréttindum eða ekki, já eða nei?
Annað hvort er kona ólétt eða hún er ekki ólétt
Það er enginn hálfsannleikur hér. Kona er annað hvort ólétt eða ekki – hún er ekki hálfólétt. Þú getur heldur ekki verið hálfdemokratískur.
Eins er því varið í Ísrael, þar ríkir lýðræði fyrir gyðinga en Palestínumenn eru beittir ofbeldi og ofríki. Það gerir Ísrael ekki hálf-demokratískt ríki. Það gerir landið fullkomlega ódemókratískt og stefnuna sem þar er fylgt aðskilnaðarstefnu, apartheid.
Levy var ekki aðeins gagnrýninn í garð ísraelskra stjórnvalda, hann var einnig mjög gagnrýninn í garð þeirra sem fara með völdin á Gaza. Þar ríkti ofbeldisstjórn, “one of the most brutal tyrannies anywhere”.
Í Ísrael litu stjórnvöld svo á að öll gagnrýni væri glæpsamleg - alternative voices are criminalized. Þetta gerðist í Ísrael og þar sem áhifa ísraelskra stjórnvalda gætti. Hverjum dytti í hug annars staðar að kalla það glæpsamlegt að hvetja til þess að vörur framleiddar af barnaþrælum í suð-austur Asíu yrðu ekki keyptar, eða vildu sniðganga Hamas, Íran, Rússland eða hvað sem mönnum dytti I hug – og að allir sem þetta gerðu væru glæpamenn?
Ekkert flókið við að taka afstöðu til mannréttindamála
En nákvæmlega það henti þá sem töluðu fyrir því að Ísrael verði sniðgengið með viðskiptabanni. Þeir eru sagðir andstæðingar gyðinga. Fortíðin truflaði og hræddi marga ekki síst í Þýskalandi. En þögn vegna fortíðarinnar væri óafsakanleg, spurningin væri aftur ofur einföld: Ertu hlynntur alþjóðamannréttindasáttmálum og alþjóðalögum, já eða nei? Þetta er ekkert flókið, enginn getur leyft sér að flýja sanneikann óháð því sem gerst hefur í fortíðinni.
En það er ekki hernaðurinn einn sem horfa þyrfti til, heldur hins daglega lifs, þar eigi sér stað stöðug og dagleg niðurlæging og fyrir vikið í huga flestra engin von um bjarta framtíð.
Einskis væri að vænta innan frá í Ísrael ef ekki kæmi til þrýstingur utan frá – ekkert frekar en í Suður-Afríku á dögum kynþáttastefnunnar. Það var það utanaðkomandi alþjóðlegur þrýstingur sem reið baggamuninn.
Tveggja ríkja lausnin er lausn gærdagsins
Og Gideon Levy klykkti út með því að höfða til hins almenna manns – því ekkert kæmi frá valdakerfum heimsins – treysta þyrfti á “civil society” almenning , “the role rests with civil society”. Og hvað væri til bragðs að taka? Sniðganga Ísrael! Þetta væri eina raunhæfa leiðin. Þessu sjónarmiði hefur hann talað fyrir áður og látið fylgja að væru menn hlynntir Ísrael ættu þeir að koma þeim sem berjast fyrir mannréttindum þar í landi til hjálpar með þessum hætti.
Gideon Levy var mjög afdráttarlaus hvað varðar tveggja ríkja lausnina, hún væri ekki lengur gerleg, hún væri lausn gærdagsins. Hún gengi upp ef landi væri skipt og aðilar nytu fyllsta jafnræðis. En svo hefði það aldrei verið í Ísrael og sennilega aldrei annað staðið til af hálfu valdhafa en að stefna málum í þann farveg sem heimurinn þekkir illu heilli.
Allir töluðu máli friðar
Að lokinni tölu Gideons Levy hófust pallborðsumræður. Í þeim tóku þátt einstaklingar úr grasrót baráttunnar, bæði Palestínumenn og Ísraelar, einstaklingar sem neitað höfðu herþjónustu, fólk sem stýrði menntaverkefnum sem byggðu á því að tengja fólk úr stríðandi fylkingum. Allir töluðu fyrir friðsamlegum lausnum og að efla menningar- og vináttutengsl á milli Ísraela og Palestínumanna.
Mjög áhrifaríkt var að hlýða á Yonatan Shapira, fyrrum flugmann í ísraelska hernum, mann sem sagði sig frá herþjónustu. Hann lýsti því hvernig það hefði breytt sér sem manneskju þegar það rann upp fyrir honum að hann hefði verið þátttakandi í hryðjuverkasamtökum, það er að segja ísraelska hernum, og hvað hann sjálfur hefði gert öðru fólki með veru sinni þar – jafnvel þótt aldrei hefði hann tekið í byssugikk.
Þegar umbylting verður hið innra með okkur
Þessi stund opinberunar hefði átt sér stað á fundi þar sem leiddir voru saman Palestínumenn og ísraelslir gyðingar. Hin mannlegu tengsl við palestínska einstaklinga hefðu opnað augu sín fyrir þeim heilaþvotti sem hann hefði sætt í æsku. Reyndar væri spurning hvaða hugtök ætti að nota, breyting væri ekki nógu víðfemt hugtak yfir það sem gerst hefði innra með sér, því þessi reynsla hefði ekki aðeins breytt sér heldur umbylt sér og stækkað sig, extended my personality.
Þeir sem vilja styðja okkur eiga að sniðganga Ísrael – það er ekki óvinveitt aðgerð heldur mjög svo vinsamleg, elskandi – an act of love.
Hann lýsti viðbrögðum í hernum þegar hann sagði sig frá honum, hann væri svikari og ætti ekkert gott skilið. Það hafi hann fengið að heyra. Það sem hins vegar hefði veitt sér styrk var sú vissa að hann hefði verið að gera rétt, mennskan, humanity, stæði með sér.
Þar sem er barátta þar er von
Margt var vel sagt af hálfu þátttakenda á þessari ráðstefnu og frábært að finna fyrir þeirri staðfestu og hugrekki sem fólkið bjó yfir, ekki síst hjá ungu fólki sem fór frekar í fangelsi en að gegna herþjónustu í þágu ofbeldishers.
Isreen Shehada, palestínskur verkfræðingur, sósíalsisti og baráttukona, átti setninguna sem hitti mig í hjartastað: Þar sem er barátta þar er von, where there is struggle there is hope!
Ætli þetta sé ekki mergurinn málsins. Á meðan til er fólk sem beitir sér í þágu góðs málstaðar er von um betri tíð!
Og erum við þar komin að lokaorðunun sem Gideon Levy átti. Þau voru mögnuð. Hann kvaðst því miður ekki geta talað á bjartsýnisnótum nema þá með fyrirvörum.
Heimurinn fer ekki batnandi
Flest benti til þess að heimurinn færi versnandi. Þröngsýni væri að færast í aukana víðast hvar í heiminum. Í Ísrael væru harðlínuöfl sterkari en áður hvað sem liði kosningaúrslitum. Baráttuandinn meðal Palestínumanna færi dvínandi, umheimurinn væri síður vakandi en áður. Ef hann liti til baka, um 20 til 30 ár og skoðaði eigin hug þá og nú, þá hefði hann trúað því í upphafi tíunda áratugarins að friður væri á næsta leiti. Hugur manna í Ísrael hefði verið opinn og leitandi. Brandarinn á meðal Ísraela hefði verið sá að fyrir hvern Ísraela væru þrjár skoðanir. Nú væri ein skoðun fyrir alla Ísraela. Og sú skoðun kæmi frá ríkinu. Hún væri rasísk. Sú hætta væri fyrir hendi að í sjálfhverfum heimi sem færi versnandi en ekki batnandi myndu Palestínumenn gleymast, að enginn kæmi til með að hirða um þá frekar en annað í heimi þöggunar og áhugaleysis.
Bjsrtsýni því miður samofin svartsýni
Mín bjartsýnisnóta sem ég þrái að skila ykkur er því miður jafnframt svarstsýn, sagði Gideon Levy, nefnilega að heimurinn þurfi að versna enn til að vakna. Og það verði að sjá til að gerist, að heimurinn vakni, því ekkert gerist fyrir kraftaverk af himnum ofan: Það þarf okkur til!!
Það gæti komið að því að Ísrael innlimaði Vestubakkann og alla Palestínu. Það yrði gert án þess að tryggja öllum sambærileg réttindi. Þetta væri ef til vill ekki það versta sem gæti hent, því þar með svipti ríkið af sér dulargervinu og kæmi fram sem apartheid ríkið sem það er. Þá gæti heimurinn vakanð – hugsanlega, þegar felulitirnir dyggðu ekki lengur.
Megum aldrei láta hugfallast
En það er engin trygging fyrir því að heimurinn vakni. Við þurfum að sjá til þess að heimurinn vakni, sagði Gideon Levy.
Þess vegna megum við ekki missa móðinn.