Páll H. Hannesson skrifar: Trúverðugur fréttaflutningur?
Ólafur Sigurðsson fréttamaður Sjónvarpsins var með frétt í sjónvarpinu í gærkvöldi, mánudaginn 31. mars um Írak. Hófst fréttin á staðhæfingu um að áróðursstríðið væri tapað og hefði öllum verið það ljóst fyrirfram að svo færi. Er hér um nokkuð furðulega staðhæfingu að ræða sem stenst enga skoðun, enda ljóst að Bandaríkjamenn og fylgismenn þeirra sem hófu styrjöldina þykjast alla tíð hafa haft góðan málsstað að verja og hafa beitt áróðursmaskínu sinni af fullum þunga og án þess að siferðiskenndin hafi nokkuð vafist fyrir þeim. Þeir sem ekki hafa samþykkt áróðurinn þegjandi og hljóðalaust eru stimplaðir samverkamenn Saddams Hussein í raun. Bandamenn ætluðu sér að vinna áróðursstríðið ekki síður en hernaðinn í Írak og hafa ekki verið par hrifnir af mótmælum almennings um allan heim enda ekki talið sig þurfa að taka mikið tillit til þeirra sjónarmiða. Fréttamaðurinn er hér að réttlæta tapaða stöðu árásaraðila eftir á og reyna að gera þeirra hlut betri en hann er. “Stríðið gengur samkvæmt áætlun,” er kjarninn í staðhæfingunni. Er þetta hlutlaus fréttamennska? Eða hefur mál Peter Arnetts kannski orðið honum “víti til varnaðar”?
Síðan heldur þessi einn helsti fréttamaður RÚV í erlendum fréttum til margra ára áfram með lítt dulbúinni fyrirlitningu á því fólki sem stendur í því að mótmæla stríðsrekstrinum og hefur með aðgerðum sínum orðið til þess að ofangreint áróðursstríð vannst ekki með þeim auðvelda hætti sem Bandaríkjamenn ætluðu. “Fólk sem mótmælti framferði Serba og studdi loftárásir Nató á Júgóslavíu er nú að mótmæla stríðinu í Írak” “Fólk sem álasaði Sameinuðu þjóðunum að stoppa ekki fjöldamorðin í Ruanda stendur nú í mótmælum....”. Hvað er fréttamaðurinn að fara hér? Að mótmælendur séu ekki sjálfum sér samkvæmir og fari því best á því að þeir haldi kjafti? Að úr því að þeir töldu að S.Þ. hefðu átt að stöðva þjóðarmorð í Rúanda að þá ...hvað? Svar fréttamannsins kemur fram í niðurlagi setningarinnar sem hann botnaði eitthvað á þessa leið með þessari órökstuddu fullyrðingu: “... jafnvel þó Saddam Hussein beri ábyrgð á miklu fleiri mannslífum en morðingjarnir í Rúanda” Sem sagt: Saddam er verri en þjóðarmorðin í Rúanda þar sem um einni milljón manna var slátrað á örfáum vikum sökum þess að þeir voru ekki af sama ættbálki og morðingjarnir. Ergo: Þar sem fólk vildi að Sameinuðu þjóðirnar stöðvuðu blóðbaðið í Rúanda, þá ættu þeir sem mótmæla stríðinu í Írak í raun að vera sammála stríðsaðgerðum Bandaríkjamanna og “alþjóðasamfélagsins”. Niðurstaðan er sem sagt aftur að mótmælendur séu sjálfum sér ósamkvæmir í málflutningi og aðgerðum og því ekki trúverðugir.
Fyrst fólk vildi stöðva blóðbað í Afríku í gær þá á það að vera sammála blóðbaði í Írak í dag. Það þarf auðvitað sérstakan snilling til þess að geta stillt málum upp með þessum hætti og um leið að ætlast til þess að hann haldi andlitinu sem “fréttamaður” á “virtustu fréttastofu landsins” En þá ber auðvitað að taka tillit til þess að maðurinn hefur margra ára reynslu í fréttaflutningi af þessu tagi.
Sem blaðamaður til margra ára og sem áhugamaður um fréttaflutning þá ætlast ég til að Fréttastofa sjónvarps bjóði almenningi ekki upp á svona hlutdrægan og að þvi sem virðist meðvitað villandi fréttaflutning. Ef fréttamaðurinn Ólafur Sigurðsson gerir sér ekki grein fyrir því hvernig “fréttir” hann er fær um að flytja þá ætti faglegur metnaður og dómgreind samstarfsmanna hans að vera slík að lágmarki að þetta mál verði tekið til skoðunar í þeirra hópi á faglegum forsendum. Ef svona “fréttir” halda áfram að birtast er trúverðugleiki fréttastofunnar endanlega fokinn út um gluggann. Trúverðugleiki mótmælenda stríðsins í Írak stendur hins vegar óhaggaður.
Páll H. Hannesson blaðamaður og félagsfræðingur.