PENINGAR EIGA AÐ HAFA ANDLIT
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsis 01/02.08.20.
Góð vinkona mín til margra ára þreytist ekki á því að minna mig á að ekkert gerist án gerenda. Það segi aðeins hálfan sannleikann að vísa til þess sem gerst hafi án þess að tilgreina hvers vegna og af hvers völdum. Þetta er náttúrlega hárrétt hjá minni góðu vinkonu, það gerist ekkert af sjálfu sér.
Einu sinni voru flokksblöð á Íslandi og öllum var sýnilegt hvernig hagsmunaþræðir stjórnmálanna lágu inn á ritstjórnarskrifstofurnar og hvernig þeir síðan birtust lesendum blaðanna. Svo var hætt að reka flokksblöð og þau urðu fagleg sem kallað var. Álíka fagleg og ríkisbankarnir eftir einkavæðingu. Margir töldu það hafa verið mikið framfaraskref að losna við pólitískar tilnefningar í bankaráðin enda væri nú allt á hinum faglegu nótum og allir hættir að vera pólitískir eða hagsmunatengdir.
Eða hvað? Voru stjórnendur ef til vill allir komnir í sama flokkinn? Ráku þeir nú sérhagsmuni pyngjunnar? En hvers pyngja skyldi það vera?
Hagsmunir eru í sjálfu sér hvorki góðir né slæmir. Í lýðræðisþjóðfélagi eru á því mismunandi skoðanir hvaða hagsmunir teljist góðir og hverjir slæmir. En við ættum að geta sammælst um að hagsmunir og hagsmunatengsl eigi ekki að fara dult, ekki hvíla í skugga heldur hafa andlit.
Ég hef fyrir því rökstuddan grun að faglegheitin séu oftar en ekki dulargervi þeirra sem ekki vilja sjást. Eins konar huliðshjálmur. En manneskjan í hinum faglega manni er að sjálfsögðu þarna enn. Hún er til staðar á kosningadaginn og þegar greiddur er út arður, framlengdir samningar um skipan í nefndir og ráð og þegar ávinningur er veginn og metinn. Þess vegna skipta kerfi máli og hvaða hvatar eru byggðir inn í þau bæði til hvatningar og til aðhalds.
Atvinnurekendur og samtök þeirra hafa talað opinskátt um það hvernig lífeyrissjóðunum skuli beitt í þágu hagsmuna sem þeim hugnist. Stundum hafa þeir gerst mjög nákvæmir í forskrift sinni, til dæmis hvernig sjóðirnir skuli nú koma Icelandair til bjargar. Þetta hefur þótt hið besta mál, fullkomlega eðlilegt og að sjálfsögðu faglegt.
Svo kemur skyndilega hljóð úr gagnstæðri átt. Forseti ASÍ segir hrægamma á flugi, hnita yfir bráð sinni, og formaður VR andmælir því að lífeyrisjóðir séu látnir þjóna gömmum: Ekki krónu til Icelandair á meðan þar er vaðið um á skítugum skónum, segir verkalýðshreyfingin og er öllum sýnileg. Ekkert skuggatal þar. Ég var í hópi þeirra sem fagnaði þessum yfirlýsingum og geri enn.
Í mínum huga er það nefnilega ámælisvert að hlaupa til með milljarða launafólks til stuðnings fyrirtæki þá stundina sem það treður á réttindum starfsfólks.
En viti menn, nú rís upp á aftufæturna samansúrrað stofnanaveldi landsins og fordæmir vekalýðsforingja sem leyfa sér að tala máli almennings. Það er sagt vera óhæfa, nánast glæpsamlegt, að lífeyirrsjóðirnir hlíti skuggastjórnum sem segi faglegum sjóðsstjórnum fyrir verkum. Skuggastjórnirnar svonefndu eru vel að merkja ekki þær sem raunverulega sitja í skugga því enginn þekkir haus né sporð á meintum fagmönnum, heldur er átt við fulltrúa verkalýðsfélaganna sem kjörnir voru til að standa vörð um hagsmuni launafólks og verjast misnotkun á lífeyrissjóðunum. Þeirra er að leggja línur og láta í sér heyra á stundum sem þessum. Að sjálfsögðu!
Það eru öfugmæli að kenna við skuggann þau sem koma hreint fram og vilja kveikja ljósin.
Stjórnir verkalýðsfélaga mega aldrei láta kúga sig til þagnar og undirgefni. Þær eiga að hafa andlit og rödd og kannast við ætlunarverk sitt. Til þess eru verkalýðsfélögin, að standa uppi í hárinu á ósvífnu auðvaldi. Það er þeirra hlutverk og því ber að fagna þegar þau rækja það hlutverk og láta hart mæta hörðu.
Auðvald skilur vald auðsins. En það er ekki sama hver hefur peningavaldið á hendi og beitir því. Þegar það þykir vera rangur aðili, rangir hagsmunir, rangt fólk, þá þarf að safna liði á fjölmiðlum, í ríkisstjórn og á Alþingi til þess að setja lög sem tryggi að “fagmennska” sé í heiðri höfð.