PERMANENT PEOPLES´TRIBUNAL – ROJAVA VS. TURKEY
Í vikunni - miðvikudag og fimmtudag - frá morgni til kvölds, hef ég setið sem límdur við sæti mitt í fyrirlestrasal Vrije Universiteit Brussel, VUB (Frjálsa eða óháða háskólans í Brussel). Tilefnið er að kallaður hefur verið saman PERMANENT PEOPLE´TRIBUNAL (Almanna-dómstóllinn) til að komast að niðurstöðu um stríðsglæpi Tyrkja og handlangara þeirra í Rojava, sjálfstjórnarhéraði Kúrda í Norður-Sýrlandi.´
Handlangararnir eru nú orðnir stjórnendur Sýrlands, komnir í jakkaföt með bindi en spurningin er hvort heila-forritið hefur tekið breytingum. Engu að síður kann að hafa skapast staða sem gæti gagnast Kúrdum en það er önnur saga og sú saga er enn ósögð því enn getur hún aðeins byggt á getgátum.
Almannadómstállinn á rætur til frumkvæðis Bertrands Russels, Jean Paul Sartre og fleiri talsmanna mannréttinda á sjöunda áratug síðustu aldar. Áður hefur dómstóllinn tekið fyrir stríðsglæpi Tyrkja gegn Kúrdum. Það var í mars 2018 og sótti ég þann viðburð einnig. Reynslan þaðan hefur lengi setið í mér og var ég því ákveðinn að mæta til Brussel til að fræðast. (https://www.ogmundur.is/is/greinar/brot-a-kurdum-skodud-i-anda-bertrands-russells )
Þessi reynsla var vægast sagt hrikaleg. Verst er að verða eina ferðina enn vitni að þögninni sem hefur umlukið ofbeldið, morð, eyðileggingu á mannvirkjum, sjúkrahúsum, orkuverum, vatnsveitum, prentsmiðjum eyðilegging á menningarverðmætum (sumar frá því í fornöld á minjaskrá Sameinuðu þjóðanna), kirkjugörðum (áhrifarík myndbönd voru sýnd) og síðan nauðgunum og öðru ofbeldi. Valdhafaskipti í Sýrlandi hafa engu breytt. Árásirnar eiga sér enn staða, á hverjum einasta degi. Alt er óbreytt – líka þögnin.
Kúrdarnir í Rojava eru þekktir fyrir að reyna að koma á því sem þeir kalla Democratic Confederalism, “lýðræðislegt samvinnuform” að forskrift Abdullah Öcalan, helsta talsmanns Kúrda í Tyrklandi og Sýrlandi. Þetta fyrirkomulag byggir á því að ólíkur hópar séu kallaðir að borði sem er mikilvægt í þjóðfélagi sem samanstendur að mjög ólíkum hópum – og þar sem það tíðkast að ráðandi hópur níðist á fólki annarrar trúar eða öðru þjóðerni. Þetta er fyrir komulagið sem hugsjónamaðurinn Haukur Hilmarsson lét lífið til að verja og berjast fyrir. https://www.google.com/search?q=haukur+hilmarsson&rlz=1C1BNSD_enIS998IS998&oq=Haukur+&gs_lcrp=EgZjaHJvbWUqBggAEEUYOzIGCAAQRRg7MgcIARAuGIAEMgYIAhBFGDkyBwgDEC4YgAQyBwgEEAAYgAQyBwgFEC4YgAQyBwgGEAAYgAQyBggHEEUYPNIBCDcxMzVqMGo3qAIAsAIA&sourceid=chrome&ie=UTF-8 Það var árið 2018. Hann hafði haldið þangað 2017 með liðssveit International Freedom Battalion til að berjast við hlið varnarsveita Kúrda, the Peoples´ Defense Units, YPG.
Lykilatriði í baráttu Kúrda í Rojava er jafnrétti kynjanna en konur í Rojava hafa þar látið mjög að sér kveða. Þess vegna hefur spjótum sérstaklega verið beint að forystukonunum og þær margar myrtar. Við sáum á myndböndum hermenn „Frjálsa sýrlenska hersins“, stundum kallaður „Sýrlenski lýðræðisherinn“ eða „Sýrlenski þjóðarherinn“ en sá síðastnefndi var stofnaður 2017 á grunni «Frjálsa sýrlenska hersins», að uppistöðu til harðlínumenn með rætur í ISIS. Allt voru þetta sveitir sem börðust gegn Assad stjórninni, stundum undir regnhlif eða sjálfstæðar eins og hreyfing forsætisráðherrans nýja Ahmed Hussein al-Sharaa, einnig þekktur undir skæruliðanafni sínu Abu Mohammad al-Julani en hefur haft viðkomu í al- Queda og ISIS, stofnaði síðan al-Nusra en hefur á allra síðust árum verið í forsvari Hay'at Tahrir al-Sham (HTS). Af þeim samtökum hef ég hlustað á hryllilegar frásagnir af grimmdarverkum undanfarna tvo daga í Brussel.
Forystumenn þessara afla eru nú komnir í ráðherrastöður í Damaskus. Þeir eiga að baki ljótan feril mannréttindabrota en eiga það sameiginlegt að hafa starfað í náinni samvinnu við Tyrklandsstjórn sem hefur stýrt ofbeldinu gegn Kúrdum.
Á einu myndbandi (sem morðingjarnir dreifðu sjálfir, enda meint til að hræða) sáum við forystukonu úr röðum Kúrda skotna til bana. Sá sem þarna beitti morðvopni gegn þessari óvopnuðu konu situr nú í varnarmálaráðuneytinu í Damaskus.
Hryllingurinn í því sem við sáum í vitnaleiðslunum er meðal annars fólginn í þeirri yfirvegun sem býr að baki ofbeldinu.
Ekki skortir fínu heitin sem árásarstríð gegn Kúrdum hefur verið kallað, „Operation Olive Branch“ (Árás Tyrkja á Afrin 2018, þá voru 95% borgarbúa Kúrdar, nú eru þeir 25%), „Operation Peace“ , „Friðaraðgerð“ hét árásin 2019, þá einhentu Tyrkir og handlangarar sér í að eyðileggja innviði, sjúkrahús, vatnsveitur og orkuver í Rojava. Þá var haldið áfram þjóðflutningum, skipta út íbúum, Kúrdum, kristnum mönnum og gyðingum og flytja inn araba og Tyrki í þeirra stað. Á vissan hátt er þetta fólk sem þannig er notað í mínum huga einnig fórnarlömb.
Drónaárásum á almenna borgara – börn og konur sérstaklega – eru greinilega gerðar beinlínis til að gera lífið svo óbærilegt að engin önnur úrræði séu en að flýja en þar með sundrast samfélagið. Þetta er markmiðið með ofbeldinu.
Lýsingar á nauðgunum voru kapítuli út af fyrir sig svo skefjalaust var ofbeldið. Það segir sína sögu um við hvað er að eiga að konur sem ætluðu að bera vitni fyrir dómstólnum fengu ekki vegabréfaáritun inn á Schengen svæðið! Tyrkland er í NATÓ, því má aldrei gleyma. En við sáum þær engu að síður bera vitni á myndböndum.
Vitnisburður einnar konunnar var sérstaklega áhrifaríkur, hún hafði verið að heimsækja eiginmann sinn í fangelsi þegar hún var handtekin og haldið í fangesi í tvö ár, nauðgað og pyntuð allan tímann. Eiginmaðurinn var drepinn á pyntingarbekknum. Körlum var líka nauðgað sagði þetta vitni en fyrst og fremst hefur þetta verið hlutskipti kvenna og hefur rannsóknarljósi verið beint að hundruðum kvenna sem sætt hafa nauðgunum og pyntingum í fangelsum Tyrkja og sveita “Frjálsa Sýrlandshersins.“
Okkur var sagt að ofbeldið gegn konum væri hluti af hernaði Tyrkja og handlangara þeirra, greinilega til þess ætlað að sundra fjölskyldum og samfélagi.
Bráðabirgðaniðurstaða dómstólsins sem lesin var upp á dagslok var afdráttarlaus um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni. Niðurstaðan verður kynnt nánar eftir nokkrar vikur. Ástæða er til að rýna í þær niðurstöður og koma þeim á framfæri.
Ég mun ekki láta mitt eftir liggja.
---------------------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/