Fara í efni

PÉTUR GUNNARSSON OG AUGNABLIKIÐ SEM VARIR

Pétur Gunnarsson rithöfundur segist hafa verið lítið gefinn fyrir fyrir söguþráð í bókum sínum, meira fyrir andartakið. Enda heitir heimildarþáttur sem Sjónvarpið sýndi um hann hinn 16. maí síðastliðinn, Lofsöngur til augnabliksins.

Þótt viðfangsefni Péturs hafi löngum verið augnablikið þá hefur þetta augnablik hans tekið sér bólfestu í hjörtum heillar kynslóðar og rúmlega það því hann höfðar til bæði ungra og aldinna, ekki aðeins til okkar sem erum honum samtíða og á besta aldri eins og við myndum orða það, eða kannski eins og við viljum hafa það.

Frá því er skemmst að segja að þáttur Arthúrs Björgvins Bollasonar um Pétur er afbragðsgóður og ber þar einnig að þakka fagmennsku og hugkvæmni Jóns Egils Bergþórssonar og Eggerts Gunnarssonar sem sömdu handrit, mynduðu og klipptu þáttinn.

Þetta er ekki fyrsti þáttur Arthúrs Björgvins um íslenskan listamann og fleiri munu þættirnir vera væntanlegir. Þetta er mikið og gott framtak sem hefur menningarsögulegt gildi. Arthúr Björgvin er svo aftur verðugt viðfangsefni sjálfur, tifandi af frumleika og sköpunarkrafti.

Þátturinn um Pétur Gunnarsson er bæði fróðlegur og skemmtilegur; meira að segja stórskemmtilegur auk þess að vera vitnisburður um merkan mann; vitnisburður sem þarf að lifa. Það gerir Pétur Gunnarsson vissulega í verkum sínum, frumsömdu efni og þýddu en þarna fáum við að kynnast manninum beint, húmornum jafnframt sögulegum rannsóknum og heimspekilegum vangaveltum hans.

Pétri Gunnarssyni hefur verið lýst sem skáldi hversdagsleikans,
segir Arthúr Björgvin í upphafi þáttarins. Það kann að vera rétt. En þá er það líka rétt að úr hversdagsleikanum smíði hann dýrgripi, augnablik sem vara - varanleg augnablik.

Og undir lokin nefni ég til gamans eitt lítið smáatriði. Það leyfi ég mér vegna þess að þegar öllu er á botninn hvolft er verið að fjalla um mann sem segir að smáatriði séu leyfileg hafi þau þýðingu. Og hafi þau ekki þýðingu megi gefa þeim þýðingu.
Undir blálokin í þættinum er vísað í ummæli Péturs um að klófesta augnablikið. Þá höfðum við setið með þeim Pétri og Arthur Björgvin á kaffihúsi í París þar sem velt var vöngum um einmitt þetta. Í bakgrunni mátti sjá hvar tveir menn sátu undir vegg og áttu í ákafri samræðu þegar annar bókstaflega gleypir reykinn úr sígarettu sinni. Hvað þeir ræddu vitum við ekki en hver veit nema að það hafi verið eitthvað sem átti eftir að lifa augnablikið.
Jarðbundinn áhorfandi spurði hins vegar sjálfan sig af sagnfræðilegum áhuga á tímatalinu hvenær Arthur Björgvin hefði klófest Pétur Gunnarsson í París eða hvort það virkilega gæti verið að menn væru enn að taka niðrí sig Gulauois á kaffihúsum Parísar.

Ég mæli með því að þeir sem ekki hafa séð þáttinn opni á þessa slóð og njóti eins og nú er í tísku að segja: https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/petur-gunnarsson-lofsongur-til-augnabliksins/34941/ad74mh

---------------------------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.