Fara í efni

PÓLITÍSKT PAR

Þessi mynd er tekin árið 2009 af þáverandi formanni og varaformanni Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssyni og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, yfir sig hamingjusöm á sviði saman. Þetta var að sjálfsögðu áður en Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði og Evrópusinnar sögðu sig frá Sjálfstæðisflokknum og mynduðu Viðreisn.

Eflaust er mismunandi mat fólks á því hvor flokkurinn standi lengra til hægri en mín skoðun hefur lengi verið sú að Viðreisn samanstandi af ákafari hægri mönnum en að Sjálfstæðisflokkurinn sé aftur á móti hagsmunabandalag fjármagnsafla landsins, tilbúnari til að sveigja af leið hægri rétttrúnaðar ef hagsmunirnir kalla á slíkt. Ekki svo að skilja að ég telji Viðreisn vera prinsippfasta, síður en svo, en hún stendur nær bókstaf pólitískrar kreddu – er «hyggju» flokkur.

Í Alþingiskosningunum 2007 fékk Sjálfstæðisflokkurinn 36,6% atkvæða og 25 þingmenn. Samkvæmt Morgunblaðinu í dag er Sjálfstæðisflokknum spáð 11,7% fylgi og 8 þingmönnum en Viðreisn 21,5% og 15 þingmönnum. Samanlagt grerir þetta 33,2% og 23 þingmenn. Ívið minna fengju klofinn Sjálfstæðisflokkur þannig nú en árið 2007 en þá er að því að hyggja að ætla má að talsverður hópur Sjálfstæðismanna sé kominn yfir í Miðflokkinn sem seint verður kenndur við vinstri stefnu þótt sálalíf þess flokks sé harla margslungið.

Síðan er vafasamt að skoða kosningaspár og kosningatölur einar sér heldur þarf að horfa til til pólitískra áherslna. Sjálfstæðisflokkurinn er náttúrlega enn við sitt gamla hægri heygarðshorn en er orðinn hömlulausari en áður var. Nefni ég þar hvernig hann hefur borið sig að við að brjóta niður dreifikerfi áfengis í því skyni að þjóna sem best prívathagsmunum. Fyrr á tíð hefði Sjálfstæðisflokkurinn hlustað á heilbrigðisstéttir og forvarnarsamtök sem alla tíð fram að þessu hafa átt sterka talsmenn innan flokksins sem hlustað hefur verið á. Það sem meira er, Sjálfstæðisflokkurinn lætur lögbrot á þessu sviði afskiptalaus þótt hann fari með löggæslu- og dómsmál. Fyrir bragðið dregur enn úr breidd flokksins.

Viðreisn hefur frá því í vöggu verið eindreginn málsvari peningafrjálshyggjunnar, formaðurinn harðdræg í einkavæðingu á ráðherrastóli – gerði Ríkisúrvarpið að hlutafélagi illu heilli svo dæmi sé nefnt. Þorgerður Katrín getur ekki beðið eftir að brjóta niður ÁTVR þótt ALLAR heilbrigðisstéttir landsins mótmæli.

Sjálfstæðisflokkur og Viðreisn munu, að því ég tel líklegt, vilja staðfesta lög um eignarhald fiskeldismanna á fjörðunum, greiða fyrir einkavæðingu innviðanna og beygja sig enn betur í duftið fyrir stríðsmöngurum NATÓ ef það á annað borð væri mögulegt sem ég reyndar er ekki viss um að sé hægt.

Mér finnst ástæða fyrir fólk sem telur sig vera að styrkja víðsýni jafnvel félagsleg sjónarmið með stuðningi við Viðreisn, að hugleiða söguna - leikendur og persónur - Bjarni og Þorgerður Katrín voru pólitískt par og í mínum huga er þau það enn.

----------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.