Fara í efni

RÁÐSTEFNA TIL HEIÐURS SJÖFN INGÓLFSDÓTTUR

Í gær fór fram í Ráðhúsi Reykjavíkur ráðstefna um málefni eldri strarfsmanna en ráðstefnan var haldin til heiðurs Sjöfn Ingólfsdóttur fyrrverandi formanni Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar. Eftrifarandi ræða var þar flutt:

Þessi ráðstefna fjallar um vinnumarkaðinn, sérstaklega stöðu eldra fólks og hún er haldin til heiðurs Sjöfn Ingólfsdóttur, félaga í verkalýðshreyfingunni til áratuga, formanni Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar til margra ára, varaformanni BSRB í áratug, fulltrúa launafólks í nefndum og ráðum, sjóðum og stofnunum innanlands og utan.
Hér ægir mörgu saman. En þannig er líka lífið. Ekki síst á okkar tímum. Við lifum nefnilega umbrotatíma. Gömul form eru að leysast upp og taka á sig nýja mynd.
Mig langar í upphafi að staðnæmast við þrjá þætti þar sem gamalgróin landamæri eru að riðlast. Þessir þættir eru menntun, kynferði og sérstakt viðfangsefni okkar hér í dag, aldur.

Tuttugusta öldin var framfaraskeið almennrar menntunar og eftir því sem leið á öldina jókst margvísleg sérhæfing og langskólanám; námið gerðist fyrirferðarmeira í lífi einstaklinganna og einnig í hugum þeirra. Svo mikið tóku menn að leggja upp úr langri menntun að fólk fór jafnvel að greina sig í félög á grundvelli þess hve lengi það hefði setið á skólabekk. Til urðu félög langskólamenntaðra og svo önnur þar sem fólk með skemmri menntun var innanborðs. Þannig er til Félag starfsmanna Stjórnarráðsins og svo einnig Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins!
Undan þessari skiptingu er nú óðum að molna. Fólk gerir sér grein fyrir því að skilgreining 20. aldarinnar á menntun dugir ekki fyrir hina 21. öld. Nú lýkur námi aldrei. Sú hugmynd að við séum á við poka sem fylltir eru af þekkingu og síðan bundið fyrir; við útskrifuð út í lífið – með gráðum og stimplum og með þekkingarforða sem dugi okkur út lífið – þessi hugsun gengur ekki upp í samfélagi sem tekur örum og stórstígum framförum – breytingum og endursköpun öllum stundum, nánast frá degi til dags! Og í samræmi við þessa þróun hefur það orðið til sem svo ágætlega hefur verið kallað símenntun. Mér þykja þessar breytingar vera stórkostlegar, á sinn hátt eru þær frelsandi. Þær eru áreitnar, þær setja  á okkur kvaðir og kröfur um að sýna stöðuga árvekni, um að vera sívakandi, síleitandi, síung.

Um all langa hríð hafa samtök launafólks gert sér grein fyrir þessum sannindum og þess vegna barist fyrir aukinni starfs- og símenntun. Iðulega hefur þessi barátta tengst kröfum um bætt kjör. Þar erum við hins vegar komin inn á vettvang sem vandratað er um. Mín skoðun er sú að okkur beri að efla og bæta hvers kyns menntun sem gæði í sjálfu sér. Sú hætta er nefnilega fyrir hendi, að ef hver einasti áfangi á „strafsmenntunarbrautinni“ verður mældur í krónum og aurum muni það byggja tregðulögmál inn í samskipti launafólks og atvinnurekenda. „Við krefjumst menntunar“, segir launafólkið „og síðan viljum við fá sérstaklega fyrir hana greitt.“ Varla er þessi nálgun líkleg til þess að auka áhuga atvinnurekenda á því að hafa starfsmenn í stöðugu námi!
Hitt er svo annað mál að því meiri menntun sem fólk öðlast á starfssviði sínu, þeim mun meiri færni í starfi sem á endanum færir svo aftur betri kjör. Atvinnurekendur átta sig þá einnig á því að þegar öllu er á botninn hvolft eru hagsmunir gagnkvæmir hvað þetta snertir. Þar að auki má það ekki gleymast að samfélaginu öllu verður betur borgið ef símenntun er virk í atvinnulífinu.

Aftur að pokanum: Sú var tíðin að litið var á nemann sem eins konar poka sem troða þyrfti í fróðleik og þekkingu af ýmsu tagi. Því meira sem færi í pokann þeim mun menntaðri væri viðkomandi. Nú er í stöðugt ríkari mæli lögð áhersla á að kenna vinnuaðferðir. Þær gera fólk sjálfbjarga. Námskeið sem gerir fólk sjálfbjarga um frekari þekkingaröflun er vel heppnað námskeið. 

Tvær ástæður valda því að ég vík sérstaklega að þessum breytingum. Önnur er sú, sem ég áður gat um, að í breyttri afstöðu manna til menntunar má sjá spegilmynd af þjóðfélagi í gerjun, þjóðfélagi á fleygiferð í átt til uppstokkunar. Hin ástæðan er sú að Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar og reyndar Reykjavíkurborg einnig hafa sýnt djúpan skilning á þessum breytingum. Í formannstíð Sjafnar Ingólfsdóttur hefur rík áhersla verið lögð á starfsmenntun, nauðsyn símenntunar og fyrir hönd BSRB hefur hún tekið þátt í starfi sem þessu tengist, verið einn helsti fulltrúi bandalagsins á sviði fræðslumála á samstarfsvettvangi verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda, þar á meðal ríkis og sveitarfélaga.

Ég nefndi líka kynferðið. Hefur eitthvað breyst þar í jafnréttis- og jafnræðisátt? Það fer eftir því hver mælikvarði okkar er. Við höfum nýlega fengið það staðfest í rannsóknum að á tíu árum hefur ekkert þokast í þá átt að eyða kynbundnum launamun, eða svo lítið, að það tæki árhundruð að ná því marki með sama hraða. Með öðrum orðum, breytingarnar á hraða hægfara snigils, nokkuð sem við verðum að taka til gagngerrar og kröftugrar endurskoðnuar.
En mælikvarði okkar á framförum á þessu sviði gæti verið annar. Við gætum til dæmis notað spádóma Hans Friedenthals, sem var prófessor við Berlínarháskóla, á öndverðri 20. öldinni til grundvallar. Skrif þessa manns segja okkur nefnilega svolítið um viðhorf og þá ekki síður viðhorfsbreytingar sem orðið hafa á einni öld. Prófessor Friedenthal skrifaði árið 1914: “Störf sem reyna á hugann munu verða til þess hin nýja kona mun verða sköllótt, auk þess sem aukin karlmennska hennar og fyrirlitning á fegurð mun auka hárvöxt á andliti hennar. Í framtíðinni munu konur almennt vera sköllóttar með alskegg.”

Á okkar dögum má öllum ljóst vera að Hans Friedenthal mun ekki hljóta heiðurssæti í sögunni sem spámaður mikill. Nú gagnast það okkur helst að við vitna í þennan virðulega prófessor og hans líka í gamansömum dúr, okkur til skemmtunar. Við spyrjum í forundran hvernig það hafi getað gerst að svona skuli hafa verið talað – jafnvel þótt við gefum okkur að prófessor Friedenthal hafi ekki verið dæmigerður fyrir sína samtíð.
En það er einmitt hollt að hugsa til baka, því margt af því sem þykir sjálfsagt nú var það ekki fyrir hundrað árum. Ekki heldur fyrir fimmtíu árum. Og meira að segja er það svo að margt af því sem Sjöfn Ingólfsdóttir tók sér fyrir hendur sem kornung stúlka fyrir fimmtíu árum, jafnvel fjörutíu árum og þrjátíu árum er ekki alvanalegt í dag. Þar verður mér hugsað til hvalskurðarmeistarnas, vörubílstjórans, þjónsins og verkfallsvarðarins á kajanum, allra þeirra starfa sem Sjöfn Ingólfsdóttir gegndi um dagana áður en hún gerðist bókavörður í Bústaðahverfinu í Reykjavík og þar með félagi í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar – félaginu sem hún hefiur síðan átt samleið með fram undir eftirlaunaaldurinn. Og erum við þá loksins komin að meginmálinu: Aldur og starf.

Ef eitthvað er afstætt þá er það aldur og viðhorfin til aldurs. Þessi viðhorf eru breytileg. Þau eru bæði einstaklingsbundin og þau eru ef til vill líka kynslóðabundin. Mér þótti merkileg könnun sem við gerðum hjá BSRB fyrir nokkrum árum – að vísu ekki mjög vísindaleg könnun en könnun þó – um viðhorf félaga okkar til þess hve æskilegt þau teldu það vera að eiga kost á að vinna fram í háan aldur. Svörin voru breytileg frá manni til manns en einnig mátti greina kynslóðaskiptingu. Unga fólkið kvaðst vilja lágan lífeyrisaldur – vildi komast sem fyrst á eftirlaun en kynslóðin sem þegar eygði eftirlaunaaldurinn vildi fá að vinna lengur – helst sem allra lengst.
Ég held að á þessu sviði sem öðrum eigi eftir að verða mikil breyting, starfsumhverfið komi til með að einkennast af hreyfanleika og sveigjanleika þar sem mið verði tekið af þörfum og óskum hvers og eins, líkamlegum og andlegum burðum einstaklinganna en ekki horft til fæðingardagsins eins og nú er gert. Þegar erum við farin að aðlaga lífeyriskerfið að þessum breytta veruleika eins og komið verður inn á síðar á þessari dagskrá.

Í þessu sambandi finnst mér vera þess virði að vitna aftur í gamlan spádóm merkilegan og stórkostlega rangan. Hann hef ég úr ársriti amerísku, sem heitir Futuremics, en í 1975 heftinu er því haldið fram að almennur eftirlaunaaldur launþega í Vesturheimi árið 2000 verði að öllum líkindum kominn niður í 47 ár!
Þetta reyndist ekki ganga eftir. Þetta speglar hins vegar tíðaranda og löngun manna til að ljúka starfsævi snemma. Ég tel að sá sveigjanleiki sem ég vék að, og finnst vera æskilegur, eigi að taka til starfsævinnar allrar. Lífið, námið og vinnan eiga að vera samofin og við eigum að innræta okkur það viðhorf að vinna og aldur þurfi ekki endilega að haldast hönd í hönd. Aðalatriðið hlýtur alltaf að vera hvort aðstæður eru góðar, heilsan í lagi, kjörin bærileg og síðast en ekki síst hvort vinnan sé gefandi. Ekki hvort sá sem vinnur er tvítugur eða áttræður. Í samræmi við þetta höfum við hjá BSRB lagt mikið kapp á að uppræta æskudýrkun á kostnað reynslunnar. Það er frá okkar rótum runnið að efnt hefur verið til sérstaks átaks á vegum stjórnvalda til þess að styrkja stöðu eldra fólks í atvinnulífinu, nokkuð sem við komum til með að heyra nánar frá hér á ráðstefnunni á eftir.

En hvað með Sjöfn og aldurinn? Sjöfn Ingólfsdóttir hefur í mínum huga alltaf verið aldurslaus enda hefur hennar viðkvæði jafnan verið: Segðu mér ekki hvað þú ert gamall, heldur hvað þú getur. Ef hugurinn er ungur, þá er maður ungur.

Þetta er jákvætt viðhorf, sólskinsviðhorf enda hefur Sjöfn alltaf verið barn sólarinnar. Hún fæddist á sólríkasta sumri síðustu aldar, 17. júlí – það veit ég því við eigum sama afmælisdag og keppumst alltaf um að vera fyrri til með kveðjurnar – árið 1939. Og að sjálfsögðu ólst hún upp á Sólheimum í Svínavatnshreppi í Austur- Húnavatnssýslu. Það má eiginlega til sanns vegar færa að tal hennar sjálfrar um lífið og tilveruna sé einnig sólríkt. Það vakti athygli mína þegar ég las stórskemmtilegt viðtal Þorleifs Óskarssonar, sagnfræðings, við Sjöfn í Fréttabréfi Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar fyrr á þessu ári, hve ljónheppin Sjöfn telur sig hafa verið í nánast hverju skrefi sem hún hefur stigið á lífsleiðinni. Ég ætla að leyfa mér að vitna örlítið í þetta viðtal. Þar segir Sjöfn m.a.: "Ég tel mig hafa verið mikla lánsmanneskju hvað ég átti góða að og hvað ég kynntist mörgu á uppvaxtarárunum. Að þeim fjársjóði hef ég búið alla tíð. Mér finnst ég hafa fengið allt það besta sem hægt er að hugsa sér. Ég ólst upp í fjölbreytileika sveitarinnar, kynntist lífsbaráttunni þar og þeirri samhjálp og umhyggju í garð náungans sem almennt tíðkaðist í dreifbýlinu. Ég komst í nána snertingu við gamla sveitalífið og kynntist gömlu vinnubrögðunum – þegar hestasláttuvélar voru gulls ígildi, þegar hey var bundið í bagga og reitt heim á hestum og útengi heyjuð. Húsakynnin í Sólheimum voru, allt þar til ég var komin á fermingaraldur, stór og rúmgóður torfbær. Menn lifðu af gæðum náttúrunnar eins og frekast var kostur. Í ám og vötnum var silungur veiddur í net og saltaður í tunnur fyrir veturin., og þannig mætti áfram telja. Og umgengnin við náttúruna, lífsbjörgina okkar, einkenndist yfirleitt af umhyggju og virðingu."
Og síðar þessi litla gullvæga, lýsandi setning: "Á heimili okkar var alltaf nóg rými fyrir aðra." Ég held að þarna hafi Sjöfn ekki aðeins átt við rými húsakynna heldur hugarfars, væntumþykju, samkenndar, í mínu húsi rúmast allir.
En ég var að tala um heppnina. Hina ljónheppnu Sjöfn Ingólfsdóttur. Hún var svo heppin að sveitakennslan fór að verulegu leyti fram á Sólheimabænum þannig að barnung naut hún góðs af. Á Sauðárkróki gekk hún á gagnfræðaskóla. "Það var mjög hagstætt", segir Sjöfn í viðtalinu góða, " því þar bjó fóstursystir mín."  Svo var haldið suður til náms og starfa. Þar var Sjöfn "svo heppin að fólkið sem ég leigði hjá útvegaði mér vinnu í Hvalstöðinni í Hvalfirði að sumrinu....Ég vann líka sem þjónn á veitingahúsum á kvöldin og fram á nótt og það var heppilegt að því leyti að börnin sváfu meðan á því stóð."
Og sagnfræðingurinn rekur garnirnar úr fráfarandi formanni Strarfsmannafélags Reykjavíkurborgar skilmerkilega og af nákvæmni fræðimannsins. Varla var það algengt spyr sagnfræðingurinn, að konur hafi keyrt vörubíl á sjöunda áratug síðustu aldar." Nei en það vildi nú svo til," svarar Sjöfn, " að þennan sama vörubíl hafði kona keyrt áður. Ég veit það ekki en kannski hefur hún verið með fyrstu konunum sem kom nálægt slíku. Annars var upphafið að þessum akstri mínum veðmál milli mín og verkstjórans. Við komumst að því konurnar að allir karlarnir, ungir sem gamlir, voru einum og jafnvel tveimur launaflokkum hærri en við. Í samningum verkakvennafélagsins Framsóknar var hins vegar kveðið á um að konur og karlar í sömu verkamannastörfum skyldu hafa sömu laun. Þegar við fórum að spyrja um launamuninn var fátt um svör nema það helst að karlarnir keyrðu vörubílinn, strákarnir gripu nú af og til í traktorinn og þar fram eftir götunum. Ég svaraði því til að ég gæti keyrt traktor og því væri vörubíllinn ekkert vandamál enda enginn munur á. Verkstjórinn veðjaði þá við mig að þetta gæti ég ekki. Ég tók veðmálinu, vann það og fyrir vikið fengum við konurnar einn launaflokk. Sumir myndu eflaust vilja túlka þetta framtak svo að hugur minn hafi greinilega verið farinn að hallast að þátttöku í verkalýðsbaráttu. Svo var þó ekki, ég vann bara veðmálið og það var gott."

Ég hafði sannast sagna mög gaman af þessari frásögn því hún er ekki aðeins aldarspegill heldur einnig á sinn hátt ágæt mannlýsing. Þetta var ekki neitt, ég vann bara veðmálið!
Sama hógværð kemur fram þegar Sjöfn Ingólfsdóttir er minnt á það í viðtalinu að hún hafi verið fyrsta konan sem gegndi formennsku í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar í 80 ára sögu þess. " Ég hugsaði satt best að segja ekkert um að það væri eitthvað sérstaklega merkilegt að kona væri að taka við þessu embætti þegar það kom í minn hlut árið 1990 og það var aldrei gert neitt með það til eða frá. En þegar maður veltir þessu fyrir sér þá er það auðvitað umhugsunarvert. Vissulega var karlaveldi fyrr á tíð, bæði í mínu félagi og hreyfingunni almennt, rétt eins og í þjóðfélaginu öllu. Frá því að ég kom að þessari hreyfingu með beinum hætti man ég að sjálfsögðu eftir mörgum kempukonum..." Með öðrum orðum, ekki halda að ég ein eigi heiður skilnn. Og Sjöfn klykkir út í þessum hluta viðtalsins með því að segja að þótt jafnrétti hafi þokað fram á við þá sé mikið starf óunnið á þeim vettvangi.

Já, það er mikið starf óunnið. Og ég hef trú á því að þrátt fyrir allar heitstrengingar um hið gagnstæða þá sé Sjöfn Ingólfsdóttir ekki sest í helgan stein heldur eigi hún eftir að sýna okkur að ekkert samhengi er á milli aldurs og starfa.

Sjöfn Ingólfsdóttir, hefur aldrei verið mikil áhugamanneskja um að skipa fólki á bása. Hún hefur ávallt verið fulltrúi frelsisins, hinnar frjálsu hugsunar einsog líf hennar allt ber vitni um. Hún hefur unnið öll sín verk af nærgætni og dugnaði, og aldrei haft áhyggjur af því hvort verkið væri ætlað ungum eða gömlum, karli eða konu. Sjöfn hefur gengið illa að skipta verkum í kvennastörf eða karlastörf, störf fyrir unga eða störf fyrir gamla, brúna eða gula, Íslendinga eða útlendinga. Fyrir henni Sjöfn er aðalatriðið vel unnið verk.

Þetta veit Kristján Loftsson manna best og heyrst hefur að hann hafi boðið Sjöfn að byrja þar sem frá var horfið og mun Sjöfn að því ég best veit hefja störf sem verkstjóri í Hvalstöðinni nú á mánudaginn.

Sem áður segir fundust þeir karlar í upphafi síðustu aldar sem höfðu dálitlar áhyggjur af afleiðingum þess að konur færu að hugsa og brölta á vinnumarkaðnum.
Sjöfn tók snemma þá áhættu að leyfa heilastarfseminni að vera í fullum gangi og hefur henni ásamt mörgum kynsystrum hennar tekist að hemja skeggvöxtinn, með ágætum.

Ég er ekki einu sinni viss hvort Sjöfn hefur nokkurn tíman vitað hvað hún er gömul. Og þarafleiðandi hefur enginn velt því fyrir sér heldur. Allir hafa hins vegar alltaf verið klárir á því að hún er kona, það lá jafn ljóst fyrir þegar hún var að skera hval og þegar hún stjórnaði stjórnarfundum, sem tók ákvarðanir um gæslu á milljörðum lífeyrissjóðs LSS.

Þótt Sjöfn hafi ekki haft það sérstaklega á heilanum, frekar en annað sem varðar hana sjálfa, þá hefur hún í verkum sínum rutt braut fyrir konur og karla og sýnt að konur geta bæði skorið hval og sýslað með milljarða. Og það án þess að falla í stafi yfir því. Það er verst að prófessor Friedenthal er ekki hérna með okkur til að sannfærast og kannski umfram allt að slaka á og gleðjast yfir því að spádómar hans og martraðir urðu aldrei að veruleika.

Að lokum þetta: Sumir munu halda því fram að þótt Sjöfn geti eitthvað, þá sé ekki þar með sagt að hið sama gildi um alla. Það kann að vera rétt, og er að sjálfsögðu rétt, en hitt er jafn rétt, að það hefur ekkert með kyn eða aldur að gera. Það hefur bara með eina persónu að gera. Hún heitir Sjöfn Ingólfsdóttir og til heiðurs henni höldum við ráðstefnu í dag og þökkum henni samfylgdina – það er að segja – það sem af er leiðinni.
Ögmundur Jónasson


.