Fara í efni

RÁÐSTEFNUR OG MÁLÞING


Ég vil vekja athygli á tveimur ráðstefnum sem fram fara í dag. Í morgunsárið efnir Heilbrigðisráðuneytið til morgunverðarfundar undir heitinu NÝ VIÐHORF - NÝJAR LAUSNIR - AUKIN JÖFNUÐUR. Þar verða flutt þrjú erindi: Guðbjörg Lind Rafnsdóttir, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands flytur erindi sem heitir: Kreppan, heilbrigðiskerfið og vinnutengd líðan Jóns og Gunnu.Sigurður Thorlacius, dósent við læknadeild HÍ fjallar um Tengsl atvinnuleysis og heilsufars og Inga Jessen, viðskiptafræðingur fjallar um eigin lífsreynslu: Að hafa endalausan tíma, atvinnulaus í kreppunni. Síðan eru fyrirspurnir og umræður til 9:30 en þá lýkur fundinum.

Starfsfólk í heilbrigðisþjónustu er sérstaklega hvatt til að mæta en allir eru velkomnir. Morgunverðarfundurinn er haldinn á Grand Hótel í Reykjavík og hefst með ávarpi mínu klukkan 8:15.

Í kvöld er síðan málþing af öðrum toga þótt viðfangsefnin kunni að skarast. Grunngildin í heilbrigisþjónustunni eru vissulega af siðferðilegum toga líkt og efni málþings í Hafnarfjarðarkirkju í kvöld. Þar munu frambjóðendur fyrir komandi Alþingiskosningar ræða ,,Siðferði og samfélag". Málþingið fer fram í Strandbergi, Safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju og hefst kl 20.

Þátttakendur eru Bjarni Harðarson, Höskuldur Þórhallsson,  Lúðvík Geirsson, Valgeir Skagfjörð, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir auk mín. Ævar Kjartansson, guðfræðingur stjórnar umræðum ásamt prestum kirkjunnar og mun nýta efni málþingsins í útvarpsþátt. Í fréttatilkyningu um málþingið segir:

,,Siðferði og samfélag"er  mikilvægt umræðu- og viðfangsefni nú þegar endurskoðun á innri gerð og viðmiðunum í samfélaginu er brýn eftir efnhagshrun í þjóðfélaginu og fylgjandi umskipti á kjörum landsmanna, högum þeirra og háttum. Jafnframt skiptir máli fyrir marga hvaða afstaða er tekin til kirkju og kristni í þessu samhengi. Alþingiskosningar eru framundan og knýja á um að viðmið og áherslur  alþingismanna og stjórnmálaflokka liggi ljóst fyrir um siðferðilegt uppgjör í samfélaginu og hver leiðarmerkin verði við endurreisn þess.  Allir eru velkomnir."