RÆÐUM SAMAN MÁLEFNALEGA
07.12.2007
Birtist í DV 06.12.07.
Undanfarna daga hafa birst á blog-heimum ótrúlegar hótanir í garð einstaklinga sem hafa tekið þátt í sjálfsagðri og mjög brýnni umræðu um kvenfrelsismál. Ég hef skoðað þessi skrif og neita því ekki að mér varð mjög hverft við. Hótað er hrottafengnum nauðgunum og öðrum líkamsmeiðingum og höfð í frammi meiðandi og særandi ummæli um fólk. Þessar hótanir eru settar fram í nafni einstaklinga en einnig er um að ræða nafnlaus skrif. Í netheimum geta menn farið huldu höfði en þegar skrif birtast á nafnkenndum heimasíðum hljóta eigendurnir að vera jafnframt ábyrgðarmenn. Enginn á að komast upp með að þagga niður lýðræðislega umræðu með ofbeldishótunum. Þær hótanir sem hér um ræðir hafa einkum beinst gegn okkur, sem skipum raðir Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, og munum við að sjálfsögðu leita allra leiða til að tryggja öryggi okkar gagnvart þeim sem hafa í hótunum við okkur. Sjálfum finnst mér einboðið að lögreglu sé jafnan gert viðvart þegar haft er í hótunum við fólk um alvarlegar líkamsmeiðingar. Samfélagið á ekki að þola að einstaklingur sé beittur ofbeldi með þessum hætti. Þetta snertir samfélagið einnig á annan hátt: Ef ofbeldismönnum tekst að þagga niður umræðu um mannréttindamál með hótunum um líkamsmeiðingar, er ekki aðeins í húfi hagur þess einstaklings sem fyrir slíkum hótunum verður. Hótunum af þessu tagi er nefnilega stefnt gegn samfélaginu öllu; mannréttindabaráttu, frjálsum skoðanaskiptum; þeim er stefnt gegn sjálfu lýðræðinu.
Þegar mál af þessu tagi koma upp reynir mjög á fjölmiðla því þeir hafa með fréttaflutningi sínum og sem vettvangur umræðu mikið vald til að hafa áhrif á umræðuna og í hvaða farveg hún beinist. Þessar línur set ég á blað til þess að hvetja til yfirvegaðrar og málefnalegrar umræðu um inntak þeirra baráttumála sem hótanirnar beinast gegn.
Undanfarna daga hafa birst á blog-heimum ótrúlegar hótanir í garð einstaklinga sem hafa tekið þátt í sjálfsagðri og mjög brýnni umræðu um kvenfrelsismál. Ég hef skoðað þessi skrif og neita því ekki að mér varð mjög hverft við. Hótað er hrottafengnum nauðgunum og öðrum líkamsmeiðingum og höfð í frammi meiðandi og særandi ummæli um fólk. Þessar hótanir eru settar fram í nafni einstaklinga en einnig er um að ræða nafnlaus skrif. Í netheimum geta menn farið huldu höfði en þegar skrif birtast á nafnkenndum heimasíðum hljóta eigendurnir að vera jafnframt ábyrgðarmenn. Enginn á að komast upp með að þagga niður lýðræðislega umræðu með ofbeldishótunum. Þær hótanir sem hér um ræðir hafa einkum beinst gegn okkur, sem skipum raðir Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, og munum við að sjálfsögðu leita allra leiða til að tryggja öryggi okkar gagnvart þeim sem hafa í hótunum við okkur. Sjálfum finnst mér einboðið að lögreglu sé jafnan gert viðvart þegar haft er í hótunum við fólk um alvarlegar líkamsmeiðingar. Samfélagið á ekki að þola að einstaklingur sé beittur ofbeldi með þessum hætti. Þetta snertir samfélagið einnig á annan hátt: Ef ofbeldismönnum tekst að þagga niður umræðu um mannréttindamál með hótunum um líkamsmeiðingar, er ekki aðeins í húfi hagur þess einstaklings sem fyrir slíkum hótunum verður. Hótunum af þessu tagi er nefnilega stefnt gegn samfélaginu öllu; mannréttindabaráttu, frjálsum skoðanaskiptum; þeim er stefnt gegn sjálfu lýðræðinu.
Þegar mál af þessu tagi koma upp reynir mjög á fjölmiðla því þeir hafa með fréttaflutningi sínum og sem vettvangur umræðu mikið vald til að hafa áhrif á umræðuna og í hvaða farveg hún beinist. Þessar línur set ég á blað til þess að hvetja til yfirvegaðrar og málefnalegrar umræðu um inntak þeirra baráttumála sem hótanirnar beinast gegn.