Rætt um árangur í Reykjavík
Vinstrihreyfingin grænt framboð í Reykjavík efndi í dag til félagsfundar um borgaramálefnin. Uppleggið var að fræðast um starf R-listans, "taka út stöðuna" eins og Svanhildur Kaaber komst að orði í inngangserindi sínu, og " veita félagsmönnum tækifæri til að koma ábendingum og skilaboðum til fulltrúa sem starfa á vegum flokksins í borginni".
Vel á fimmta tug félagsmanna sótti fundinn sem var afar fróðlegur.
Svanhildur Kaaber fór yfir málefnasamning R-listans og minnti á aðkomu VG að smíði hans, undir forystu Sigríðar Stefánsdóttur þáverandi formanns VG í Reykjavík.
Árni Þór Sigurðsson, forseti borgarstjórnar, sagði frá áherslum innan stjórnsýslunnar almennt, fjárhagsáætlunum borgarinnar og athugunum sem fram færu á því hvernig efla megi almenningssamgöngukerfið í borginni. Ýmsa aðra þætti ræddi Árni einnig.
Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi, fór m.a.yfir stöðuna í húsnæðimálum og sagði að frá 1. mars næstkomandi yrðu greiddar sérstakar húsaleigubætur til tekjulágs fólks og væri þetta fyrst og fremst ætlað til þeirra sem væru á biðlistum eftir húsnæði hjá borginni og þyrftu að leita út á rándýran húsaleigumarkaðinn. Gerðu fundaremnn góðan róm að þessu. Einnig voru menn ánægðir að heyra að í haust mun hluti 5 ára barna fá frían leikskóla en þetta er í samræmi við pólitíska stefnu VG að gera leikskólann gjaldfrían í áföngum. Þá kom fram að ráðgert væri að á árinu 2006 hefði náðst það takamark að öll börn 18 mánaða og eldri ættu kost á leikskólaplássi. Einnig var rætt um félagsþjónustu fyrir aldraða og voru óskir um að efnt yrði til sérstaks fundar um það efni. Þá var bent á það af hálfu nokkurra fundarmanna að nauðsynlegt væri að hækka stuðningsgreiðslur til fólks sem þyrfti að treysta á Félagsþjónustuna um framfærslulífeyri.
Katrín Jakobsdóttir, sem sæti á í Fræðsluráði fjallaði um skólamál. Hún sagði að á kjörtímabilinu yrði búið að ná því takamarki að bjóða upp á heitar máltíðir í öllum skólum borgarinnar. Katrín sagði frá foreldraráðum við skólana en þau væru hugsuð sem samræðufarvegur á milli foreldra og starfsmanna skólanna. Kvað Katrín brýnt að tryggja sérstaklega aðgengi fatlaðra foreldra og foreldra sem væru af erlendu bergi brotnir, að þessari samræðu við "skólann". Fram kom hjá Katrínu að heldur hefði fækkað nemendum í einkaskólum í borginni en hún vakti jafnframt athygli því að nýskipaður menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, stefndi að því að styrkja einkaskólana til jafns við opinbera skóla. Fundarmenn kváðu þarna kristallast sá grundvallarmunur sem er á milli stefnu Sjálfstæðisflokksins og R-listans í borginni. Önnur dæmi um þennan grundvallarmun voru tilgreind á fundinum svo sem tilraunir Sjálfstæðisflokksins til þess að draga úr framlagi til almenningsamgangna.
Óskar Dýrmundur Ólafsson fjallaði um skipulagsmál og kom margt fróðlegt fram í máli hans. Á meðal þess, sem rætt var í framhaldi af framlagi Óskars Dýrmundar á fundinum var færsla Hringbrautar en greinlegt er að óánægja er með það í röðum VG, að sú stefna sem fulltrúar VG hafa fylgt um að setja Hrinbrautina í stokk, skuli ekki hafa náð fram að ganga. Vildi Óskar Dýrmundur kenna pólitískri stýringu í Samgönguráðuneytinu um það. Áhugi kom fram um að ræða þetta mál frekar.
Tryggvi Friðjónsson ræddi málefni Orkuveitur Reykjavíkur. Vék hann að frumvörpum sem væru á teikniborði ríkisstjórnarinnar í raforkumálum og um vatnsveitur. Þá ræddi Tryggvi fjárfestingar OR í hlutafélögum, Tetra Íslandi og Línu-neti. Á fundinum kom fram það sjónarmið að þrengingar hlutafélagsins Tetra Íslands minntu okkur á mikilvægi þess að tryggja öryggi í rekstri á grunnþjónustu samfélagsins og hvílíkt glapræði það væri að einkavæða slíka þjónustu. Fram kom hjá Tryggva að OR væri að draga úr fjárfestingum í hlutafélögum og hefði upphæðin sem til slíkra fjárfestinga hefði verið ætluð verið lækkuð úr 300 milljónum í 100 milljónir.
Drífa Snædal, varafulltrúi í Jafnréttisnefnd ræddi um umræðu sem fram hefði farið um að útvíkka jafnréttishugtakið. Þá vék hún að ýmsum þáttum í starfsemi borgarinnar sem snertu jafnréttismálin, þar á meðal kjaramál. Í almennum umræðum á fundinum tóku margir upp þennan þátt og ábyrgð borgarinnar gagnvart láglaunafólki. Drífa Snædal talaði einnig um klámvæðinguna og hve slæmt það væri að borginni væri þröngvað til að standa í því, sem Drífa kallaði "viðbragðsbaráttu" gegn eigendum "súlustaða" sem leituðu sífellt nýrra leiða til að færa út kvíarnar.
Það var lofsvert framtak af Reykjavíkurfélagi VG að efna til þessa fundar. Það er ljóst að mörg verkefni bíða R-listans og vissulega fannst mörgum fundarmönnum of hægt ganga í ýmsum efnum. En jafnframt urðu þeir margs vísari um það mikla og lofsverða starf sem fulltrúar VG vinna í borginni og þann árangur sem þeir hafa náð í starfi sínu. Þegar