Rafmagnseftirliti ábótavant
Birtist í Mbl
Staðhæft hefur verið að rafmagnseftirliti sé mjög ábótavant í landinu í kjölfar þess að horfið var frá opinberu eftirliti með háspennu-og lágspennuvirkjum, þ.e.a.s. dreifikerfum rafveitna og neysluveitum til hins hins almenna notanda. Þess í stað var tekin upp takmörkuð úrtaksskoðun á vegum einkaaðila undir umsjón Löggildingarstofu. Þriggja manna nefnd sem þáverandi iðnaðarráðherra skipaði var falið það verkefni á síðastliðnu sumri að kanna þessa gagnrýni. Nefndin klofnaði í afstöðu sinni meðal annars vegna þess að ekki var samstaða um að leita upplýsinga sem allir nefndarmenn teldu fullnægjandi.
Í ljósi þessa ákváðum við undirritaðir alþingismenn í marsmánuði sl. að gangast fyrir könnun á viðhorfum til rafmagnsöryggismála í landinu. Send voru bréf til löggiltra rafverktaka, rafveitna, tryggingafyrirtækja og aðila sem sinna brunavörnum. Um sexhundruð aðilar voru spurðir álits og fengust svör frá tveimur hundruðum eða um það bil þriðjungi þeirra sem spurðir voru. Helstu niðurstöður könnunarinnar voru eftirfarandi:
Aðeins einn af hverjum fimm sem svöruðu telja núverandi ástand rafmagnsöryggismála viðunandi. Rúmlega þrír fjórðu, 76,5% telja hins vegar núverandi ástand rafmagnsöryggismála óviðunandi.
78% telja að af hálfu opinberra aðila hafi ekki nægilega verið kannað ástand rafmagnsöryggismála eftir að breytingar voru gerðar á eftirlitskerfinu.
82,5% þeirra sem svara telja að eftirlitskerfinu beri að breyta, þar af vilja 38% hverfa til fyrra fyrirkomulags en 44,5% vilja nýtt eftirlitskerfi, þar sem til greina kæmi nýtt fyrirtæki á vegum hins opinbera með dreifingu starfsmanna um land allt.
Í könnuninni var spurt um markaðseftirlit raffanga og töldu 59% svarenda því vera ábótavant. Aðeins 7,5% töldu að einkareknar skoðunarstofur ættu að annast þetta eftirlit. Hins vegar vildi um helmingur að sömu aðilar og sjá um eftirlit raforkuvirkja sinni eftirliti raffanga.
Byggðafjandsamlegar breytingar
Nýskipan öryggismála hefur verið gagnrýnd á ýmsum forsendum og vegur þar þyngst að dregið hafi úr eftirliti og þar með öryggi. Þá hefur verið bent á byggðasjónarmið og því haldið fram að starfsemi sem áður fór fram utan Reykjavíkursvæðisins hafi verið flutt á suðvesturhornið þar sem skoðunarstofurnar eru staðsettar en þær munu núna vera tvær talsins. Einkavæðing rafmagnseftirlitsins hefur þannig orðið til þess að veikja byggðalög fjarri þéttbýlissvæðinu á suðvesturhorninu. Hitt er svo staðreynd að gagnrýnin á breytt fyrirkomulag hefur ekki síður komið frá þéttbýli en dreifbýli.
Leitað eftir þverpólitískri samstöðu
Mikilvægt er að rafmagnsöryggismálum verði komið í betra horf en nú er og höfum við afráðið að taka málið upp á Alþingi þegar það kemur saman í haust. Þröng flokkspólitík má ekki villa mönnum sýn enda höfum við orðið varir við að einstaklingar úr öllum stjórnmálaflokkum hafa áhyggjur af því hvernig þessum málum er komið og áhuga á því að færa þau til betri vegar. Af þessum sökum munum við leita eftir breiðri þverpólitískri samvinnu um málið innan veggja Alþingis.
Ögmundur Jónasson og Gísli S. Einarsson