Fara í efni

RANGAR STAÐHÆFINGAR UM ICESAVE

FB - Re - Icesave
FB - Re - Icesave

Stundum hef ég það á tilfinningunni að suma þeirra sem undu því illa að þjóðin hafnaði Icesave samningunum, hreinlega langi til að við töpum þessu máli. Nýlega sá ég mann hlakka yfir því að útlensk vinkona hans hefði orðið fyrir vonbrigðum þegar hann hefði sagt henni að víst ætluðu Íslendingar að borga fyrir Icesave. Hún hafði greinilega staðið í þeirri trú - réttilega vil ég meina - að Íslendingar ætluðust til þess að þrotabú Landsbankans og að einhverju leyti innistæðutryggingar myndu borga innistæðueigendum fyrir tapað fé, en ekki íslenskir skattgreiðendur. Konan var frá Grikklandi og sá í Íslandi von um uppreisn gegn alþjóðafjármagninu. 

Spilað með fé skattgreiðenda

Í leiðara Fréttablaðsins síðastliðinn laugardag gat síðan eftirfarandi að líta:„Önnur vinsæl mýta er að með því að hafna tveimur Icesave-samningum sem forseti Íslands vísaði til þjóðaratkvæðagreiðslu hafi íslenzkir skattgreiðendur komið af sér þeirri áþján að borga fyrir óreiðumennina sem settu Landsbankann á hausinn. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur það rétta skýrt í ljós: Icesave-málinu er ekki lokið. "Þar sem ekki tókst að ljúka málinu með samningum mun niðurstaða þess ráðast fyrir EFTA-dómstólnum. Aðilar munu engu að síður þurfa að semja sín á milli um endurgreiðslu og vexti verði niðurstaða málsins íslenskum stjórnvöldum í óhag," segir Ríkisendurskoðun.
Úrslit síðustu atkvæðagreiðslu þýða að Ísland hefur ekki lengur stjórn á niðurstöðunni með samningi, heldur getur nú brugðið til beggja vona. Ísland gæti unnið mikið á dómsniðurstöðunni og líka tapað miklu. Þeir sem réðu því að málið er komið í þessa stöðu eru ekki hetjur heldur fremur fjárhættuspilarar með fé skattgreiðenda."

Málflutningur Íslands

Þetta er rangt bæði hjá Ríkisendurskoun og leiðarahöfundi Fréttablaðsins. Það er vissulega rétt að eftirlitsstofnunin ESA (les: fulltrúar Noregs og Lichtenstein) kærðu Íslendinga til EFTA-dómstólsins og vildu sýna fram á meinta ábyrgð íslenskra stjórnvalda - les: skattgreiðenda, hvað varðar Icesave skuldbindingar.
Málflutingur Íslands frammi fyrir EFTA-dómstólnum gengur hins vegar út á að sýna fram á að sú ábyrgð hvorki var né er fyrir hendi. Þetta hélt ég að Íslendingar sameinuðust um. Það á hins vegar greinilega ekki við um Ríkisendursoðun og Fréttablaðið, sem virðast vera sömu skoðunar og Bretar og Hollendingar.

Röng framsetning Ríkisendurskoðunar og Fréttablaðs

 Í málflutningum fyrir EFTA dómstólnum er fjallað um það hvort þessi stofnun telji að Ísland hafi brotið gegn tilskipun um innstæðutryggingar. Þar er ekki fjallað um fébótaábyrgð ríkisins. Niðurstaða um fébótaábyrgð mun því ekki ráðast af niðurstöðu EFTA dómstólsins. Framsetning Ríkisendurskoðunar og Fréttablaðsins er því röng.
Mál um fébótaábyrgð íslenska ríksins verður aðeins höfðað fyrir Héraðsdómi Reykavíkur. Þar er varnarþing íslenska ríkisins.
En hvers vegna þessi ákafi að koma sök á Íslendinga? Getur verið að menn langi til að við förum halloka í þessu máli? Og hvað fjárhættuspilarana áhrærir, sem Fréttablaðið vísar til, þá er það staðreynd að við værum búin að greiða tugi milljarða í vextina sem Bretar og Hollendingar reyndu að þröngva upp á okkur ef þjóðin hefði ekki ákveðið að breyta um kúrs.