RAUÐI KROSSINN FJALLAR UM FÁTÆKT - ER SAMFÉLAGSLÍMIÐ AÐ GEFA SIG?
Í dag fór fram í Reykjavík ráðstefna á vegum Rauða krossins um fátækt. Spurt var: Hvar þrengir að? – Hvers vegna býr fjöldi fólks á Íslandi við fátækt, einagrun og mismunun og hvernig er hægt að bæta úr því?
Framkvæmdastjóri Rauða Krossnis, Kristján Sturluson, kynnti nýja landskönnun samtakanna. Þetta er þriðja könnunn á vegum Rauða krossins um fátækt á íslandi. Sú fyrsta var 1994, síðan var könnun gerð árið 2000 og þá sú sem nú var kynnt. Í öllum þessum könnunum er um að ræða áþekka hópa. Atvinnulausar lítið menntaðar mæður, tilteknir hópar barna og unglinga og geðfatlaðir voru meginhóparnir sem tilgreindir voru í fyrstu könnuninni. Árið 2000 var láglaunafólk komið í hópinn og í könnuninni nú voru tilgreindir auk fyrrnefndra hópa öryrkjar, einstæðir karlar, aldraðir með geðfötlun og síðast en ekki síst innflytjendur.
Skýrsluhöfundar sögðu að það væri sammerkt með þeim sem verst standa að auk fátæktarinnar byggju þeir við mismunun og einangrun.
Rakin voru dæmi sem sýndu svart á hvítu hvernig láglaunafólk á ekki nokkra möguleika á því að sjá sér farborða á mannsæmandi hátt. Það léti því undir höfuð leggjast að sækja læknisþjónustu, taka nauðsynleg lyf, hvað þá gangast undir aðgerðir sem kostuðu tíu til tuttugu þúsund krónur, jafnvel miklu hærri upphæðir. Einstaklingur með 90 þúsund krónur á mánuði til ráðstöfunar ætti ekki nokkurn kost á slíku. Þarna væri um að ræða mjög alvarlega félagslega mismunun. Þar fyrir utan fengi sjúkt fólk iðulega ekki aðgang að lækni, til dæmis á sviði geðheilbrigðis því biðlistar væru þar langir. Það væri ekki fyrr en fólk væri orðið fárveikt að það kæmist að.
Nokkrir aðilar höfðu verið fengnir til að bregðast við skýrslu Rauða krossins. Þeir nálguðust viðfangsefnið frá mismunandi sjónarhólum en rauður þráður í máli þeirra var fátæktin, mismununin og einagrunin. Enn eitt. Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða krossins, sagði einkennandi að fátækt fólk sem ætti í mestum erfiðleikum "byggi við veik félagsleg tengsl". Það væri með öðrum orðum eitt á báti. Þetta staðfestu flestir fyrirlesara.
Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, reið á vaðið með frábæru erindi, sem bar heitið, Sá veit gjörst hvar skórinn kreppir sem hefur hann á fæti. Hann sagðist mikið hafa unnið með börnum og reynt að skilja þau. Sér hefði lærst að vildi maður skilja börn yrði maður að hlusta á þau. Þetta ætti við um alla, einnig fátækt fólk. Þess vegna þessi titill.
Bragi sagði það vera umhugsunarefni, að hér værum við með niðurstöður úr könnun mjög sambærilegar niðurstöðum fyrir rúmum áratug og ekkert hefði breyst. Þetta vekti siðferðilegar spurningar: Lítur þjóðfélagið á fátækt sem hlutskipti þessara hópa, "örlög sem ekki verði umflúin og því engin ástæða til að bregðast við?"
Bragi kvaðst vilja svara þessu með spurningum, setja þær fram til umhugsunar. Hann spurði: Getur verið að grunnlöggjöfin sem við búum við taki ekki mið af breyttum félagslegum veruleika? Vantar ef til vill fjármagn til þess að lögin þjóni því markmiði sem þeim er ætlað? Eru opinberar stofnanir orðnar svo sjálfhverfar með allri sinni gæðastjórnun, mannauðsstefnu, árangurstengingum, jafnréttisáætlunum, símenntunarprógrömmum, að þær hafi ekki orku til að sinna ætlunarverki sínu: Að þjóna og hjálpa fólki? Hafa fjölmiðlar brugðist? Eru þeir fyrst og fremst að greina frá einstökum harmleikjum fátæktarinnar, gera forvitninlegt fréttaefni, söluvöru, en ekki að rýna í þjóðfélagsveruleika – ástand? Af hverju eru engir útlendir "matssérfræðingar" fengnir til að greina fátæktina á Íslandi eins og stöðugt er nú verið að gera varðandi heilsufarið í fjármálakerfinu? Í spurningum Braga voru svörin fólgin. Hann svaraði þeim sumum sjálfur, eins og varðandi skort á fjárveitingum sem gerðu löggjöf um réttindi fatlaðra svo dæmi sé tekið, nánast að engu – í öðrum tilvikum nægðu spurningarnar. Þær svöruðu sér sjálfar.
Gísli Gíslason, formaður Félags ábyrgra feðra, flutti því næst mjög áhugavert erindi, sem bar titilinn Félagslegur og fjárhagslegur vandi feðra sem eru einstæðir. Varpaði hann ljósi á viðfangsefnið með margvíslegum tölfræðilegum upplýsingum. Hann sýndi fram á hve mikilvægt það væri börnum að njóta uppeldis beggja foreldra sinna og hvernig það sýndi sig tölfræðilega að börn sem meinuð væri samskipti við föður ættu í margfalt meiri erfiðleikum en önnur börn. Hann talaði um sjálfsmynd feðra, hve brötgjörn hún væri þegar þeir væru sviptir samneyti við börn sín og hvernig þetta síðan hefði varanleg áhrif á börnin. Á ráðstefnunni fékk ég í hendur 1. tölublað af riti samtakanna sem ber sama heiti, Ábyrgir feður, en þar er að finna fróðlegt og áhugavert efni.
Þriðja erindið flutti Sabine Leskopf, verkefnisstjóri. Erindi hennar bar titil sem var forvitnilegur: "...og svo kom fólk". Sabine fjallaði um innflytjendur en fram kom einmitt í könnun Rauða krossins að stór hópur úr þeirra röðum býr við allt í senn, fátækt, mismunun og einangrun. Fólkið hefði iðulega "misst hið félagslega net" við flutninginn til framandi lands. Þetta vildi haldast kynslóð fram af kynslóð. Sabine fjallaði talsvert um hin veiku félagslegu tengsl og tungumálaerfiðleika, sem síðan leiddi til enn frekari einangrunar. Ýmsar sláandi upplýsingar komu fram, svo sem að 39% kvenna í Kvennaathvafinu væru af erlendum uppruna. Ýmis úrræði þessu fólki til hjálpar væru greinilega sett fram af skilningsleysi á raunverulegri stöðu fólksins, sagði Sabine. Fátækt vinnulúið fólk mætti þannig ekki á rándýrt námskeið eftir tíu tíma vinnudag! Það þarf að fara með fræðsluna inn á vinnustaðinn sagði hún. Sabine er frá Þýskalandi og sagði frá tyrkneska farandverkamanninum, gastarbeiter, sem fjölmennti til Þýskalands fyrir fáeinum áratugum og aldrei ætlaði sér að setjast að þótt síðar yrði sú raunin. Þá fóru að koma í ljós mannleg og samfélagsleg vandamál. Í upphafi ætluðu bæði atvinnurekandinn og aðkomumaðurinn að stofna til stundarsamstarfs – báðir litu á þetta sem eins konar gestakomu erlendis frá. Þjóðverjar vildu fá vinnuaflið til landsins...en svo kom fólk.
Ingibjörg Georgsdóttir, barnalæknir, sagði í heiti erindis síns það sem var rauður þráður þess: Aðgerðir fylgi orðum. Hún kvað það vera undarlegt að vera í einhverju auðugasta landi heims og vera að fjalla um fátækt. Það væri vitað að lægstu launin dygðu ekki til framfærslu, lægstu bæturnar ekki heldur. Hún sagði að aðgerðir til að bæta úr þessu ófremdarástandi hefðu verið mjög máttlitlar og árangurinn eftir því. Skýrsla hefði verið gerð eftir skýrslu. Það þyrfti ekki fleiri skýrslur heldur aðgerðir. Þetta snerist ekki aðeins um peninga heldur að rjúfa einangrun fólks. Þannig mætti ekki refsa fólki sem væri að hverfa inn í sig, með skerðingum þegar það reyndi að afla tekna og taka þátt í samfélaginu. Hún vék sérstaklega að börnunum og heilsufarinu almennt, minnti á samhengið á milli fátæktar og heilsuleysis og umhugsunarvert var það sem hún hafði að segja um margvíslega áhættuhegðun ungs fólks, sem leiddi til heilsuleysis og tortímingar. Erindi Ingibjargar var kröftug hvatning til aðgerða.
Sigursteinn Másson, formaður Öryrkjabandalags Íslands rak lestina. Hann sagði að Ísland væri norrænt ríki. Ekki norrænt velferðarríki. Þar vantaði mikið upp á. Hann kvað það vera daglegt brauð að hann hitti öryrkja sem brotnuðu saman yfir eymd sinni. Hann sagði að við værum að nálgast úrslitastundu: "Rotnandi burðarbitar samfélagsins eru að gefa sig." Hinir fátæku væru að gefast upp á samfélagi sínu. Búast mætti við andfélagslegri hegðun í vaxandi mæli. Þetta yrðu "ekki kurteisleg samskipti" að hætti verkalýðshreyfingar, "sem bæði um lögregluleyfi til að fá að mótmæla". Við uppreisn mætti búast í landi þar sem annars vegar væri fátækt fólk og vonlaust um úrbætur, hins vegar auðstéttir sem lifðu í allsnægtum. Þetta var alvarlegur boðskapur. Ég hafði á tilfinnigunni að ráðstefnugestir skildu alvöru málsins og tækju hann alvarlega.
Það vita það allir að við þurfum ekki fleiri skýrslur. Nú þarf að framkvæma.
Síðdegis voru vinnuhópar og síðan pallborðsumræður, sem ég því miður hafði ekki tök á að hlýða á. Í kvöldfréttum heyrði ég viðtalsbúta, þar á meðal við Hjördísi Árnadóttur, félagsmálastjóra í Reykjanesbæ. Hún sagði að samfélagið hugsaði nú um stundir meira um þá sem vegnaði vel, síður um hina sem ættu í erfiðleikum. Þessu er ég sammála. Þetta er tíðarandinn. Honum þarf að breyta. Honum verður að breyta til að forða því að samfélagslímið gefi sig. Ég held nefnilega að það sé rétt hjá Sigursteini Mássyni að límið haldi ekki mikið lengur.
Rauði kross Íslands hafi þökk fyrir þessa ráðstefnu og skýrsluna sem lögð var til grundvallar.