Fara í efni

REGLUSTRIKUFÓLKIÐ OG LEO TOLSTOY

Björn Bjarnason er greinilega viðkvæmari maður en ég hafði gert mér grein fyrir. Í skrifi um hann hér á síðunni sagði ég hann vera „virðulegan lífeyrisþega" og að ofstækisfull skrif væru ekki sæmandi fyrir hann sem slíkan. Þetta þykir Birni Bjarnasyni vera tilraun til ritskoðunar!
Ég verð að játa að ekki fæ ég komið auga á þetta samhengi hlutanna og hvet Björn til að halda áfram að skrifa frjálsan og virðulegan.
Það breytir því ekki að hann þarf að fara rétt með, ekki síst þegar mannorð manna er annars vegar.
Í skrifum Björns, þar sem hann meðal annars reisir kröfur um afsögn mína sem ráðherra, reynir hann að draga upp afbakaða mynd af skoðunum mínum.

Um sögulega þræði hugmyndanna
Þannig háttar til að í þætti Jóns Ársæls, Sjálfstætt fólk á stöð 2 sl. haust  reyndi ég að skýra hvaðan ég sækti hugmyndir mínar um jöfnuð, lýðræði og frelsi einstaklingsins. Vísaði ég í þrjá hugmyndastrauma, sósíalisma, anarkisma og líberalisma. Allar þessar stefnur hafa tekið á sig mismunandi myndir  og meira að segja mjög ólíkar. Þetta á við um öll hugmyndakerfi og trúarbrögð einsog dæmin sanna.
Skýringar mínar lætur Björn Bjarnason sér sem vind um eyru þjóta. Kemur þær ekkert við. Hann hefur hins vegar flett upp á netinu og fundið þar skýringu á anarkisma sem er heldur dekkri en sú sem ég hef sett fram.
Nú vill svo til að ég er ekki með öllu ókunnugur þessu viðfangsefni; hef í mörg herrans ár kennt námskeið við Háskóla Íslands sem borið hefur heitið Stefnur og straumar í evrópskum stjórnmálum á nítjándu öld og öndverðri tuttugustu öld.  Þar hef ég meðal annars fjallað um mismunandi strauma innan anarkismans.

Andstæðingar valdbeitingar
Anarkismi  spannar afar vítt svið og undir þann hatt hafa verið settar mismunandi áherslur. Þegar ég var ungur maður las ég nánast allan Leo Tolstoy, hreifst af  innsæi hans í manneskjuna og þóttist þar einnig greina afstöðu sem mér líkaði. Leo Tolstoy barðist nefnilega  gegn hvers kyns rétttrúnaði og valdstjórn var honum eitur í beinum. Hann hefur fyrir vikið verið skilgreindur í sögubókum sem kristinn anarkisti  og hefur honum jafnframt stundum verið líkt við annan andstæðing valdbeitingar, Mahatma Gandhi.

Valdbeitingarfrjálshyggja eða einstaklingsfrelsi?
Þá vekur það athygli mína að þegar Björn Bjarnason vísar í skýringar mínar á mínum eigin skoðunum sleppir hann að minnast á frjálslyndisstefnuna, líberalismann sem  ég jafnan nefni til sögunnar þegar ég geri grein fyrir mér.  Það er eflaust vegna þess að þar telur hann sjálfan sig eiga heima. En vandinn við líberalismann einsog reyndar allar aðrar stjórnmálastefnur er að hún hefur tekið á sig margar myndir og eignast marga málsvara, allt frá frjálshyggjuútgáfu fasistans Pinochets sem fékk Milton Friedman til að ráðleggja sér um efnahagsskipan í Chile til frjálslyndra sjálfstæðismanna á Íslandi upp úr miðri öldinni sem leið. Þá útgáfu líberalismans þekki ég úr eigin uppeldi og nærumhverfi.
Minn snertiflötur við líberalismann er við þá talsmenn stefnunnar sem leggja áherslu á að virðing sé borin fyrir frelsinu og einstaklingnum og rétti hvers og eins - að sjá hóp aldrei sem mengi  heldur sem samsafn mismunandi einstaklinga. Hugmyndir mínar um sósíalismann eru óaðskiljanlegar þessum frelsisþræði.  Ég er að sjálfsögðu ekki einn um þessa afstöðu enda varð  það svo á ofanverðri nítjándu öld og fram á okkar daga að líberalismi og sósíalismi hafa skarast að þessu leyti.

Reglustrikuhugsun
Á þessum landamærum eru skilgreiningar oft á reiki enda lifa frjálshuga menn sig ekki inn í skilgreiningar fræðibóka heldur eru fræðin tilraun til að skýra hugmyndir okkar og viðhorf.
Þetta er að sönnu ekki algilt enda sanna dæmin að ferkantað fólk rétttrúnaðar í stjórnmálum og trúmálum mátar sig gagnrýnilítið ofan í skilgreiningaboxin, hafnar eigin dómgreind en gerist ídeólógískt. Og ofan í boxin vill fólk þannig þenkjandi helst troða öðrum. Sumum líður hreinlega illa ef ekkir er hægt að skilgreina allt og alla með reglustriku.
Leo Tolstoy mun einhvern tímann hafa komið í skóla í Prússlandi að kynna sér kennsluhætti. Verið var að kenna börnunum um dýrin og spurði kennarinn hvað börnin  sæju þegar hestur var sýndur á töflunni. „Þetta er hestur", svaraði eitt barnanna í bekknum. „Nei", sagði kennarinn. „Þetta er mynd af hesti!"
En jafnvel þótt menn séu reglustrikumenn og vilji koma öllum niður í ferköntuð box  þurfa þeir engu að síður að fara rétt með. Og best finnst mér fara á því að maður fái sjálfur að gera grein fyrir skoðunum sínum án þess að reynt sé að afbaka þær og afmynda. Það má Björn Bjarnason vita að ég er fullfær um að finna út úr því sjálfur hvernig ég hugsa.

Sjá skrif Björns Bjarnasonar 04.02.2011: http://www.bjorn.is/dagbok/2011/02