Fara í efni

RÉTTINDI OG SKYLDUR LEIGUBÍLSTJÓRA KOMA ÖLLUM VIÐ

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 07/08.01.23.
Ég held að við eigum það flest sameiginlegt þegar við ferðumst til útlanda og þurfum á leigubíl að halda að við reynum að fá bíl frá viðurkenndri stöð. Við reynum að forðast harkara á svarta markaðnum; teljum traustara að skipta við aðila sem eiga allt undir því komið að hafa einvörðungu trausta menn í sinni þjónustu.

Svo þekkja margir Uber þjónustuna sem hefur verið að ryðja sér til rúms sums staðar erlendis. Hún getur verið þægileg fyrir notandann og ágæt fyrir íhlaupamanninn sem vill drýgja tekjurnar. En réttlitlir eru ökumennirnir ef menn vilja hugsa út í þá hlið – sem að sjálfsögðu á að gera. Leigubílstjórar gegna mikilvægu félagslegu hlutverki og eiga rétt á traustri lífsafkomu eins og aðrar starfsstéttir; þurfa sinn veikindarétt, lífeyrisrétt, að geta eignast húsnæði, farið í frí og stundað menningarlíf og afþreyingu – eins og aðrir.

Skyldu þingflokkar stjórnarmeirihlutans, Sjálfstæðisflokksins, með tveimur undantekningum, Framsóknarflokksins og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs ásamt þingmönnum Samfylkingarinnar og Viðreisnar, hafa hugsað út í þetta þegar þeir samþykktu á síðustu metrunum fyrir jól lög sem kollvarpa réttindakerfi leigubílstjóra? Er það ekki rétt munað að einhverjir úr þessum röðum hafi í haust verið með hástemmdar yfirlýsingar um að ekki mætti veikja réttindi fólks á vinnumarkaði? Hvers vegna var þetta þá gert? Hvers vegna var ekki hlustað á samtök leigubílstjóra sem andmæltu þessum breytingum og hnykktu á með stuttri vinnustöðvun?

Veltum ögn fyrir okkur hverjir kunni að vera fylgifiskar lagbreytinga sem rústa núverandi skipulagsfomi í leigubílaakstri og láta markaðslögmálin um hituna því að nákvæmlega það er ætlunin; að markaðurinn sjái um framboð á þjónustunni og að eftirlit með henni verði á sömu frosendum; að við komum aðeins til með að skipta við heiðvirða menn með sanngjarna taxta.

Reynslan kennir hins vegar að hin ósýnilega hönd markaðarins dugi hvergi til. Eða hvernig halda menn að standi á því að hægt sé að fá pantaðan leigubíl á jólanótt í vondu veðri og geta reitt sig á að stöðluð verðskrá standist, eða að í stétt leigubílstjóra sé aðeins að finna einstaklinga sem eru traustsins verðir til að eiga í samskiptum við fólk í alls kyns ásigkomulagi.

Skýringin á því trausti sem óumdeilt ríkir í garð leigubílstjóra er ofureinföld. Leigubílastöðvarnar sem hér hafa verið starfræktar og bílstjórar sem aka á þeirra vegum vita að á þeim hvíla skyldur og einnig hitt að brjóti einhver bílstjóranna af sér bitnar það á stéttinni allri. Þess vegna sameinast allir um að standa vörð um góða starfshætti og að losa sig við skemmd epli.

Þetta á að sjálfsögðu einnig við um réttláta skiptingu starfans. Fái markaðurinn einn ráðið má ganga út frá því sem vísu að margir sæju sér hag í því að vinna eingöngu þegar eftirspurnin er mest og minnst þarf að hafa fyrir því að ná í viðskiptavini. Í því samhengi er talað um rjómafleytingar. Þetta reyna stöðvarnar og samtök bílstjóra að forðast með skipulagi svo að alltaf séu bílar til þjónustu, ekki of fáir en heldur ekki of margir.

Og enn má nefna samninga við félagsþjónustu og þá aðra sem skipuleggja ferðir fyrir fatlað fólk. Það er umfangsmikil þjónusta sem þarf að búa öruggan starfsramma og stöðugleika. Stendur ef til vill til að ríki og sveitarfélög taki þann rekstur yfir eða er það órætt eins og margt annað?

Er að furða að menn spyrji hverju sæti að ríkisstjórnin ráðist í þessar breytingar? Í nóvember 2021 birti ESA, eftirlitsstofnun EFTA, „rökstutt álit“ þess efnis að íslenska ríkið brjóti á skyldum sínum gagnvart EES-samningnum hvað varðar rétt borgara til að hefja og stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi. Ég ætla að leyfa mér að efast um réttmæti þessa „rökstudda álits“ og fráleitt annað en að láta á það reyna.

En gæti verið að einhverjar efasemdir séu farnar að sækja að ríkisstjórn og Alþingi? Fyrst hafði ætlunin verið að lögin tækju gildi í ársbyrjun. Nú er gildistíminn kominn fram í byrjun aprílmánaðar. Og síðan segir að lögin skuli endurskoðuð að tveimur árum liðnum.

En hvað með að fresta gildistímanum um þessi tvö ár? Í millitíðinni verði fylgst með reynslu Norðurlandanna og annarra Evrópuþjóða af markaðsvæðingu þessarar þjónustu. Formaður Blindrafélags Íslands minnti á það í viðtali við Morgunblaðið í aðdraganda verkfalls leigubílstjóra hve mikilvæg þjónusta þeirra væri sínum félagsmönnum og að við værum með þessum lagabreytingum „að ana út í sama ástandið og hinir eru nú byjaðir að reyna að vinda ofan af og vinna sig út úr.“

Stjórnvöldum ber að hlusta á þennan forystumann úr samtökum fatlaðs fólks sem vísar til biturrar reynslu samherja sinna á Norðurlöndum og að sjálfsögðu á að hlusta á samtök leigubílstjóranna sem þegar allt kemur til alls eru að verja réttindi sem snúa að samfélaginu öllu.