Fara í efni

RÉTTLÆTI EN EKKI HEFND

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 14/15.10.23.
Ekki veit ég hvernig Hannah Arendt hefði brugðist við þeirri martröð sem við verðum nú vitni að við Miðjarðarhafið. Hún var áhrifamikil en umdeild í hugmyndaheimi tuttugustu aldarinnar, gyðingur sem ólst upp í Þýskalandi, hundelt af nasistum, en komst undan og settist endanlega að í Bandaríkjunum. Hannah Arendt setti fram margbrotnar kenningar um sekt og ábyrgð frammi fyrir voðaverkum sem framin væru í skjóli og í nafni ríkisvalds; hver væri ábyrgð einstaklinga og hvar lægi ábyrgð samfélags.

Framlag hennar til umræðunnar um viðbrögð við stórfelldum mannréttindabrotum eru iðulega rifjuð upp þegar stríðsglæpadómstóllinn í Haag eða dótturstofnanir hans eru til umræðu. Sú umræða hefur ekki verið á einn veg, því hvort tveggja hefur verið bæði lofað og lastað, annars vegar hvaða viðfangsefni hafa verið dómtekin og svo hins vegar málsmeðferðin hverju sinni.

En svo við höldum okkur enn við Hönnuh Arendt þá sagði hún um dómstóla sem fjalla um glæpi gegn mannkyni það skipta höfuðmáli að uppræta allt það í þjóðfélaginu sem leiddi til óhæfuverkanna, það dygði ekki að leita uppi seka einstaklinga. Samfélagið yrði að horfa til framtíðar, og það axlaði þá fyrst ábyrgð sína þegar því tækist að fyrirbyggja að óhæfan viðgengist eða endurtæki sig.

Hannah Arendt er merkileg fyrir margra hluta sakir, og þá ekki síst fyrir að minna markvisst á þær hættur sem alræðishyggja leiddi af sér. Þar benti hún á þá bresti, sem henni þóttu vera sýnilegir í þeim siðferðisgrunni sem ætti að vera sammannlegur og aldrei véfengdur. Þegar hvikað væri frá sameiginlegum skilningi á réttu og röngu, að siðferðlegt mat í eina átt væri jafn gjaldgengt og mat í gagnstæða átt, þá væri hætta á ferðum og frítt spil fyrir valdstjórnarmenn að koma með sína eigin útgáfu af réttu og röngu.

Frá Ísrael heyrum við nú gagnrýnar raddir á borð við Gídeon Levy sem hér var á ferð í sumar með fyrirlestur. Hann segir að rangt sé að horfa til örfárra stjórnenda, eins og ég sá að gert var í ritstjórnargrein í Haaretz, blaðinu sem Levy skrifar reglulega í sjálfur. Í leiðaranum var öll sökin á því hvernig komið væri færð yfir á núverandi stjórnvöld í Ísrael. Levy segir hins vegar að vandinn sé kerfislægur, hið pólitíska stjórnkerfi í Ísrael í heild sinni hefði leitt af sér ofbeldi sem síðan leiddi til enn meira ofbeldis.

Þarna erum við aftur á slóðum Hönnuh Arendt sem horfði til Þýskalands nasimans þar sem ofbeldið byggði á opinberri stefnu valdhafa og fékk þrifist vegna þess að almenningur leit á það sem skyldu sína að viðhalda gangverki samfélagsins. Nasistarnir hefðu ekki allir látið stjórnast af grimmd heldur verið framagjarnir bírókratar. Þetta hefði hins vegar verið hið ofbeldisfulla kerfi. Var Hannah Arendt sökuð um að afsaka nasistann Adolf Eichmann á þessum forsendum. Annað hefði verið uppi á teningnum þegar hún hefði horft til þeirra áhrifamanna gyðinga sem hefðu talið að með því að friðmælast við kúgara sína, jafnvel gerast þeim undirgefnir, yrði allt heldur skárra fyrir alla. Þar sögðu gagnrýnendur að Hannah Arendt hefði á óvæginn hátt horft til einstaklingsábyrgðar.

Þetta er umræða sem er hollt að taka. Í mínum huga má hvorki horfa framhjá ábyrgð hvers og eins né kerfislægu ranglæti.

Ég hef farið um herteknu svæðin í Palestínu og rætt þar við fjölda fólks sem orðið hefur fyrir skefjalausu ofbeldi um áratugi af hálfu Ísraelsríkis á meðan valdaöflin I heiminum hafa þagað yfir því eða látið gott heita. Slíkar aðstæður eru jarðvegur hatursins. Þegar illvirki eru framin á hendur Ísraelsmönnum sjálfum gerist hið sama, hatrið blossar upp í þeirra röðum og kynnt er þar undir með því að afmennska andstæðinginn og tekur sú afmennskun oftar en ekki til samfélagsins alls.

Dæmi um þetta eru nýleg ummæli varnarmálaráðherra Ísraels, Yoavs Gallant: ´´Ég hef fyrirskipað fullkomna einangrun Gaza, þar verður ekkert rafmagn, engar matarsendingar, engin olía, allt verður lokað. Við eigum í höggi við skepnur í mannslíki og við munum bregðast við í samræmi við það.”

Þetta eru hryllileg ummæli en ég tiltek þau ekki til þess eins að hneykslast á þeim heldur okkur öllum til umhugsunar.

Þetta er nefnilega vörn og viðbrögð Ísraelsríkis: Grimmilegar hefndaraðgerðir sem bitna á heilu samfélagi sem haldið hefur verið um áratugi innilokuðu á Gaza, stærstu fangabúðum heimsins.

En kúgun veitir hinum kúgaða aldrei rétt til ofbeldisverka á saklausu fólki og réttlætir aldrei grimmdarverk á borð við þau sem við höfum nú orðið vitni að.

Þeim sem standa í eldhafinu miðju er hætt við að blindast af heift og hatri. En þá þurfa þeir sem standa fjær að sýna þeim mun meiri yfirvegun. Til þeirra á að gera þá kröfu að þeir axli samfélagslega ábyrgð og í anda Hönnuh Arendt og Gideons Levy styðji lausnir sem brjóti vítahring haturs og hefndar.

Vestræn ríki, þar á meðal Ísland, hafa réttilega fordæmt hryðjuverk Hamas, en ekki Ísrales án þess að látið sé fylgja með “að Ísrael hafi rétt á að verja sig.” Þar með er óbeint tekið undir réttmæti þeirra grimmilegu hefndaraðgerða sem áður er vísað til.

Í stað refsingar er þörf á hinu gagnstæða.
Þörf er á réttlæti en ekki hefnd.