Fara í efni

RÉTTMÆTAR KRÖFUR SLÖKKVILIÐS- OG SJÚKRAFLUTNINGAMANNA

Síðastliðinn föstudag birtist forsíðufrétt í Morgunblaðinu undir eftirfarandi flennifyrirsögn:

Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn segja seinagang í kjaraviðræðum: HÖFNUÐU TILBOÐI UM 25% LAUNAHÆKKUN

Í fréttinni var sagt satt og rétt frá. Þar sagði m.a.: "Samninganefnd Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) hafnaði tilboði launanefndar sveitarfélaga (LN) á samningafundi í gærmorgun en tilboðið hljóðaði upp á 25% launahækkun á samningstímanum. Samningar hafa verið lausir frá áramótum. Ekki hefur verið ákveðið hvenær næsti samningafundur fer fram en LSS segir boltann hjá LN.
Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn í LSS samþykktu á fundi sínum í gær ályktun þar sem harðlega er mótmælt "þeim seinagangi og ástæðulausu töfum sem orðið hafa á kjarasamningaviðræðum LN við LSS". Ljóst megi vera að formaður samninganefndar LN beri fulla ábyrgð á þeim töfum sem orðið hafa. "Það er krafa slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, eftir nærri fimm ára samningstíma, að ekki verði samið um annars konar kjör en sæmandi er fyrir okkar mikilvægu, krefjandi og margþættu störf."

Gætir þú hugsað þér 104 þúsund krónur í byrjunarlaun?

Það hljómar sláandi að hafna tilboði um 25% launahækkun og læðist sá grunur að manni að viðsemjendur landssambandsins hafi komið upplýsingunum á framfæri í þessum umbúðum til að grafa undan trúverðugleika slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Hver skyldi svo vera skýring LSS á meintum þvergirðingshætti? Í frétt á heimasíðu sambandsins um þetta efni segir m.a.: " Mikil vonbrigði urðu þegar samninganefnd LN kynnti tillögur sínar. Það ber ekki að líta þannig á málin að samninganefnd LSS hafi búist við tilboði sem hægt væri að taka í fyrstu atrennu heldur töldum við að fram kæmi tilboð sem hægt væri að vinna með áfram og þannig þokast í átt að samningi. Raunin varð allt önnur.
Það tilboð sem kom frá samninganefnd LN var langt undir þeim væntingum sem gera hefði mátt ráð fyrir. Sérstaklega að teknu tilliti til þeirrar umræðu og vinnu sem farið hefur fram innan LN í kjölfar samninga Reykjavíkurborgar við STRV og Eflingu.
Mikið hefur verið rætt um láglaunastefnu LN og þar nefndir til sögunnar hópar eins og starfsfólk á leikskólum, leikskólakennarar og fleiri. Það má teljast sennilegt að almenningur geri sér ekki í hugarlund hversu illa slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn eru launaðir.
Gerðar eru kröfur til nýliða í slökkviliði að hafa iðnmenntun eða sambærilega menntun sem nýtist í starfi, með öðrum orðum, er krafan 4 ára framhaldsnám til að koma til greina. Að auki eru gerðar strangar kröfur um líkamlegt ástand og aukin réttindi ökuprófs. Viðurkennt er að störf slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna eru þau hættulegustu sem unnin eru á friðartímum. Fyrir þetta bjóðast kr. 104.833 í byrjunarlaun.
Enn syrtir í álinn fyrir slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn í samanburði við aðra því inn í grunnlaunum slökkviliðs- og súkraflutningamanna eru þættir sem ekki eru í grunnlaunum annarra og má meta til um 20%. Það þýðir að tilboð LN til samninganefndar LSS hljóðaði í raun upp á 20% lægri upphæð en fram kemur í fyrrnefndu tilboði.
Eðlilegt hlýtur að teljast að slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn velti því fyrir sér hvort tilboð það

sem LN
lagði fram í dag hafi verið hrein og klár móðgun við þau mjög svo hættulegu og mikilvægu störf sem þeir vinna við erfiðar og oft á tíðum fjandsamlegar aðstæður.
Eða gætir þú hugsað þér að vinna þessi störf fyrir 104.000 kr. í byrjunarlaun á mánuði eins og tilboð LN hljóðaði upp á?"

Ótvíræður stuðningur við LSS

Þarna er með öðrum orðum komin skýringin á meintum þvergirðingshætti Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Þeir hafna tilboði um að byrjunarlaun þeirra verði komin í 125 þúsund krónur í árslok 2008!  Hvílíkt vanþakklæti eða hvað? Síðan er hitt, að í launum slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna eru þættir sem almennt standa utan grunnlauna hjá öðrum stéttum. Þetta hefur Vernharð Guðnason, formaður sambandsins tíundað skilmerkilega í fréttum undanfarna daga. Þegar dæmið er gert upp hefði verið nær fyrir Morgunblaðið að slá því upp að samninganefnd sveitarfélaga hafi boðið stétt sem stundar vandasöm, krefjandi og hættuleg störf byrjunarlaun sem nemi 125 þúsund krónum  – ekki núna – heldur að þau verði komin í þessar himinhæðir eftir tæp þrjú ár! Ég er sannfærður um að kröfur Landssambands slökkviliðsmanna njóta víðtæks stunings í þjóðfélaginu og það veit ég að innan BSRB, þar sem LSS á aðild, þykja kröfur sambandsins réttmætar og njóta ótvíræðs stuðnings.    

Sjá heimasíðu LSS